23.10.1937
Efri deild: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (2102)

32. mál, fiskveiðasjóður Íslands

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. hefir varið borið fram nokkrum sinnum í hv. Nd., og í rauninni hafa fleiri frv. komið fram, sem hafa gengið í svipaða átt, þó að ekki hafi orðið úr samþykkt, hvorki á þeim né því frv., sem hefir verið að efni til því nær alveg shlj. þessu frv., sem við flm. leggjum fram og er til umr. í dag. Kjarni málsins er sá, að verða við þeirri nauðsyn, sem sýnilega er þegar á skollin, að sjá lánsstofnun fyrir lífsskilyrðum, lánsstofnun, sem hefði það með höndum að veita lán til þess að efla og endurnýja fiskiskipaflota landsmanna. Þessi lánsstofnun er til, eins og menn vita; það er fiskveiðasjóður, og hann er orðinn margra ára gamall og hefir sannarlega orðið mörgum manni til góðs liðsinnis á undanförnum árum, en það er langt síðan geta fiskveiðasjóðs var allt of lítil í samanburði við þær kröfur, sem til hans hafa verið gerðar, og við þær þarfir, sem honum að eðlilegum hætti hefði átt að vera skylt að uppfylla. En þó að sjóðsstjórnin hafi. að því er ég bezt veit, verið góðum vilja gædd til þess að leysa vandkvæði þeirra manna, sem til fiskveiðasjóðs hafa leitað, þá hefir fjárhagur fiskveiðasjóðs verið og er þannig, að honum er alls ekki mögulegt að inna af hendi, svo viðunandi sé, sitt mikilvæga hlutverk án þess að hann sé efldur, og það verulega. Það hefir verið uppi sú stefna á mörgum þingum að gera þetta, og t. d. má benda á það, að árið 1930 var farið yfir lög fiskveiðasjóðs og þeim breytt, og var þá tilætlunin að efla sjóðinn tiltölulega mjög hratt. Ríkissjóði var gert að skyldu að greiða sjóðnum á 10 árum, held ég, 1 millj. króna, og auk þess var svo fyrir mælt í þessum lögum, að af útfluttum sjávarafurðum skyldi sjóðnum goldið nokkurt gjald, sem líka færi til þess að efla sjóðinn. Þetta var áformað í löggjöf frá 1930, sem lögfest var á því þingi, en það hefir samt sem áður engan veginn nægt, og tæplega hægt að segja, að það hafi þokazt neitt, sem um munar, nær því takmarki að fullnægja þeirri knýjandi þörf, sem er á því að efla fiskveiðasjóð svo sem skyldi. En ástæðan fyrir því, að það hefir ekki enn verið gert, er aðallega sú, að ríkissjóður hefir ekki framkvæmt það, að leggja sjóðnum til það fé, sem ríkissjóður á samkv. lögum að leggja honum, en hitt hefir verið framkvæmt, að leggja skatt á sjávarafurðir, sem að vísu er ekki stór, en hann hefir þó verið tekinn af sjávarafurðum þessi ár, sem liðin eru síðan hann var lögleiddur; en hann út af fyrir sig nær vitanlega skammt til þess að efla sjóðinn svo um munar, þegar hinn aðilinn, sem átti að greiða árlegt gjald til fiskveiðasjóðs, hefir algerlega brugðizt ákvæðum laganna í þessu tilliti. Hitt ráðið var upp tekið, að láta sjóðinn taka lán við Landmandsbanken í Danmörku, að upphæð víst rúmlega það, sem ríkissjóðstillagið átti að nema, en sjóðurinn stendur sjálfur undir því láni, ef ég veit rétt, og ríkissjóður er þar ekki mér vitanlega farinn að hlaupa neitt undir bagga. Ef þetta ráð hefði ekki verið tekið, hefði það vitanlega þýtt sama og að loka sjóðnum, svo að þetta hefir eiginlega verið það eina bjargráð, sem gert hefir verið fyrir sjóðinn á þessu tímabili, að undanskildri þessari skattálagningu, sem ég hefi minnzt á og er þakkarverð, og er góðra gjalda vert, að fiskveiðasjóður var þó efldur á þann veg. En eins og sakir standa, er víst alveg óhætt að segja, að fiskveiðasjóður í dag er tæplega annað en nafnið eitt, og verður ekki annað, nema því aðeins, að gerðar séu öflugri ráðstafanir til þess að gera hann færan um að uppfylla sitt hlutverk, og þess vegna er þetta frv. hér fram komið. Í 2. kafla þess er lagt til að auka stofnfé fiskveiðasjóðs, og er leitazt við að fara þar þá leið í fyrsta lagi, sem gerir ríkissjóði hægara að inna af hendi sínar lögboðnu skyldur gagnvart sjóðnum heldur en ella hefði verið, með því að lagt er til, að ríkissjóður taki að sér skuldir fiskveiðasjóðs við Landmandsbanken, sem nú eru 2/3 af hinn upphaflega láni, að ég hygg, eða um 666 þús. kr., en að afgangurinn til þess að fylla upp í þá milljón, sem löggjafinn lofaði sjóðnum 1930, verði greiddur úr ríkissjóði, eftir nánara samkomulagi, sem um það kann að verða milli sjóðsstjórnarinnar og hæstv. ríkisstj. Ég vil benda á það, að það var tilgangur þeirra, sem upphaflega fluttu þetta mál, og er enn, að finna leið til þess að fullnægja lagaákvæðinn frá 1930 fiskveiðasjóði til stuðnings, án þess að gera ríkissjóði of erfitt fyrir að því er fjárreiður snertir. Þá er lagt til, að helmingur af útflutningsgjaldi sjávarafurða renni í þennan sjóð og haldi áfram að gera það, unz sjóðurinn er orðinn 12 millj. kr., en ef þetta útflutningsgjald verður afnumið, og það er vitað, að það eru uppi raddir um það af hálfu sjávarútvegsmanna að fá jafnrétti við útflytjendur lundbúnaðarafurða að því er snertir útflutningsgjald af afurðum, og því er rétt að gera ráð fyrir, að það kunni að koma fyrir, að útflutningsgjaldinu verði létt af, og þá ætlumst við flm. til þess, að fari svo, að það verði afnumið áður en þessari upphæð er náð, sem ég minntist á, þá verði ¾ af hundraði af verðmæti útfluttra sjávarafurða, sem gjaldinu væri létt af, látið renna í sjóðinn, þar til stofnsjóðurinn nemur þeirri fjárhæð, er áður segir. Hér liggur sú hugsun til grundvallar, að útflutningsgjaldið af sjávarafurðum verði, ef því verður haldið framvegis, látið renna til þess að treysta þennan atvinnuveg, og það er atriði, sem hefir verið svo mikið rætt undanfarin þing, þar sem sömu hv. þm. hafa flestir verið viðstaddir og nú, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara nánar út í það.

Þá er lagt til, að eignir varasjóðs og veðtryggingarsjóðs renni í hinn nýja stofnsjóð fiskveiðasjóðs, og einnig, að eignir skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda renni í stofnsjóð jafnóðum og þau útlán kunna að afborgast, sem lánuð hafa verið samkv. lögum um skuldaskilasjóð. Þetta eru þær leiðir til fjáröflunar, sem við flm. teljum líklegastar og eðlilegastar, eins og öll málefni standa nú til.

Um útlánin skal ég vera stuttorður. Að því er þau snertir höldum við okkur að mestu við þær grundvallarreglur, sem hafa verið gildandi í lögum um fiskveiðasjóð Íslands, en þó er vert að geta þess, að okkur þótti ákvæði þeirra laga að ýmsu leyti of þröng, og höfum við því fært nokkuð út verksvið sjóðsins. T. d. viljum við heimila, að lánað sé út á stærri skip en nú er heimilt lögum samkv., m. ö. o., að til að byrja með sé lánað út á skip, sem eru um 80 rúmlestir að stærð, og ennfremur, að fiskveiðasjóður láni fé til að byggja frystihús, lifrarbræðslur, fiskimjölsverksmiðjur og önnur iðjufyrirtæki, sem eingöngu eða að mestu leyti vinna að hagnýtingu sjávaraflans. Samkv. því orðalagi væri t. d. engan veginn útilokað, að fiskveiðasjóður gæti, ef þetta frv. yrði að lögum, styrkt iðjufyrirtæki, sem ynnu að nokkru leyti úr sjávarafurðum og að nokkru leyti úr landbúnaðarafurðum, eins og vel er hugsanlegt, að hér verði gert í framtíðinni. Svo er í þriðja lagi gert ráð fyrir, að sjóðurinn láni út á skip, sem eru stærri en 80 rúmlestir, en það ákvæði ætlast flm. ekki til, að komi til framkvæmda fyrr en sjóðsstjórnin álítur, að slík lánastarfsemi sé honum megnug. Það er m. ö. o. reynt að líta nokkuð fram eftir veginum með þessu frv. og gera sjóðinn með margra ára samansafni af framlögum frá sjávarútveginum að það sterkri lánsstofnun með tímanum, að hann geti sinnt lánbeiðni einnig frá hinum stærri fiskiskipaflota landsmanna. En það, sem næst liggur fyrir og fyrst verður að snúa sér að, er að endurnýja og efla smáskipaflotann, og þar með teljum við, eins og nú horfir, skip allt að 80 smálestum að stærð. Það er vitanlegt. að um land allt hefir smæstu bátunum heldur verið fækkað og menn hverfa meira að því að nota nokkuð stóra báta til þess að geta leitað eftir fiski víðar en á heimamiðunum, og ýmislegt, sem gert hefir verið af Alþingi á síðari árum, t. d. breytingar á dragnótaveiðilögunum á síðasta þingi, leiðir það af sér, að bátaflotinn má ekki vera þannig úr garði gerður, að hann verði vegna stærðarinnar að vera mjög staðbundinn, heldur er nauðsynlegt, að fiskiskipin, þó að um sé að ræða hin smærri fiskiskip, séu það stór. að þau geti fært sig nokkuð til hringinn í kringum landið, eftir vertíðum og fiskigöngum. Þá er og þess að geta, að með ári hverju fjölgar þeim bátum, er taka þátt í síldveiðum fyrir Norðurlandi, bátum, sem koma að viða af landinu, og þessir bátar mega ekki vera af allra smæstu gerð, heldur verða það að vera skip, sem eru nokkurn veginn fær í flestan sjó, og ætla ég, að það stærðartakmark, sem hér er talað um í þessu frv., muni ekki vera alifjarri sanni að því er snertir síldveiðiskip. Þó skal ekkert um þetta fullyrt, því að þessar till. eru aðeins álit okkar flm., og kemur til álita þeirrar n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að athuga þetta og breyta því, ef þörf þykir með samþykki hv. d., þegar til kemur.

Ég sé ekki, að ég þurfi að fara nákvæmlega inn á fleiri atriði þessa frv., enda þótt grg., sem því fylgir, geri ekki grein fyrir hverri sérstakri gr. frv., en ég geri ráð fyrir, að ef kjarni málsins nær samþykki hv. d., þá muni ekki verða neinn ágreiningur milli okkar flm. og annara hv. dm. um þetta, þó að óskir kæmu fram um að breyta einhverju, eins og t. d. því, hvað lána megi mikið út á skip eða hús eða því um líkt. Við flm. erum að sjálfsögðu fúsir til þess að ræða hverskonar slíkar breyt., sem til orða gætu komið. Það, sem mikilsverðast er í okkar augum í þessu máli, er það, að sameinuð átök geti orðið til þess að efla þessa lánsstofnun bátaútvegsins. Ég vil benda á það, að þó að ráð sé fyrir því gert, að starfsemi fiskveiðasjóðs geti á sinum tíma orðið svo öflug, að einnig hinn stærri fiskiskipafloti landsmanna hafi gagn af, þá ber einkum og sér í lagi við athugun þessa frv. að taka til greina þau ákvæði frv., sem miða að því að bæta sem skjótast úr þeirri knýjandi þörf, sem hinn smærri útvegur landsmanna hefir á öflugri lánsstofnun til þess að koma upp og endurnýja smáskipafiskiflota landsmanna. Mér virðist það vera höfuðkjarni málsins. að góður vilji og glögg athugun megi hér ráða þá bót á, sem sjávarútvegurinn vissulega hefir þörf fyrir og hundruð manna, sem að honum standa, óska eftir að ráðin verði. Fiskveiðasjóður er í raun og veru merkisstofnun, og var það vel til fallið, þegar til hans var efnt. Ég tel ekki þörf á því að vera að byggja neinn nýjan grundvöll í þessu efni, eins og komið hefir fram hér áður á Alþingi, heldur tel ég fiskveiðasjóð svo góðan grundvöll bæði lagalega séð og skipulagslega. að það sé vel unnt að byggja ofan á hann og efla hann með þeim breyt., sem hér er gert ráð fyrir, í stað þess að setja á fót einhverja nýja lánsstofnun, er koma ætti í hans stað. Við vitum það allir af afskiptum okkar af fiskveiðasjóði, að það er ekki fyrirkomulag hans, stjórn hans eða skipulag, sem hefir staðið í vegi fyrir því, að fiskveiðasjóður gæti leyst af hendi sitt hlutverk, heldur miklu fremur sú fjárþröng, sem þessi lánsstofnun er i. Hitt minntist ég á áðan, og það er gert ráð fyrir að bæta úr því í frv., að verksvið sjóðsins er samkv. núgildandi lögum þröngt, en í þessu frv. er gert ráð fyrir að vikka það svo út, að það út af fyrir sig ætti ekki að geta hindrað sjóðinn í því að ná fullkomnum þroska og verða landsmönnum að fullum notum.

Vil ég svo mælast til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til sjútvn.