27.10.1937
Efri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (2123)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Guðmundsson:

Hv. fyrri þm. Eyf. hefir orðið illa snortinn af því, sem ég sagði við fyrri hl. þessara umr., og reis upp með fítonsanda og krafti til að svara mér. Ég held, að hann hefði ekki þurft að taka þetta svona illa upp, því að hann gaf fyllilega tilefni til þess, sem ég sagði, sjálfur. Það er alveg ósæmilegt að halda því fram, að Sjálfstfl. sé svo ábyrgðarlaus í fjármálum, að hann hugsi ekkert um að afla tekna fyrir þau frv., sem hann flytur um aukin útgjöld. Það vill svo vel til, að Sjálfstfl. hefir haft á hendi stjórn fjármálanna hér á landi. Og ég veit ekki til, að honum hafi farið það verr úr hendi en núv. stjórnarflokkum. Ég vænti þess, að hv. þm. geti ekki mótmælt því. (BSt: Hvað gerðu stjórnarandstæðingar þá?). Þeir gerðu stj. allt til bölvunar.

Ég get endurtekið það, sem ég sagði á laugardaginn, að auðvitað dettur Sjálfstfl. ekki í hug, að ríkissjóður geti verið án svona mikilla tekna, án þess að fá svipaðar tekjur í staðinn. En það er allt of ósanngjörn krafa hjá hv. fyrra þm. Eyf. að heimta, að um leið og borið er fram frv., sem hefir í för með sér útgjaldaaukningu, sé einnig borið fram frv. um tekjuöflun. Þetta mun hinsvegar verða gert síðari hluta þings, þegar séð er, hvers þarf með. Og þetta býst ég við, að verði hyggilegast. Ég skal segja hv. fyrra þm. Eyf. það, hvort sem hann trúir því eða ekki, að við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til samstarfs um þessi mál. En ætli það fari ekki eins og áður, að stjórnarflokkarnir vilja enga samvinnu við minni hl.? Og hvað þýðir þá fyrir okkur að koma fram með till. um öflun tekna?

Hv. fyrri þm. Eyf. sagði, að það væri of mikið bráðlæti af flm. þessa frv. að koma með það svona snemma, og gaf hann í skyn, að það myndi koma frv. um þetta efni af hálfu stjórnarflokkanna, eða kannske af hendi hans sjálfs. Ég get svarað honum þar með sömu rökum og hann svaraði hv. þm. Hafnf., að þeim ber engin skylda til að skyggnast inn í hugi þingmannanna. Hvernig eiga þeir að vita, hvaða samningar ganga á milli stjórnarfl.? Og er þm. kaupstaðanna skylt að bíða, þar til hv. 1. þm. Eyf. þóknast að láta í ljós skoðun sína á þessum efnum og þar til samningar hafa gengið í gegn milli stjórnarflokkanna? Ég skil það ekki.

Hv. l. þm. Eyf. sagði, að það væri ekki rétt, að það hefði komið fram samtímis á þinginu 1935 till. um tekjuaukningu og till. um aukin útgjöld, sem stöfuðu af tryggingarmálum. Þetta er satt. Ég sagði aldrei, að þær hefðu komið fram samtímis, en þær komu á sama þinginu. Og þetta þing er að byrja nú, og því er nóg að koma fram með tekjuaukatill. síðar á þinginu. Hvað vill hv. 1. þm. Eyf. segja um hæstv. fjmrh., sem kemur með fjárlagafrv., sem á er um 900 þús. kr. tekjuhalli? Hann sagði, að það þyrfti að jafna þetta. En hvaða till. hefir hann borið fram í því sambandi? Mér finnst það ærið hart, að hv. 1. þm. l:yf. skuli gera hærri kröfur til stjórnarandstæðinga en stjórnarflokkanna. Þar við má bæta því, að fjárl. hafa alltaf hækkað í meðferðinni hér á þinginu, og það vantar tekjur á móti þeirri hækkun. Hæstv. fjmrh. sagði, að það vantaði líka að sjá fyrir tekjum til að hjálpa bæjar- og sveitarfélögum. Hvers vegna er hv. 1. þm. Eyf. svona glöggur á frv. sjálfstæðismanna, en veitir þessu enga athygli hjá hæstv. fjmrh.? Hann ætti að stinga hendinni í sinn eiginn barm. Ég er sannfærður um, að það er vonlaust fyrir hann að reyna að koma því inn hjá mönnum, að sjálfstæðismenn séu eins ábyrgðarlausir í fjármálum og kommúnistar. (BSt: Kommúnistar virðast sízt vera ábyrgðarminni). Það er ágætt, að hv. l. þm. Eyf. ætlar að blanda fjármálahlóði við kommúnista, og það er bezt fyrir hann að fá samþykki formanns sins flokks, að hann megi gera það.

Hv. þm. sagðist ekki vilja hafa nein eftirkaup við flm. þessa frv. Ég vil benda honum á, að hann þarf ekki að hafa nein eftirkaup, þó málið haldi áfram. En hann vill, að þeir hafi eftirkaup við sig. Geta þeir ekki sagt eins? Ég held, að bæði þessi mál verði að ganga fram á þinginu samtímis. Hv. 1. þm. Eyf. gerði mikið veður út af því, að þetta frv. væri horið fram til að geðjast kjósendunum. Ég veit ekki, hvort það væri svo mikil goðgá. Ætli þm. sjálfur hafi ekki einhverja tilhneigingu til þess líka? Það hefir mér nú virzt stundum, þegar Siglufjörður hefir átt í hlut. Og það er ekkert undarlegt, þótt menn vilji geðjast sínum kjósendum, og ekki nema það, sem hverjum einum ber að gera.

Þá er það ræða hv. 1. þm. N.-M. Hann byrjaði að slá því föstu, að þetta frv. væri borið fram fyrir hönd Sjálfstfl., þó að ég hefði sagt áður, að ég væri óánægður með ýms ákvæði frv. (PZ: Ég heyrði ekki þá ræðul. Það er sök hv. þm. sjálfs. Ég tók það sama fram og hann gerði nú, að mörg sveitarfélög hefðu ekkert gagn af þessari tekjuaukningu, af því þau borguðu engan tekjuskatt. Hv. þm. þurfti því ekki að fara eins langt út í þetta og hann gerir.

Þá sagði hv. þm., að við sjálfstæðismenn vildum hafa tekjuhalla á fjárlögunum. Af hverju veit hv. þm. það? Hann hefir ekkert fyrir sig að bera, því það er ekki hægt, fyrr en séð er, hvernig fjárlögin verða afgr. Hv. þm. hefir ekki fengið nein bréf frá Sjálfstfl. um það, og hann fullyrðir því um hluti, sem hann veit alls ekkert um.

Þá velti hann sér ákaflega mikið yfir þessari dellu, að láta sér detta í hug, að bæjar- og sveitarfélögin fengju part af tekjuskattinum. Ég viðurkenni, að þetta dugir ekki í sveitahreppum yfirleitt, en ég vil benda honum á, að núv. stjórnarflokkar hafa ákveðið, að partur að tekjuskattinum skuli fara til bæjarfélaga. Veit ekki hv. þm. þetta? Og hvað er hann þá að fjargviðrast yfir því, að þetta sé einstök hugsunarvilla. Það, sem hér er um að ræða, er aðeins þetta, að það er gengið lengra á þeirri braut, sem núv. stjórnarfl. hafa sjálfir farið inn á.

Það er vitanlega skakkt hjá hv. þm., að með þessu frv. fái þeir enga hjálp, sem verst eru stæðir. Þeir fá nokkra hjálp, þó hún sé ekki nægileg. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er svo kunnugur þessum málum, að hann geti um þetta dæmt. Veit hann t. d., hvort Hafnarfjörður er betur stæður en hrepparnir í N.-Múlasýslu? Ég skal ekkert um það dæma, en ég efast um, að hann viti það.

Hv. 1. landsk. ætla ég engu að svara, en ég vil bara benda honum á, að hann sagðist ætla að koma með margar og miklar tili. um að létta á bæjar- og sveitarfélögunum. En má ég þá spyrja: Hvernig ætlar hann að fá tekjur á móti? (BrB: Það koma fram frv. um það). En í hvaða átt fara þau? Hann gerir þá kröfu til okkar, að við segjum strax, hvaða tekjustofnar eiga að koma á móti þeim útgjöldum, sem stafa af okkar frv. Nú vil ég gera sömu kröfu til hans. Það leiðir af sjálfu sér, að ætli hann að létta á bæjar- og sveitarfélögunum með því að lækka útgjöldin, þá verða þau að koma annarsstaðar niður.

Ég tel sjálfsagt, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og nefndar, og ég mundi fagna því, ef um það næðist samkomulag, því ég veit, að það er hin mesta nauðsyn á því að útvega bæjar- og sveitarfélögunum auknar tekjur. Ég vildi óska, að það væri rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. gaf í skyn, að það væri í smíðum eitthvert frv. í þá átt að bæta úr þessu frv., sem hægt væri að ná samkomulagi um. En ég vil endurtaka það, að samkomulag í þessum efnum næst ekki, nema flokkarnir vilji hliðra til hver fyrir öðrum. Ég álít, að það, sem á að gera hér á þinginu, sé að samræma þessi frv., ef einhver árangur á að nást í þessum málum.