27.10.1937
Efri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (2125)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég var ekki við fyrri part þessara umr., og ég veit ekki, hvað þar hefir komið fram. En ég hefi hlustað á það, sem af er umr. í dag, og ég verð að segja, að mér finnst ótrúlega lítið, sem fram hefir komið á móti frv., til að rökstyðja það, að menn vilji ekki ræða það frekar við okkur. Mér skildist það á hv. l. þm. N.-M., að hann áliti, að öxin og jörðin geymdi þetta frv. bezt, eins og þar stendur. Finnst þá hv. þm., að það, að afla bæjar- og sveitarfélögunum tekna, sé ekki mál til að ræða um? Hann hlýtur þó að vita, að það er nauðsynlegt að leyfa allar till. og bollaleggingar, sem þessu tekjuöflunarfrv. fylgja. Nú skildist mér, að hann áliti ekki, að það væri óþarfi að sjá sveitar- og bæjarfélögunum fyrir auknum tekjum. Og yfirleitt verð ég að segja, að ég skildi ekki, hvað hv. þm. var að fara. Hann sagði, að þetta frv. væri borið fram fyrir Sjálfstfl. Það hefir, svo ég hefi heyrt, einn sjálfstæðisþm. talað í þessu máli fyrir utan flm., og ég er honum þakklátur fyrir það liðsinni, sem hann hefir lagt þessu frv., þótt hann hinsvegar hafi fundið á því nokkra smíðagalla. En um aðra sjálfstm. veit ég ekki. Ég fyrir mitt leyti vona, að bæði sá flokkur og aðrir vilji leggja því sitt liðsinni, svo að það verði á einhvern hátt greitt úr þessu máli.

Hv. 1. þm. N.- M. sagði, að það ætti að taka 13,2% af tekjum ríkissjóðs. En hvað þurfa bæjar- og sveitarfélögin að fá mikla tekjustofna? Og hvar ætlar hv. 1. þm. N.-M. að taka þessar tekjur, nema frá ríkissjóði beinlínis eða óbeinlínis, hvort sem það eru 13,2% eða eitthvað annað? Ef bæjarfélögin á annað borð þurfa þessara tekna með, þá væri gott, að hv. þm. lýsti því, hvar hann ætlar að taka þær, ef ekki hjá ríkissjóði. Ég verð að segja, að hann er þá meiri galdramaður en ég bjóst við.

Hvað því viðvíkur, að hér sé verið að svipta ríkissjóð tekjum, þá vil ég benda á, að ríkisvaldið er óvægið, þegar það er að ákveða bæjar- og sveitarfélögunum ýms gjöld. Og samtímis því, sem velt hefir verið yfir á bæjar- og sveitarfélögin stórum gjöldum, þá hefir ríkissjóður seilzt eftir tekjum bæjar- og sveitarfélaganna, beina skattinum. Tekjuskatturinn hefir verið hækkaður hvað eftir annað. Hvað ætli hafi verið tekin mörg prósent með þessu frá bæjar- og sveitarfélögunum? Það er því ekki nema eðlilegt, að bæjar- og sveitarfélögin komi nú og segi: Við viljum fá þessu snúið við.

Hv. 1. þm. N.-M. virtist aðallega hafa staðið upp til að sanna það, að með þessu frv. væri verið að hjálpa þeim, sem bezt eru stæðir. Ég skal ekki gagnrýna þetta í einstökum atriðum, en hann hefði getað sagt þetta með miklu færri orðum. Það er vitanlega miklu auðveldara að hjálpa þeim, sem vel eru stæðir, heldur en hinum. Hvaða tekjustofna eiga þau bæjar- og sveitarfélög að hafa, sem eru svo illa stæð, að þessir tekjustofnar innheimtast illa eða jafnvel alls ekki? Það getur farið svo, að þessi sveitar- og bæjarfélög hafi enga aðra tekjustofna heldur en beina hjálp frá ríkissjóði. Ég hefi fyrir mitt leyti alltaf talið, að það væri alveg rétt, að bæjar- og sveitarfélögin hefðu til sinna umráða þá tekjustofna, sem raunverulega eru komnir inn þar innan þess héraðs, og ef þeir ekki endast, þá sé hlaupið undir bagga beinlínis, en ekki með því að tala eins og allir séu raunverulega að borga, eins og sjá hefir mátt á sumum frv., sem fram hafa komið um þetta mál hér á Alþ.

Ég skal ekki fara mikið inn á ræðu hv. 1. þm. Eyf., vegna þess að hv. 9. landsk. svaraði henni svo rækilega. En þessi hv. þm. sagði, að frv. þetta mundi aðeins vera fram borið til að geðjast kjósendum. Ég vil nú segja hv. þm. það, að ég mun enga vanvirðu telja í því, þó að þm. reyni að geðjast sínum kjósendum. Kjósendurnir hafa sent þá á þing sem sína umboðsmenn, og ég veit ekki. hvað hlutverk hv. þm. á að vera, ef það er ekki að geðjast þessum umbjóðendum sínum. En hitt er annað mál, að það er til svokallað kjósendadekur. Hv. 1. þm. Eyf. kom inn á þessa gömlu tilvitnun í ræðu Jóns heitins Þorlákssonar, þegar hann talaði um, að Framsfl. hefði verið í samvinnu um að afla teknanna til ríkissjóðs. Já, það var á þessum gömlu góðu tímum. Og ég held satt að segja, að þeir hv. þm. stjórnarflokkanna, sem nú sitja við völd, ættu að fela slíkar tilvitnanir sem vendilegast. Hvenær fór þessi samvinna út um þúfur? Hún fór út um þúfur á fyrsta þinginu, sem þessir flokkar fóru með völd. Ég held, að þessir hv. þm. ættu sízt að nefna Jón heitinn Þorláksson. Á síðasta þinginu, sem þessi mæti maður sat, var hver einasta brtt. felld, sem hann kom fram með, jafnvel þó að það væru ekki stórfelldari till. en það að setja inn í l., hvaða l. væru numin úr gildi með þeirri lagasetningu. Það mátti ekki einu sinni hafa svo mikla samvinnu við stjórnarandstæðinga. Og svo koma þessir hv. þm. og vitna í, hvað mikil samvinna hafi áður verið um tekjuöflun til ríkisins. Það kemur m. a. vei fram í ræðu hv. 1. þm. N.-M., hvað mikla samvinnu þessir menn vilja hafa. Hann sagði í sinni ræðu, að þeir vildu ekki einu sinni tala við stjórnarandstæðinga um þetta mál. Það átti gersamlega að fella það af því, að það voru 3 sjálfstæðismenn, sem báru það fram. Ég hefi heyrt það út úr ræðum stuðningsmanna stj., að við séum hér að koma með till. um fjáreyðslu. Ég veit ekki, hvar þessir menn hafa fengið þessa hugmynd, því að þetta frv. út af fyrir sig fer náttúrlega fram á stórkostlegan fjársparnað fyrir ríkissjóð. Þetta frv. þýðir ekkert annað en létti á landsmönnum. En það skal um leið játað, að það þarf náttúrlega að koma eitthvað í þetta skarð.

Við hv. 1. þm. Eyf. vil ég segja það, að ef honum finnst þetta mikið, sem hér er farið fram á, þá kemur það undarlega fyrir sjónir, að hann skuli hafa verið í mþn. í fyrra, sem bar fram frv. um tekjustofna handa bæjar- og sveitarfélögum, sem nam svipaðri upphæð og þeirri, sem hér er farið fram á. (BSt: Það átti ekki að taka það úr ríkissjóði). Hvað heldur hv. þm., að standi undir ríkissjóðnum annað en gjaldendurnir? Það, sem hér er um að ræða, er ekkert annað en það, hvaða tekjustofna sé hentugast að láta bæjar- og sveitarfélögin hafa.

Annars get ég sagt það fyrir mitt leyti, að þó að ég álíti frv. það, sem milliþinganefndin flutti og hv. 1. þm. Eyf. var meðflm. að, gallað, þá fylgdi ég því, þó að ég væri ekki ánægður með. En ég vildi með því að vera meðflm. að þessu frv. sýna fram á, að ég er þeirrar skoðunar, að það verði ekki lengur hólkað fram af sér að láta bæjar- og sveitarfélögin hafa nýja tekjustofna, og líka það, hvernig ég álít, að þessum málum verði sanngjarnast skipað.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vil aðeins óska þess, að málið fái að ganga til 2. umr. og nefndar. Ég skal taka það skýrt fram, að ég er fyrir mitt leyti mjög fús til samninga um hverskonar sanngjarna lausn þessa máls.