28.10.1937
Efri deild: 13. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (2127)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að lengja umr. umfram það, sem þær voru orðnar, en út af ýmsum orðum, sem fallið hafa hér við umr., taldi ég rétt að segja örfá orð; en ég get stytt mál mitt nokkuð, meðfram af því, að þetta mál mun sennilega fara í þá n., sem ég á sæti í, og sennilega gefst mér tækifæri til þess að taka til máls um málið. Ég verð að segja, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er þannig úr garði gert, að ég get ekki verið því samþykkur nema að örlitlu leyti, en þrátt fyrir það tel ég, að þessar till. eigi erindi í n., og ég mun því greiða atkv. með því, að málið fari til n., en þar sem búast má við, að fram komi fleiri till. um þetta þýðingarmikla og mjög umdeilda mál, þá hygg ég, að það sé rétt, að sú n., sem fær þetta mál, allshn., fái allar till., sem fram koma í þessari hv. d., til meðferðar. Mér skildist hv. 11 þm. Eyf. vera að boða till., sem fram mundi koma, og ég get búizt við, að áður en langt um líður komi einnig till. frá Alþfl., og þess vegna álít ég, að allar þessar till. eigi að koma til athugunar í n. Það hafa verið færð að því rök, að þær till., sem nú liggja fyrir, gengju svo langt í því að svipta ríkissjóð tekjum, að það ætti jafnvel ekki að hleypa þeim lengra. En það er ekki óvanalegt, að hér séu borin fram mál, sem menn geta ekki fallizt á, og það er orðin einskonar þingvenja, og ég tel, að hún sé að mörgu leyti góð. að láta mál fara til n. til athugunar, þrátt fyrir allt, og svo hygg ég, að sé rétt að gera við þessar till. Ég skal því ekki fjölyrða mjög um till. sjálfar, aðeins benda á fyrstu till. Ég hygg, að það hafi verið nokkuð ofarlega í hv. allshn., a. m. k. á síðasta þingi, þegar þetta mál var til umr., að það væri ekki óviturlegt að taka vissan gjaldstofn frá ríkissjóði og ætla hann bæjarfélögunum einum, og vil ég í því sambandi benda á fasteignaskattinn. Hann er í rauninni ekki svo hár, að ríkissjóð muni svo mjög um, þó að hann missi hann, en vitanlega liggur það í hlutarins eðli, að ríkissjóður þarf að fá á annan hátt sem því nemur, en það er ekki hægt að neita því, að það er miklu heppilegri aðferð fyrir bæjarfélögin að hafa óskiptan gjaldstofn heldur en að þurfa að deila honum á milli bæjarfélaga og ríkissjóðs. Ég skal játa, að fasteignaskatturinn einn út af fyrir sig fullnægir ekki þörf allra sveitarfélaga, því að eins og bent hefir verið á bæði nú og fyrr, þá er fasteignaskatturinn mjög litill, og sérstaklega í sveitum landsins, en að því er bæjarfélögin snertir, þá er það mín skoðun, að fasteignaskatturinn eigi að lenda þar, sem hann er krafinn, og því er ekki hægt að neita með rökum, að það eru fyrst og fremst bæjarfélögin og hin smærri kauptún, sem nú kvarta mest undan því, að gjaldgetan sé of litil til sinna þarfa. Það mun vera á ferðinni ný till. frá a. m. k. nokkrum hluta þeirrar mþm., sem hefir fjallað um þetta mál, og ég verð að taka undir það, sem einhver hv. þm. skaut hér fram í við þessar umr., að það sé fullkomin nauðsyn að finna einhverja lausn á þessu máli, sem þingið gæti orðið ásátt um. Ég þarf ekki að endurtaka, að þær till., sem lágu fyrir síðasta Alþ., voru flestar þess eðlis, að ég lagðist á móti þeim, þó að því væri haldið fram af þeim, sem sömdu þær, að þær væru vitlegar mjög, en þar sem þær till. liggja ekki fyrir til umr. nú, skal ekki farið nánar út í þær.

Ég lofaði, þegar ég hóf mál mitt, að ég skyldi ekki lengja umr. mjög, og ég ætla að efna það. En það, sem fyrir mér vakti með því að standa upp, var það, að ég vil leggja til, að allar till., sem fram koma, verði ræddar í n., og að n. fái til meðferðar allar þær till., sem eiga eftir að koma fram um málið, aðrar en þær, sem nú þegar liggja fyrir.