28.10.1937
Efri deild: 13. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (2128)

33. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Þeir töluðu hér tveir í gær, hv. 1. þm. Reykv. og hv. 9. landsk., og voru að leitast við að svara því, sem ég sagði. Það, sem þeir svöruðu, var svo veigalítið, að ekki þarf andsvara við, en ýmislegt annað kom fram í ræðum þeirra, sem er vert að undirstrika. Þeir töluðu báðir um, að frv. væri ekki borið fram af hálfu Sjálfstfl., heldur aðeins af 3 mönnum, en báðir lýstu þeir því þó yfir fyrir hönd Sjálfstfl., að ef frv. yrði samþ., þá myndi Sjálfstfl. sjá ríkissjóði fyrir tekjum upp í hallann, sem myndi skapast af því. Þá var það orðið flokksfrv. Ef svo væri ekki, þá væru það aðeins þessir þrír menn, sem bæru ábyrgð á því. Ég skil þetta ekki, og skilji nú hver, sem kann. Annars kemur þetta ekki til þetta frv. verður aldrei samþ. Annars kom það fram hjá báðum þessum hv. þm., að frv. væri mjög gallað og þyrfti lagfæringar við. Hv. 1. flm. tók það fram, að ein tekjuöflunarleið þess væri viðsjárverð, og var auðsjáanlega ekki með henni. Það var vínið. Hvað viðvíkur þeim mikla sparnaði, sem af þessu átti að leiða, fæ ég ekki annað séð en að þar sé sparað þannig fyrir sveitarfélögin, að það þurfi að afla ríkissjóði annara tekna í staðinn. Tekjur sveitarfélaga og ríkissjóðs koma úr sama vasa, svo ég sé ekki, hvaða sparnaður þetta er.

Þungamiðjurnar í þessu frv. eru tvær, en báðar er reynt að fela, og sýna þær sitt á hvað, eftir því við hvern er talað. Önnur er sú, að þeir reyna að koma gjöldunum af þeim, sem bezt eru staddir í þjóðfélaginn, yfir á þá, sem verst eru staddir. Þetta kom greinilega fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv., því hann vildi afla ríkissjóði tekna með tollum og nefsköttum, sem koma jafnt á alla, og hlutfallslega verr á þá verst stöddu, en ekki með beinum sköttum á þá ríku. Þetta er önnur grímuklædda þungamiðja frv.; það er flutt til þess að koma gjöldum til ríkis og bæjarsjóða af þeim ríku yfir á þá, sem verr eru staddir. Og þetta á að fá þá betur stæðu til að fylgja frv.

Hin þungamiðjan er það, að hv. þm. langar til þess að breiða áfengi út um landið sem mest, láta lokka menn til þess að fá leyfi til að selja það í kaupstöðunum, til að fá tekjur í bæjarsjóðina. Þetta er tilraun til þess að koma vininn sem víðast um landið og sem flestum mönnum á drykkjumannahæli. Þetta á að vinna andbanninga og andbindindismenn til fylgis við frv. Ég sé ekki, að þetta sé til þess að hjálpa bæjar- og sveitarfélögunum, sem verst eru stödd, en það liggur ljóst fyrir, að bæjarfélögin, sem betur eru stödd, fá með þessu 30–40% af þeim tekjum, sem þau þurfa, gegnum þetta, en þau, sem verst eru stödd, fá aðeins 3–5%. Þeir, sem þurfa tekjustofnana, fá þá ekki, en þeir, sem ekki þurfa þá, fá þá til þess að létta á þeim, sem geta borið byrðarnar. Þess vegna er þetta frv. ekki þess vert, að það sé rætt hér á Alþ. Það er ekki af því, að það sé flutt af 3 sjálfstæðismönnum, heldur af því, að það er flutt til þess að láta áfengið fljóta yfir landið og til þess að létta gjöldin á þeim, sem breiðust hafa bökin, yfir á almenning. Þess vegna á ekki að ræða það hér á Alþ., heldur drepa það niður.