15.11.1937
Efri deild: 27. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (2168)

88. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Flm. (Magnús Jónsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er aðeins um eitt lítið atriði, nefnil. um það, hversu mikil lífsábyrgðargjöld skuli vera frádráttarhæf samkv. 10. gr. l. um tekju- og eignarskatt. Skv. þeim l. er heimilt að draga frá iðgjöld af lögboðnum tryggingum eða líftryggingum allt að 500 kr. Þetta ákvæði er mjög óhentugt, þar sem mönnum, sem lögboðið er að tryggja sig, er ekki heimilt að fá frádrátt fyrir tryggingar, sem þeir kunna að hafa þar fyrir utan. Aftur á móti er ekkert ákvæði fyrir þær tryggingar, sem ekki eru lögboðnar, en ég held, að þetta hafi verið framkvæmt þannig, að 500 kr. markið hafi verið látið gilda fyrir alla. En þetta er óhæfilega lágt. Ég veit, að margir embættismenn hafa 500–600 kr. iðgjöld af skyldutryggingu, og það, sem þeir vilja tryggja sig þar fyrir utan, fá þeir engan frádrátt fyrir. En það er vitað, að t. d. hin lögboðna ekkjutrygging er alls ófullnægjandi, ef fyrirvinna fellur frá hjá stórum heimilum. Hið opinbera ætti því fremur að hvetja en telja menn til þess að taka sér þessar lífsábyrgðir í viðbót. Því ætti að gera slík iðgjöld frádráttarhæf, eins og frv. fer fram á. Tryggingin þarf alls ekki að vera svo mjög stór til þess að iðgjöldin nemi samtals 1000 kr. Ég gæti trúað því, að þau iðgjöld, sem þeir embættismenn og starfsmenn, sem nú eru tryggðir, greiða, séu eitthvað nálægt þessu. Þetta er há upphæð og ekki nema sanngjarnt, að hún sé frádráttarhæf. Hitt er bæði mér og öðrum kunnugt, að slíkar líftryggingarupphæðir, t. d. 10000 kr., hafa hreint og beint bjargað heimilum þessara manna frá algerðu hruni, er þeir hafa fallið frá.

Það má kannske segja, að 500 kr. sé ekki óríflegt, þar sem þessi upphæð var aðeins 200 kr. áður, en þetta sýnir, að löggjafinn hefir haft opin augun fyrir því, að hér væri hækkunar þörf. Ég set það auðvitað ekki á oddinn, að upphæðin sé endilega 1000 kr., en ég tel þó ekki ástæðu til þess, að svo stöddu, að fara fram á það, að hún verði hærri.