19.11.1937
Neðri deild: 30. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2184)

92. mál, verðlagsskrá o. fl.

Frsm. (Jón Pálmason):

Landbn. hefir haft frv. til l. um landaura og verðlagsskrár, sem ég flutti í byrjun þings, til meðferðar og komizt að þeirri niðurstöðu að fá betri rannsókn á þessu máli, áður en það væri lögfest á Alþ., með þeim hætti að vísa því til hagstofunnar til athugunar. Ég hefi að sjálfsögðu gengið inn á þá leið, vegna þess, að það skiptir vitanlega ekki miklu máli, hvort það er lögfest á þessu þingi eða næsta þingi, enda er rétt að undirbúa það sem bezt.

Hinsvegar hefir einnig orðið samkomulag um það í n., að taka upp í till. ákvæði um að fá einnig athugun frá hagstofunni um verðvísitölu, sem byggðist á því, hvernig væri verð bæði innlendrar og erlendrar vöru, sem nauðsynlegt er að sjá til þess að fá framfærslukostnað neytenda í landinu. Þetta er í sjálfu sér annað mál, og skal ég ekki fara nánar út í það.

Ég vænti þess, að ef hv. d. samþ. þessa till., þá verði af hálfu stj. lögð rík áherzla á, að þessi rannsókn verði unnin áður en næsta Alþ. kemur saman.

Að svo stöddu er ekki ástæða til að fara um þetta mál fleiri orðum fyrir n. hönd.