11.11.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2199)

67. mál, kaup á Efra-Hvoli

Flm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti! Þessi þáltill. á þskj. i9 er ekki fyrirferðarmikil. Hún fer fram á. að ríkisstj. sé heimilað af Alþingi að kaupa jörðina Efra-Hvol í Rangárvallasýslu fyrir sýslumannssetur.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hagar þannig til í Rangárvallasýslu, að þar er ekkert þorp eða sérstakur staður einn fremur en annar, þar sem sjálfsagt sé, að sýslumaðurinn hafi aðsetur, eins og vera mun í öðrum sýslum landsins. Sýslumaður Rangárvallasýslu hefir því búið hér og þar um sýsluna. Meðan samgöngur voru eingöngu á hestum áður fyrr, hafði þetta ekki svo mikið að segja, en síðan bílarnir komu til sögunnar, sem fólk notar nú orðið svo að segja eingöngu, og hraðinn, sem þeirri breytingu er samfara, hefir komið í ljós, að nauðsynlegt er, að sýslumaður búi nálægt þjóðvegi. Jörðin EfriHvoll uppfyllir prýðilega það skilyrði sem sýslumannssetur. Hún liggur í miðri sýslu skammt frá þjóðvegi. Björgvin Vigfússon sat þar sem sýslumaður í 30 ár. Voru allir orðnir vanir því að skoða Efra-Hvol sem sýslumannssetur, enda ekki annar staður heppilegri. Það er því almenn ósk, að svo megi verða eftirleiðis.

Björgvin Vigfússon lét af embætti fyrir 3 árum, eins og kunnugt er. Síðan hefir sýslumaður Rangárvallasýslu setið að Gunnarsholti. Sú jörð er fjær miðju sýslunnar en Efri-Hvoll og liggur um 12 km. frá þjóðvegi, þar sem yfir eyðisand er að fara. Ríkið á að vísu þessa jörð, en húsakynni þar eru ekki meiri en handa þeim bónda, sem hefir jörðina leigða.

Þessi þáltill. fer fram á það, að ríkið kaupi Efra-Hvol, ef um semst, af eiganda jarðarinnar, Björgvin Vigfússyni, og er hann staddur hér í bænum um þessar mundir. Ég óska, að till. verði að lokinni umr. vísað til fjvn., og vildi ég gefa þeirri n. frekari upplýsingar um verð og annað, er að kaupunum lýtur.