15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2206)

135. mál, lax- og silungsveiði

*Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það var rétt hjá hv. 6. landsk. (ÞÞ), að það mátti segja, að ræða sú, sem ég flutti um þingmál, sem var til umr. hér í hv. þd. á undan þessu, frv. um breyt. á löggjöf um lax- og silungsveiði, á þskj. 57, hefði vel mátt að ýmsu leyti eiga við hér um þessa þáltill. En það, sem fyrir okkur vakir í landbn., er að láta endurskoða löggjöfina um lax- og silungsveiði, og sérstaklega með það fyrir augum, sem ég drap á áðan, að veiðiár verði flokkaðar og reglur lögfestar um það, hverjar veiðiaðferðir megi viðhafa í hverjum flokki. Og einnig er ætlazt til þess, að takmörkuð verði frá því, sem nú er, veiði í mörgum bergvatnsám og alls ekki leyfð þar takmarkalaus stangarveiði, og þá því síður ádráttarveiði eða netaveiði. Eftir löggjöfinni nú má viðhafa allskonar veiðiaðferðir, stangarveiði, kistur, lagnet, króknet, ádráttarnet o. s. frv. En það er alls ekki rétt að leyfa þetta takmarkalaust. Menn gera stórvirki nú á dögum, girða fyrir ákaflega breiðar ár og veiða þannig þau ódæma firn, að mönnum, sem búa í uppsveitum við árnar og eiga veiðirétt í ánum, þykir sem þorrið hafi veiðin á örfáum árum. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um það, þegar hægt er að fara svona með stóru árnar, hversu miklu auðveldara muni vera að eyðileggja veiðina í smærri ánum, eins og t. d. Elliðaánum, þar sem laxinn er tekinn og fluttur í vögnum milli hrygningarstaða og uppgöngustaða og talinn niður í ána. Sagt er í gömlum sögum, að þegar komið var hér til lands á landnámstíð, hafi hvert vatn og hver á verið full af fiski. Það hefði sjálfsagt getað haldið áfram að vera þannig, ef gætt hefði verið hófs um veiðina og eitthvað hefði verið stuðlað að því, að stofninn væri ekki algerlega upprættur, eins og víðast hefir átt sér stað um fiskistofninn og áður hefir verið frá sagt.

Þess er vænzt, að þeim undirbúningi undir breyt. á löggjöfinni um lax- og silungsveiði, sem gert er ráð fyrir í þáltill., verði lokið svo fljótt, að frv. um þetta komi fyrir næsta þing. Og ætlun okkar, hv. 1. þm. N.-M. og mín, er, að vel gæti þetta komið í staðinn fyrir frv. á þskj. 57. vil ég svo mæla með því, að þáltill þessi verði samþ.