20.12.1937
Neðri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (2251)

137. mál, Háskóli Íslands

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Mál það, sem hér er rætt og gefið hefir tilefni til þeirrar þáltill., er nú liggur fyrir (á þskj. 330), kallast einu nafni dósentsmálið (þ. e. veiting kennslumálaráðherra, Haralds Guðmundssonar, á dósentsembættinu í guðfræðideild háskólans til séra Sigurðar Einarssonar), og er það eitt hið mesta hneykslismál, sem getur í embættaveitingasögu landsins, — en þar er þó ekki alveg hvítt að velkja á síðari tímum. Um málið hefir verið bæði mikið rætt og ritað, og er það nú svo upplýst orðið, að greina má alla þætti þess.

Úti um héruð landsins hafa menn þó ekki fengið nærri full skil þessa máls ennþá, sem þó er skylt, því að þótt mönnum kunni að finnast það snerta mest háskólann, þá er það eins frá almennu sjónarmiði mjög lærdómsríkt.

Málið verður hér, tímans vegna, aðeins rakið í sem stytztu máli.

Þáttur háskólans (prófessoraguðfræðideildar og dómnefndar) hefst á því, sem er upphaf þessa máls, að kennara var vant við guðfræðideild háskólans, b. e. dósentsembætti varð þar laust. Um skipun kennara við háskólann yfirleitt er það greint í háskólalögunum (nr. 21/1936, 6. gr.), að konungur skipi prófessora, en ráðherra dósenta og aukakennara. En reglugerð háskólans frá 1912 segir einnig um þetta (í 9. gr.):

„Áður en kennari er skipaður eða settur, skal ávallt leita umsagnar háskóladeildar um kennaraefnið, enda sé háskóladeild heimilt að gefa umsækjendum kost á að ganga undir samkeppnispróf, og getur deildin, ef henni sýnist, kvatt sérstaka fræðimenn, innan lands eða utan, til aðstoðar við prófið“.

Samkvæmt þessari heimild ákvað guðfræðideildin að viðhafa samkeppnispróf milli umsækjenda um embættið. Á þetta féllst kennslumálaráðherra, á þann hátt, að ekki varð um villzt (þótt hann áður hefði hafnað slíku prófi við lagadeild), og virtist þannig allt ætla að falla í ljúfa löð að þessu sinni.

Af 4 umsækjendum í upphafi tóku 3 þátt í þessari samkeppni, eins og kunnugt er, þeir séra Benjamín Kristjánsson, séra Björn Magnússon og séra Sigurður Einarsson.

Dómnefndina skipuðu, eins og reglug. tiltekur, kennarar guðfræðideildar (prófessorarnir Ásmundur Guðmundsson og Magnús Jónsson í og tilkallaðir þeim til aðstoðar biskup landsins, dr. Jón Helgason, séra Árni Sigurðsson fríkirkjuprestur, og loks erlendur fræðimaður í guðfræði, próf. Mosbech frá Kaupmannahafnarháskóla.

Síðan var af dómnefnd upp kveðinn dómurinn um ritgerðir og fyrirlestra keppendanna, einn talinn sérlega vel hæfur til embættisins, sem sé séra Björn Magnússon, en annar, séra Sigurður Einarsson, var dæmdur langlakastur (eða „fyrir neðan lágmarkslínuna“ í þessum efnum).

Allir, sem nokkurt skynbragð bera á þessi efni, verða að viðurkenna, að dómnefndin við þessa samkeppni var skipuð nákvæmlega eins og lög og reglur háskólans ætlast til. Þessi nefnd var því í alla staði bær, og ein bær, eins og sakir stóðu, að skera úr málinn til úrslita. Hæfni hennar getur heldur enginn í alvöru vefengt, og því síður ætlað henni hlutdrægni, því að svo var og um hnúta búið, að ritgerðirnar, aðalefni prófsins, voru dulnefndar, svo að eigi varð greint, hver stóð að hverri.

Guðfræðideildin tilkynnti þennan dóm sinn, sem vitanlega átti að verða hin endanlegu úrslit málsins, og lagði til við ráðherra, að séra Birni Magnússyni yrði þegar í stað veit dósentsembættið.

Enginn annar dómur var til um hæfileika keppendanna en þessi, sá eini bæri að dæma um þetta að íslenzkum lögum — dómnefndin — var um þessi efni æðsti og eini dómstóllinn, sem gildur var, óhrakinn af öllum, bæði innlendum og útlendum.

Eins og aðrir háskólar í menningarlöndum á háskóli Íslands einnig heimting á sjálfsforræði um fyrirkomulag á kennslustarfi og kennaravali, þótt ráðherra hafi hið formlega veitingarvald. Allar reglur stofnunarinnar ætlast og til, að tillögur hennar um þetta séu aðalatriðið, og einkanlega ef þær eru studdar hreinu prófi, eins og hér átti sér stað. — Þetta er og ofur skiljanlegt, því að ráðh. getur ekki verið bær um að afgera slíkt á eindæmi; hann gelur ekki yfirleitt dæmt um fræðimennsku og kennarahæfni þeirra, sem vilja gerast þar embættismenn, og ófært að eiga það undir pólitískum geðþótta, — enda í lýðræðislöndum ekki farið eftir lærdómi eða menntun í ráðherravali, heldur eftir flokksfylgi, — yfirmenn háskóla, ráðherrarnir, þurfa því ekki að grynna hið minnsta grand í háskólafræðum eða þess háttar.

Það er því ekki vafasamt, að kennslumálaráðherra Haraldi Guðmundssyni bar umyrðalaust og umþrotalaust að skipa séra Björn Magnússon í embættið. Og þó að hann hafi undan því vikizt og í raun réttri um það svikizt, þá er þessi keppandinn, sem sigraði, séra B. M, sá eini, sem dæmdur er hæfur til starfans; sá dómur stendur óhaggaður að réttum lögum í þessu efni, og ekkert vald er heldur til, sem getur haggað honum fremur en hæstaréttardómi löglega dæmdum. Allt annað, sem ráðherra hefir verið að braska með málið, er tóm endileysa, hrein markleysa frá upphafi til enda sem rökstuðningur fyrir hinu óhæfilega tiltæki ráðherrans: Að neyta sins formlega réttar til þess að fremja ofbeldi á guðfræðideildinni — skipa þann í embættið, sem óhæfur var dæmdur, en það fullkomnaði hann 16. nóv. s. l., eins og nógsamlega er kunnugt orðið, en um leið mætt með óheyrðri andúð um gervallt landið.

Úrskurði dómnefndar bar að hlíta, og hefði almenningur einnig orðið að sætta sig við þá niðurstöðu. því að þar var verið að dæma ettir fræðilegri frammistöðu, enda þótt eitthvað hefði þótt að hinum útvalda.

En hér hefst nú fyrir alvöru þáttur kennslumálráðherra, Haralds Guðmundssonar, og fleiri, er við málið koma.

Á hinum stutta (og væntanlega héðan af skammvinna) ráðherraferli Haralds Guðmundssonar hefir það oftar en einn sinni komið í ljós, að honum er uppsigað við háskólann og sjálfsforræði hans, sem kalla mætti. Ekki er fullvíst um orsakir að þessu, væntanlega ekki sízt óheppileg og óviðeigandi drottnunargirni, með sérstökum áhuga til þess að ráða embættaveitingum á sitt eindæmi og sínum mönnum í hag, sem ekki er óþekkt fyrirbrigði í þeim herbúðum, enda hafði hann sýnt sig í því áður á þeim vettvangi ásamt fleiru, sem hann fékk lítið hrós fyrir. Þetta mun nú að vísu hafa setzt nokkuð að honum, og að lyktum svo, að segja má, að hann hafi á vissan hátt „fengið háskólann á heilann“ (þótt hann hafi ekki orðið lærðari fyrir). Og þegar á það bætist hans síðasta athvarfi gagnvart þessari stofnun, þá má með sanni segja, að brautin milli þessa kennslumálaráðherra og háskólans, sem honum er falið að „vernda“, sé lögð eintómum hneykslunarhellum, sem honum eðlilega að lokum getur orðið hált á.

Kennslumálaráðh. veitti þeim manninum dósentsemhættið í guðfræði, er sízt skyldi, samkvæmt öllum þeim rökum, er fyrir lágu. Um það verður ekki deilt meðal skynbærra manna. En til þess að „fóðra“ það,fór hann ótrúlegar krókaleiðir, sem nú eru orðnar frægar að endemum. Um þessi afrek sín hefir ráðh. látið gefa út vafalaust á kostnað af almannafé, sem er í fullu heimildarleysi — svokallaða skýrslu um málið, prentaða í ríkisprentsmiðjunni, og kennir hana við ráðuneytið; hann er ekki eins fíkinn í að eigna sér hana einum eins og hann hefir verið mjög gjarn á um ýms mál, er hann heldur, að flokkslegur slægur hafi verið i. Af skýrslunni er og vafasamur ágóði, því að hún er til skammar stjórn landsins, glannalega skrifuð, með óvífnum stóryrðum og aðdróttunum í garð þeirra, sem ekki hafa verið að skapi ráðh. og hans liða í þessu máli. Sumt er þannig, að líklegast er, að varði við lög beinlínis, ef eftir væri gengið. Stílshátturinn gæti og hent til þess, að fleiri, sem sumpart standa pólitískt nærri ráðh. og sumpart málinu sjálfu, hafi lagt þar til blek og penna.

Ráðh. kveðst frá upphafi hafa tortryggt kennara guðfræðideildarinnar, en fyrir slíkri firru hefir hann vitanlega engar skynsamlegar líkur, hvað þá heldur ástæður getað fært, — og þessa tortryggni yfirfærir hann á dómnefndina alla. Eru ummæli hans öll um þetta hin fáránlegustu, því að mannavalið og umbúnaður allur í samkeppninni útilokaði alla rangsleitni, sem vitanlega engum þeirra var ætlandi. Út af þessu, og í rakaþroti, hefir ráðh. látið sér sæma að fullyrða á Alþingi m. a., að „dómnefndin hafi níðzt á einum keppendanna, Sig. Ein.“, sem þýðir vísvitandi beitt hann rangsleitni og þjarmað honum í dómi, sem eru svo viti firrt ummæli, að hann hefir reynt utan þings að klóra yfir þau.

En haldinn af þessari sýki segist ráðh. hafa viljað fá dóm annara um þetta, sem búið var löglega að úrskurða um, þannig að ekki varð áfrýjað með réttu. Og þegar hann talar um „yfirmat“, sem hann hafi sótt til eins manns í öðru landi, þá er það alveg út í bláinn, — það hefði þá þurft að vera öðruvísi umbúið, að lögum og með fleiri mönnum, sem vitanlega ekki var. Nei, hér fékk hann aðeins annað „mat“, ef mat skyldi kalla, sem eins og á stóð var þýðingarlaust.

En hvers vegna var ráðh. að þessu brölti? spyrja menn, því að hann hefði átt að geta sagt sér sjálfur, að almennt myndi verða litið á þetta sem óþurftarverk: Að níðast á dómi hinnar löglegu dómnefndar og setja Sig. Ein. að háskólanum. Þetta er að vissu ráðgáta, nema um sé að ræða pólitískan ofsa, til meðhalds flokksmanni og til þess að gera stofnuninni — virðulegustu menntastofnun þjóðarinnar — brellu, sem ósæmandi væri. Og þá er það ráð bruggað, að hinn pólitíski (sósíalistíski) ráðherra H. G. fær pólitískan samherja sinn hér — eftir því sem skýrslan greinir — til þess að ná sambandi við pólitískan flokksbróður og kunningja í Svíþjóð, og biðja hann að fá í trúnaði einhvern fræðimann þar til að takast á hendur að dæma nýjan dóm(!), sjálfsagt ef verða mætti, að það breytti niðurstöðunni gagnvart keppendunum (sem hlýtur að hafa verið tilgangurinn, úr því ráðh. var svo óánægður með niðurstöðu dómnefndar). Og þetta tókst og maðurinn fannst, Nygren prófessor í Lundi, sem síðan hefir af ráðh. og hans nótum verið útbásúnaður hér heima sem „heimsfrægur“, því að hann, eins og nú hefir vitnazt, umhverfði dómi hinnar löglegu dómnefndar og sneri honum öllum í villu. Minnir það á, að fyrr á tíð, er magna skyldi kyngi svo að hrini, þá var að lokum tekið til bragðs að snúa við „faðirvorinu“, lesa það öfugt og jafnvel venda því (ekki „í kross“, heldur) upp á Kölska sjálfan! var hjá þessum nýja manni sá niður kveðinn, dæmdur niður fyrir allar hellur, er efstur var metinn hér, en hinn slaki, sr. Sig. Ein., hafinn upp til skýjanna. Minna mátti ekki gagn gera, og var nú allt komið í kring hjá ráðherra, er skyldi, enda kallaði hann þetta góðan dóm! Kemur þetta fram í skýrslunni, er hann lét prenta með leynd, bak við meðráðherra sína, og dreifði út sem varnarskjali samdægurs veitingunni: Sló hann því föstu, að þessi nýi prófessor væri eins frómur eins og hann væri lærður. — fyrir honum gæti ekkert vakað nema fræðimennskan, gagnstætt hinum dómendunum, sem hann „sannar“ klækibrögð upp á með þessum einfalda hætti. Í skýrslunni segir svo um þetta, — orðrétt (á 43. bls.):

„Fyrir dómi Nygrens geta engar forsendur verið aðrar en fræðilegar. Þar af er sú ályktun dregin, að fyrir dómi dómnefndar guðfræðideildar háskólans hljóti að hafa verið aðrar forsendur“(! !).

Hafa menn heyrt makalausari rökfræði? Það er ekki ófyrirsynju, að í málinu er til orðið hundarökvísi. — Segist ráðh. nú með þessu hafa séð, að „allar verstu grunsemdir hans höfðu reynzt réttar“ — og mætti nú með vissu spyrja, hvar sá maður hafi verið staddur, er þetta reit.

Þessi umrædda embættisveiting Haralds Guðmundssonar ráðherra, skipun hans á sr. Sigurði Einarssyni sem guðfræðikennara, hefir nú vakið hina mestu gremju alstaðar, sem til hefir spurzt, fordæmd af öllum sæmilega þenkjandi mönnum, einnig í flokki sjálfs ráðh. Enginn hefir dirfzt að verja þetta, nema með veikum burðum flokksblað ráðh. (Alþbl.), og verður þá ágóðinn af vörninni vafasamur. — Að sjálfsögðu mótmælti guðfræðideild háskólans og háskólinn allur þessu gorræði, stúdentar að miklum meiri hluta, kirkjuráðið, og utan af landi komu mótmæli frá fundum o. s. frv., sem of langt yrði upp að telja, þar sem þetta kom fram bæði beinlínis og óbeinlínis.

Við þetta mál kemur að talsverðu leyti hinn danski guðfræðiprófessor Mosbech, eins og getið var fyrr. Á hann hefir ráðh. og fylgifiskar hans ráðizt næsta illyrmislega í þessu varnarriti, en ekki að sama skapi höndulega. — Þessi prófessor átti hingað að koma, ráðinn sem gestur að flytja nokkra fyrirlestra hér við háskólann, og var vegna forfalla annars beðinn að taka að sér starf í dómnefnd um leið, sem hann og gerði, en það var að vissu ekki lítið ómak, er hann svo vann alveg ókeypis. Hann fékk þýðingar af ritgerðum keppendanna og hafði dóm sinn um þær tilbúinn, er hann kom hingað til lands, svo að ekki gat hann smitazt af öðrum (eins og ráðh. hefir gefið í skyn); ritgerðir þessar voru aðalefni málsins, og þær voru sem sé alveg dulnefndar, svo að eigi varð vitað um höfunda hverrar um sig. Fyrir störfin hefir ráðh. svívirt þennan mæta mann, og þar með einnig auðvitað háskóla þann, sem hann kom frá, Khafnarháskóla. Slíkur skrælingjaháttur er nærri því það ljótasta í öllu málinu.

M. a. fann ráðh. þessum danska próf. til foráttu, að hann lét þess getið í blaði í Danmörku, löngu eftir að hann kom heim og allt var um garð gengið, einnig ráðh. farinn af stað með sinn málarekstur til annars lands, að ávæning hefði hann heyrt af því hér uppi, að nokkur pólitík myndi í þessu hjá ráðh., sem og aldrei hafði hér heima farið dult. En ekki er með nokkru viti kleift að telja þennan fræðimann hafa vakið á sér grunsemdir í prófinu fyrir þá sök, enda fór það fram fulltryggilega, eins og greint hefir verið, svo að hér kemur fram hinn áberandi vondi málstaður hjá ráðh. Álit próf. Mosbechs mun og standa jafnföstum fótum eftir eins og fyrir.

En Nygrens-þáttur prófessors hins sænska er vitanlega með öðrum hætti, þótt hann kunni að hafa mikið orð á sér einnig. Hann tók að sér það, sem ráðh. kallar „yfirmat“, en var í raun réttri ekkert löglegt mat; gaf og sitt álit einn maður á móti flmn. er áður höfðu dæmt, og stóð ekki betur að vigi, nema verr væri, í því að gera sér rétta grein fyrir öllum málavöxtum. Hafi verið örugg leynd fyrir honum á nöfnum keppenda o. s. frv., þá var það einnig um höfuðverkefni fyrir dómnefndinni, sem einnig var hinni munnlegu frammistöðu betur kunnug. En grunsemdir má vissulega gera sér um alla, ef menn hafa þann einn vilja, eins þennan mann eins og hina (þ. e. beita hann sömu tökum og ráðh. beitir dómnefndina), ekki sízt þegar hægt er að benda á hina óviðkunnanlegu leið, sem lýst hefir verið og farin var af ráðh. og hans fylgifiskum til þess að klófesta þennan sænska mann. Og vitanlega er þessi Nygren ekki óskeikull maður, fremur en aðrir. Og sem sagt: Álit hans gat ekki í neinu haggað hinum löglega dómi hér, enda líkist skýringargrein hans um keppendurna svæsnu málflutningsskjali, og má búast við, að öll aðferð hans gefi óbreyttum mönnum einkennilegar hugmyndir um það tillit og kurteisi, sem hann með þessu virðist telja, að ríkja elgi milli háskólastofnana og háskólamanna um meðferð fræðiefna. Vitanlega átti honum að vera kunnugt um það, sem á undan var gengið, og hefir sumpart verið það, og sumpart gat hann aflað sér upplýsinga um það, ef hann hefði um það hirt. En hann um það, og skapa menn sér álit um það eftir ástæðum.

En verst er, að hann hefir orðið óbein orsök þess, að ráðh. tókst að fullkomna sína hastarlegu tilraun til utanstefninga, til þess að hefja á ný þetta illræmda og óþjóðlega óþurftarverk, sem óaldarmenn fyrri tíða tömdu sér, ef þeir urðu undir í málum hér á landi, — að skakka leikinn með áhrifum erlendra manna sér í hag. Slíku mótmæltu góðir Íslendingar þá, og engum mun haldast uppi að iðka aftur þá þjóðniðslustarfsemi, sem nú mun um hríð loða við nafn H. G.

Víkur nú sögunni beint til Sigurðar klerks Einarssonar, sem eðlilega á sinn þátt málsins. Fleygt var því þegar á f. á., er samkeppnispróf var ákvarðað við háskólann, og þá haft eftir sjálfum sr. Sig. Ein., að hann teldi sér embættið vist hjá kennslumálaráðh., hvernig sem færi, enda gæti samkeppnin ekki farið nema á einn veg! Í þessu trausti virðist S. E. hafa verið hið bezta ánægður með skipun dómnefndarinnar og sigldi siðan til frama síns til Danmerkur og skrapp víst til Svíþjóðar, að því er hann sjálfur mun hafa sagt frá. Getur nú vel verið, að maðurinn hafi í galsa látið sér þetta um munn fara, en honum hefir þá í vissu falli ratazt satt á munn, þótt ekki blési byrlega um hríð, áður en fangaráðsins var neytt.

Mörgum þótti það hinsvegar með ólíkindum, eins og sr. Sig. Ein. var í stakk búinn, að hann sækti það svo fast sem raun hefir orðið á, að troða sér inn í háskólann, til þess að verða þar prestakennari. Hann hafði fyrir skömmu við lítinn orðstír um hríð hætt kennslu að mestu, þar sem hann áður hafði stöðu, við kennaraskólann, og er um það nokkur saga frá f. á., heldur ólystileg, sem þó verður eigi rakin hér, en þar var hann staðinn að vanrækslu í kennarastarfi og handahófsverki við nemendur. Allt þetta var kennslumálaráðh. H. G. kunnugt um S. E., því að fyrir lá kæruskjal um þetta, sem ráðh. hafði fengið að vita um innihald í, þegar hann fór að bjástra við að koma þessum herra inn í háskólann. Auk þess var ferill sr. Sig. Ein. þann veg í trúarefnum, eftir því sem hann sjálfur hefir gefið til kynna í ýmsu, sem hann hefir látið frá sér fara, að bíræfni er það hin mesta, að hann skuli telja sig, og ef aðrir telja hann heppilegan sem guðfræðikennara, — einmitt til þess að kenna „trúfræði og siðfræði“, eins og heyra mun til dósentsembætti því, sem hér var um að tala. Úr því ráðh. þóttist vilja hafa frjálsar hendur (þótt dómnefndin yrði að halda sig við hin framlögðu fræðilegu gögn), þá ekki einungis gat hann, heldur bar honum að taka það tillit til kirkju landsins og allrar þjóðarinnar, að sækjast ekki eftir því að taka þann manninn til þess að undirbúa kennimenn kirkjunnar (og ríkisvaldinu er skylt að styðja og vernda hina ísl. þjóðkirkju), taka ekki þann manninn til þessa, sem bæði var fallinn við samkeppnisprófið og almenningur í öllu landinu hafði mestan ýmugust á í trúarefnum allra keppendanna.

Sr. Sig. Ein. er vitanlega enginn óréttur ger, þótt hann sé látinn mæta sínum eigin orðum. — og þótt svo sé einnig, að hver einstaklingur megi venjulega átölulaust játa eða neita trúaratriðum, þá er þó skiljanlega öðru máli að gegna um þá menn, sem sækjast eftir að takast á hendur kennarastöðu í því, sem þeir ekki trúa á eða þá afskræma að almannadómi.

Það er ekki nema eðlilegt, að mönnum hefir orðið það fyrir að vitna, til sönnunar um hugarfar S. E. til kristinnar trúar eða guðstrúarinnar yfirleitt, til greinar þeirrar, er nú um sinn hefir verið nokkuð umtöluð og illræmd og hann skrifaði fyrir nokkrum árum, þá nýlega kominn úr prestsembætti, í tímar. „Iðunn“ undir titlinum: „Farið heilar, fornu dyggðir“ (jafnvel heitið segir til innrætisins), og þetta hefir hann hvergi tekið aftur. Eigi er tími til né heldur skal um það birt að gera grein þessari nein skil nú, enda er hún ekki sérlega hugðnæm; þó skal þess getið, að hún er sýnilega beint skrifuð til niðrunar trúarbrögðunum, guðshugmyndinni, skyldurækni og dyggðum, hjá einstaklingum og í mannlegu félagi, — og orðalagið með þeim galgopaskap, sem einkennir einatt framsetningu þessa manns.

Annars þekkja menn nú orðið hina oft hastarlegu og stundum óviðfelldnu framkomu sr. Sig. Ein. á undanförnum árum, bæði utan þings og innan, í útvarpi og skrifum, — og það er því það vægasta, sem um það verður sagt, er haft verður eftir þeim eina manni, sem fengizt hefir til þess undir nafni að verja skoðanir sr. Sig. E. í trúmálum sem uppalanda boðenda orðsins, hr. Ragnars E. Kvarans í Alþbl. (20. f. m.): „Engin ástæða er til þess“, segir hann, „að efast um, að mikið vantar á, að hinn nýi dósent sé vinsæll af meiri hluta þjóðarinnar“. — Já, brögð eru að, þá barnið finnur!

Ekki mun og orka tvímælis dómur hins stjórnarblaðsins, Nýja dagbl. (17. f. m.), málgagns Framsfl., um þessa „furðulegu embættisveitingu“, sem það kallar, og vill þó ekki fara lengra en gerlegt er fyrir samstarfsflokk kennslumálaráðh. Þar segir:

„Er óhætt að fullyrða, að meðal kennimannastéttarinnar og þess fólks yfirleitt í landinu, sem mest er sinnandi kirkjulegum málum, verður skipun hans (þ. e. s. e.) ekki vel tekið. Og því verður ekki með rökum mótmælt, að einmitt sá hluti þjóðarinnar, sem þessi mál lætur sig mestu varða, á réttlætiskröfu á því, að við ráðstöfun kennaraembættanna við guðfræðideild háskólans sé tekið tillit til vilja hans og tilfinninga“. „Mun því almennt verða trúað, að meir hafi þar um ráðið pólitískt ofurkapp en umhyggja fyrir þeirri stofnun, sem hér á hlut að máli. Því mun þetta þykja hið versta verk meðal alls þorra almennings í þessu landi, og raunalegur blettur á stjórnarferli“ kennslumálaráðh. H. Guðm.

Svo mörg eru þau orð hjá málsvara Framsfl. — en vitanlega er ekki útrætt um hr. Sig. Ein. sem prestakennara, þótt hér verði staðar numið. Hann og hans fylgjendur munu fá að sanna það á næstu tímum. Það er ekki hægt að bjóða fólkinu allt í þeim efnum.

Lokaþáttur málsins að þessu sinni er þáttur Alþingis.

Eins og flestum er nú orðið kunnugt, fylgdu mótmæla-ályktunum (gegn framferði kennslumálarh.) frá háskóla og stúdentum, óskir og áskoranir frá nemendum og kennurum í guðfræðideild (studdar af kirkjuráði hinnar ísl. þjóðkirkju), um að það yrði tryggt með löggjöf, að sr. Björn Magnússon yrði áfram kennari þar í hinum ákveðnu námsgreinum. Var það getið tilefni til afskipta Alþingis, enda þótt hér væri að sjálfsögðu mest um vert tillitið til sjálfs háskólans, stofnunarinnar og þjóðarinnar, hvað sem einstökum kennurum liði. En hér gat það farið saman við að gera ráðstafanir til þess að flytja, eins og Sjálfstfl. í öndverðu vildi, hreint frumv. um að gera sr. B. M. að föstum dósent við guðfræðideild, svo að stúdentum þar (eftir ósk þeirra) gæfist kostur á að njóta kennslu hans og þurfa ekki að hverfa til hins nýskipaða (S. E.). Þetta þótti þá Framsfl. of beint í sakir farið, vegna stjórnarsamvinnunnar, þótt þeir teldust stjórnarandstæðingum sammála um málið sjálft, og báru þeir þá fram frv. um almenna fjölgun dósenta (heimikil handa háskólanum), og þótti þá og öðrum sem við það mætti hlíta eftir atvikum, enda átti því máli þá að vera tryggður framgangur á þessu þingi.

En margt fer öðruvísi en ætlað er (og þó sumt ekki framar því, sem „venja“ stendur til). Framsóknarmenn á Alþingi hafa frá byrjun, því miður, þrátt fyrir einhvern vilja „innvortis“, farið í kringum efni þessa máls eins og kötturinn í kringum heitan graut; — þótt þeir þættust og væru reyndar sárlega móðgaðir, mátti þó varla tala upphátt um þetta vegna hinnar dýrmætu „kjötkatla“-samvinnu í stjórninni. Sem minnst mátti hafa orð á snörunni í hengds manns húsi; fyrir því hafa þeir svo sem ekki nefnt málið á nafn í tillögum sínum eða greinargerðum, sem þó er heldur auðmýkjandi kurteisi. En –kennslumálaráðh. H. G. var líka hinn versti við þá, þótt hann ætti upptökin að fárinu. Fór hann geystur í umræðum og svaraði ádeilum með: „Spyrjum að leikslokum“! þegar bent var á, að tillögurnar bæru með sér ótvírætt vantraust á ráðh. fyrir athafnir hans, einkum er þær kæmu frá samstarfsflokknum, og myndi hann ekki geta undir því setið í ráðherrastóli, þótt þaulsætinn væri þar ella og „mjög sitjandi“. Og nú er svo komið, að málið hefir í nefnd (hv. menntmn.) fengið þann áverka, er ráðh. þykir nægja, og eru framsóknarmenn og sósialistar nú saman um tillöguna, er hér liggur fyrir, — en þar með hafa. framsóknarmenn afráðið að bera út sitt eigið afkvæmi, og lítið stoðar, þótt stjórnarandstæðingar vilji reyna að halda í því lífinu, því að þeir verða ofurliði bornir. Tillagan, sem sameinaðir feður og banamenn frv. bera nú fram, er til nefndarskipunar milli þinga til að endurskoða reglur háskólans, og virðist nú mjög slegið út í fyrir hinum angruðu framsóknarmönnum, því að með þessu er engan veginn tryggður neinn réttur handa sr. Birni dósent, sem þeir þóttust þó sér í lagi bera fyrir brjósti, til þess að halda uppi kennslu og frumkvæma próf, sem þó átti að vra nokkurt aðalatriði, enda þótt honum verði að öðru leyti ætluð árslaun á fjárlögum. Líkist þetta næsta mikið fálmi, þótt till. sjálf sé yfirleift meinlaus, sem grg. þó ekki er, sem sýnir hug sumra. er að henni standa; þar er sem sé ekki vikið að neinum nema þeim, sem ofsóttur var, háskólanum, en sökudólgurinn sjálfur ekki nefndur á nafn, svo að segja má, að hver sé þar silkihúfan upp af annari !

Þetta hringsól var nú að vísu af mörgum séð fyrir, enda var því „aldrei um Álftanes spáð, að ættjörðin frelsaðist þar“, og alltaf við búið, að einhverjir af þeim framsóknarmönnum myndu von bráðar .,hverfa til náttúrunnar aftur“, undir okið hjá sósíalistum, í þessu máli eins og fleirum, hvað lengi sem slíkt getur nú gengið framvegis, því að ýmsir þar munu nú orðnir fullleiðir á því lífi.

Það var eftir þessari útkomu heldur snemmt, að form. Framsfl. (hv. þm. S.-Þ., J.J.), með sinni alkunnu rausn í riti, tók að sér fyrir nokkru í N. dbl. að lofa röggsemi flokksmanna sinna í þessu máli og hið mæta frv., sem hann kvað hina mestu gersemi og til jafns frama fyrir háskólann og flokkinn hans! Rétt á eftir þurfti hann að setjast aftur niður og rita grafskrift yfir þessari sömu gersemi, — og þó að honum takist það að vonum miður höndulega — að skrifa á móti sannfæringu sinni, sem hann er víst óvanur — og þetta verði því gagnslaust yfirklór, — þá segir hann samt í leiðinni nokkur vel valin sannindi, sem hann vafalaust ætlast til, að verði nærgætin við hans ennverandi samstarfsmenn, um sr. Sig. Ein. og kennslumálaráðh. H. G. (N.dbl. 12. þ. m.):

„Sigurður Einarsson“, segir hann, „virðist ætla að fara einkennilega götu. Hann er orðinn dósent í guðfræði gegn vitanlegum mótmælum og óhug nálega allra manna í landinu, að frátekinni fámennri klíku í þeim flokki, sem hann nú er í. Aldrei hefir nokkur maður svo vitað sé í tíð núlifandi manna tekið að sér að starfa fyrir hina íslenzku þjóðkirkju með jafnalmennan fordæmingarorðróm um hæfni sína eins og hann“.

„Haraldur Guðmundsson hefir nú skipað þennan mann“ segir J. J. ennfremur, „til að kenna guðfræði við háskólann, í almennri vanþökk allra þeirra, sem hneigjast að kirkjulegu starfi, og allra, sem vilja unna trúuðum mönnum að hafa virðulegt kirkjulegt líf.

Sú stofnun, sem í fyrstu röð hefir tekið upp þykkjuna út af þessari ráðsmennsku Haralds Guðmundssonar, er háskólinn, en þar næst tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins. Meginhlutinn af kjósendum Alþfl. er líka á móti ráðherra sínum í þessu máli, þó að það komi ekki opinberlega fram fyrr en reynir á kjörfylgi við almennar kosningar“.

Ójá, þetta segir nú form. Framsfl. og þykist þekkja sína heimamenn! En allt þetta sannar, að um viðhorf málsins eru allir málsmetandi menn yfirleitt sammála.

Líklega hefir hv. þm. S.-Þ. (JJ) í svipinn ekki munað eftir því, er hann reit fyrri grein sína, að nýliðarnir í flokki hans, hinir ennþá „rauðskjóttu“, eru ekki til þess komnir á Alþing (með hans meðmælum) að skilja í kasti við „garðana í Gröf“, heldur til þess enn að fórna miklu — og ef til vill gera þeir sig líklega að lokum til þess jafnvel að fórna honum, sjálfum formanninum, á blótstall hins rauða skurðgoðs.

Þetta voru að vísu „leikslokin“, sem hæstv. kennslumálarh. mun hafa átt við. En leikslokin eru þó ekki öll.

Allir dagar eiga kvöld og svo getur farið, að hér sannist einnig, að „sér grefur gröf, þó grafi“.