20.12.1937
Neðri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2253)

137. mál, Háskóli Íslands

*Þorsteinn Briem:

Svo oft má ganga fram af mönnum, að þeir hætti að undrast. Svo oft má bregða út af lögum, reglum og föstum venjum og sanngirni um veitingu embætta og starfa, að það þyki ekki lengur tíðindum sæta, þó að enn beri út af.

Svo virðist vera orðið á landi hér. Það hefir jafnvel ekki þótt tíðindum sæta, þó að maður sé skipaður í embætti sem fullnægir ekki þeim skilyrðum, sem með lögum er bundið, að hann skuli hafa til þess að fá það starf.

Því einstæðari er sú almanna undrun og óánægja, sem orðið hefir út af þeirri embættisveitingu. sem mál þetta er sprottið af.

Óánægjan ber því skýrt vitni, að þjóðin metur ekki embættin eftir launahæð, því að hér er um lágt launað starf að ræða, heldur eftir mikilvægi þeirra og gildi fyrir þjóðina í heild.

Og eftir þessum hárrétta mælikvarða, sem þjóðin sjálf hefir í þessu efni, þá er embættið í röð hinna mikilsverðustu, þar sem sá maður, er það skipar, á að undirbúa kennimannaefni fyrir hverja sveit á landinu.

Enn telja flestir menn sig það nokkru skipta, hvort þeir eigi góðan prest eða ekki. Og um það efni veltur mjög á því, hvernig undirbúning prestaefnin fá við nám sitt.

Hvert heimili landsins og hver maður, sem fyrr eða siðar getur látið andleg mál nokkru skipta fyrir sig eða börn sin, á því mikið undir því, hvernig í þetta embætti er valið.

Það er og hersýnilegt, að hlutaðeigandi háskóladeild hefir viljað vanda til þessa vals. Hún boðar til samkeppnisprófs um það. Og hún velur í dómnefnd ekki aðeins hina færustu menn innanlands, heldur fær hún og þar til einnig viðurkenndan fræðimann erlendan, og það einmitt í þeirri sérgrein guðfræðinnar, sem úrlausnarefnið grundvallast fyrst og fremst á, þ. e. sérfræðing í nýjatestamentisfræðum.

Þessi viðurkenndi sérfræðingur fær ritgerðirnar og semur um þær dómsálit, áður en hann kemur hingað til landsins og á tal við nokkurn hérlendan mann. Hinir hérlendu dómnefndarmenn semja og hver um sig sitt dómsálit. En þó falla dómsálit þeirra allra svo saman, að þeir verða þegar í stað summála um að leggja álitsgerð dr. theol. próf. Mosbechs algerlega til grundvallar.

Dómur féll, eins og kunnugt er, á þá lund, að sr. Björn Magnússon væri ekki aðeins hæfastur, heldur einn hæfur.

Vér getum nú ekki varizt spurningunni: Hvað hefði ráðherrann gert, ef dómurinn hefði fallið á þá leið, að það hefði ekki verið sr. Björn Magnússon, heldur Sigurður Einarsson, sem hefði verið dæmdur ekki aðeins hæfastur, heldur einn hæfur?

Getur nokkur maður verið í minnsta vafa um, að ráðherrann hefði þá ekki aðeins talið það sjálfsagt, heldur sér skylt að veita Sigurði Einarssyni embættið — og það umsvifalaust? —

Það er náttúrlega ekki hægt að ábyrgjast, að allir hefðu orðið ánægðir með veitinguna fyrir því. En hvað hefði ráðherrann þá sagt? Hefði hann ekki kveðið fast að orði um það, að sér hefði ekki aðeins verið rétt, heldur og beinlínis skylt að veita embættið eftir tillögum dómnefndarinnar?

Hefði hann ekki brýnt raustina og sagt: Hvernig átti ég, sem sjálfur hefi enga þekkingu í þessum efnum, að ætla mér þá dul að setja mig yfir dómnefnd, sem skipuð er hinum færustu mönnum hérlendum og erlendum, og hefir kveðið upp þann einróma úrskurð, að Sigurður Einarsson væri ekki aðeins hæfastur, heldur einn hæfur? — Og ef maður ætti að imynda sér, að nokkur maður hefði verið svo hugkvæmur að fara að tala um, að fá hefði mátt yfirmat einhvers erlends fræðimanns á úrskurði dómnefndarinnar, — hvað hefði hæstv. ráðherra þá sagt?

Hefði hann ekki farið þungum orðum um þá firru að hugsa sér að gera hinum innlenda háskóla og þar með allri þjóðinni þá hneisu að fá einhvern yfirdóm eins erlends manns á dómsúrskurð löglega skipaðrar dómnefndar við æðstu menntastofnun landsins? Enginn maður og ekki hæstv. ráðherra sjálfur er í hinum minnsta vafa um, að slíkt hefði ráðherrann þá talið hinar mestu firrur og fjarstæður.

En allar þessar firrur og fjarstæður hefir ráðherrann gert. Allt þetta, sem ráðherrann hefði talið firrur og fjarstæður einar, ef Sigurður Einarsson hefði sigrað í samkeppnisprófinu, það hefir hann nú sjálfur gert, af því að annar maður en Sigurður Einarsson var dæmdur hæfastur og einn hæfur.

Hann hefir þverbrotið þær föstu venjur hér og erlendis, sem hann hefði talið sér skylt að fylgja, ef pólitískur skjólstæðingur hans hefði ekki annarsvegar átt í hlut.

Hann hefir ætlað sér þá dul að setja sig yfir löglega skipaðan fræðimannadóm við æðstu menntastofnun ríkisins. Og hann hefir eftir pólitískum kunningjaleiðum valið sér einn erlendan prófessor til að hrinda löglega settum dómi fimm fræðimanna, innlendra og erlendra, sem allir kveða upp samhljóða dóm.

Þessa aðferð hefði hæstv. ráðherra sjálfur orðið manna fyrstur til að fordæma, ef Sigurður Einarsson hefði nú staðið í sporum sr. Björns Magnússonar.

Eina afsökun hefir hæstv. ráðherra borið fram fyrir því að leita yfirmats. Hún er sú, að háskóladeildin hafi ekki sent honum álitsgerð Mosbechs fyrr en í haust. Þetta átelur hann þunglega sem trúnaðarbrot. En það var engin von, að guðfræðideildin þættist við það bundin að afhenda meira en aðalniðurstöðuna, þegar það var sýnt, að ráðherrann ætlaði að hafa þá niðurstöðu að engu.

Hann hafði með bréfi 20. marz heimtað í sínar hendur samkeppnisritgerðirnar og fyrirlestrahandritin. Þegar deildin sá, að ráðuneytið sjálft vildi rannsaka málið, var ekki ástæða til þess að senda ráðherranum frekari skilagrein.

Framkoma ráðherrans hefir í einu og öllu verið þannig í þessu máli, að hann hefir flest á móti sér. Hann hefir ekki aðeins einróma álitsgerð dómnefndar á móti sér. Hann hefir guðfæðideildina á móti sér. Hann hefir nemendurna á móti sér. Hann hefir háskólaráðið á móti sér. Hann hefir allan samstarfsflokk sinn á móti sér. Og hann hefir á móti sér almenningsálit alls þess fólks í landinu, sem um þessi mál hugsar.

Framsóknarflokkurinn flutti frv. í þessari hv. deild, þar sem farið virtist vera inn á viðunandi leið til að kippa þessu í lag. Í blaði flokksins, Nýja dagblaðinu, ritar formaður flokksins grein um málið 28/11, þar sem hann segir m. a., að sr. Björn Magnússon eigi skýlausan rétt til skaðabóta, ef hann sé sviptur þannig starfi án saka; — „landið getur varla kastað honum út á klakann, svo sem málavextir eru. — Lærisveinar hans hafa óskað eftir að njóta kennslu hans. Og samkennarar hans og háskólaráðið virðast vera á sömu skoðun. Ef frv. framsóknarmanna nær fram að ganga á næstu dögum, sem enginn efast um, þá tryggir það háskólanum möguleika til að njóta starfskrafta sr. Björns Magnússonar í vetur — —. Lengra er ekki hægt að segja fyrir, hversu það mál mundi rekið. Það er í öllum aðalatriðum komið undir vilja sr. Björns Magnússonar á aðra hönd og óskum borgaranna í landinn á hina“. — Enn bætir flokksformaðurinn við, „að Framsóknarflokkurinn muni halda sinni stefnu áfram að endurbæta háskólann - — löngu eftir að núverandi ráðuneyti hefir safnazt til feðra sinna í kirkjugarð íslenzkra ráðuneyta“ — — Þeir muni „snúa baráttu háskólans við Harald Guðmundsson út af Sigurði Einarssyni úr augnabliksmáll í stórt framtíðarmál“, og áhrifanna af frv. muni gæta „í málum háskólans löngu eftir að menn eru búnir að gleyma því, að Sigurði Einarssyni var, seint á árinu 1937, veitt lítið brauð í guðfræðideild háskólans“.

Þannig talaði formaður Framsfl. 28. nóv., og þannig virtist afstaða alls flokksins vera þá. En hvað hefir gerzt? — Nú vill flokkurinn eyða þessu frv., sem hann er búinn að ganga alllengi með, tortíma afkvæmi sínu. Hann vill eyða málinu í bráð með þessari þáltill., slá því a. m. k. á frest, hver veit hvað lengi. Eftir svona umskipti er valt að treysta, að ekki verði aftur slegið á frest á næsta þingi og svo framvegis. Heilindum Framsfl. í málinu er þýðingarlaust að treysta.

En ekki bætir það málstað kennslumálaráðherrans. Eina hálmstrá hans í málinn er álitsgerð prófessors Nygrens, sem hann fær flokksmann sinn hér heima til þess að útvega um hendur pólitísks samflokksmanns sins í Svíþjóð. Og af því að þetta svonefnda yfirmat prófessors Nygrens er nú frægt orðið og mjög til þess vitnað, þykir mér rétt, vegna hlustenda úti um land, að gera nokkurn samanburð á því og greinargerð prófessors Mosbechs.

Ritgerðarefni það, sem keppendum var gefið, tekur inn á allar þær sérgreinir, sem fá þurfti kennara i: nýjatestamentisfræði, trúfræði, siðfræði og kennimannlega guðfræði. En þó er úrlausnarefninu svo hagað, að nýjatestamentisfræðin verða, svo sem vænta má, sú grundvallarfræðigrein, sem jafnan verður til að taka við úrlausn þess.

Það var því mikilsvert, að sá maður, sem fenginn var af hálfu annars háskóla til að taka sæti í dómnefnd, prófessor Mosbech, er, auk mikillar almennrar guðfræðiþekkingar, sérfræðingur í grundvaliarfræðigreininni, sem ritgerðin varð á að byggjast.

Prófessor Nygren er aftur á móti sérfræðingur í siðfræði. En inn á svið hennar tekur verkefnið að vísu að nokkru leyti, en þó ekki svo, að jafnyfirgripsmikil þekking í þeirri fræðigrein sé neitt nándarnærri jafnmikið grundvallarskilyrði við lausn verkefnisins eins og sérfræðigrein próf. Mosbechs. Báðir eru þessir prófessorar viðurkenndir fræðimenn, hvor í sinni sérgrein. Verður því að telja, að hvorugum þessara mann sé gert rangt til, þó að maður taki dóm þeirra hvors um sig í sinni sérfræðigrein sem fullnaðarúrskurð.

Menn mundu því komast næst hinu rétta með því að fylgja algerlega dómi Nygrens um siðfræðileg efni ritgerðanna, af því að það er hans sérgrein, en aftur á móti bæri þá að fylgja dómi Mosbechs um þau efni, sem snerta nýjatestamentisfræðina, af því að hún er hans sérgrein.

Ef fylgt er dómi Nygrens um það efni, sem kemur undir hans sérfræðigrein, siðfræðina, þá verðum við litlu fróðari, því að hann kemur ekki inn á þau efni sérfræði sinnar í dómi sínum, og það er eftirtekfarvert, hvort sem má virða það svo, að hann vilji ekki setja sína sérfræði í veð fyrir dóminum. Í raun og veru þarf því ekki meira um dóm Nygrens að tala, þar sem þar er komið út fyrir sérfræðigrein hans. Þó er rétt á hann að hlýða utan sérgreinar hans um þau efni, þar sem ætla má, að hann standi jafnfætis Mosbech, en það er í trúarbragðasögunni. En í því efni segir Nygren um ritgerð Sigurðar Einarssonar, að þeim þætti ritgerðarinnar sé nokkuð ábótavant, og þekking höfundar tiltölulega takmörkuð, enda hafði Sigurður Einarsson nær hlaupið yfir þann kafla verkefnisins. Það vantaði því mikið á, að Sigurður Einarsson hefði lokið verkinu. Sigurður Einarsson hafði ekki svarað öllu verkefninu fremur en Árni Pálsson. Nær alveg hlaupið yfir einn meginþátt verkefnisins, sem var þróun trúarlærdómanna. Sigurði Einarssyni varð því svipað á og það, sem hæstv. ráðh. átaldi svo harðlega hjá Árna Pálssyni prófessor. Kemur dómur Nygrens þar algerlega heim við dóm Mosbechs, nema hvað Mosbech rökstyður sinn dóm með fjölda af dæmum. En Nygren notar þar tækifærið til að afsaka Sig. Einarsson einn með því að hann hafi ekki haft tíma. Sigurður Einarsson einn fékk algert frí frá öllum störfum til að sigla og semja ritgerð sína úti í Kaupmannahöfn. En hinir urðu að meira og minna leyti að gegna embættum sínum á meðan. T. d. varð sr. Benjamín Kristjánsson að hafa 8 jarðarfarir síðustu 3 vikurnar, sem hann var að semja sína ritgerð. Þó afsakar Nygren Sig. Einarsson einan með tímaleysi.

Báðir segja þeir, að ritgerðarinngangsorð Sig. Einarssonar séu skýr og skarpleg, og er svo að sjá, sem þau séu 9 bls. af 289.

Þá er komið að því efni, þar sem Mosbech er tvímælalaust mestur sérfræðingurinn og þar sem hlíta verður dómi hans afdráttarlaust, eins og skylt var um sérgrein Nygrens, siðfræðina, ef hann hefði komið inn á sérfræðiefni sín. Um þessi efni segir Mosbech um ritgerð Sig. Einarssonar: „Þær vonir, sem vakna við hin skarplegu inngangsorð, bregðast þegar framhaldið kemur.“ Hann segir að vísu, að Sigurður Einarsson ráði yfir léttum og liprum stíl. En hann ætlast ekki til, að skrifuð sé prédikun eða jafnvel blaðagrein, heldur vísindaleg ritgerð.

Hann segir, að framsetningin verði oft allsundurlaus og hann hlaupi nokkuð úr einu í annað.

Og nefnir hann til þess mörg dæmi. Hann segir, að höfundur hlaupi yfir sum mestu vandamálin í örfáum línum, og nefnir þar dæmi til, og ýmis mikilvæg úrlausnarefni drepi hann aðeins á með örfáum orðum. En ennþá verra segir hann það, að mælskublærinn á framsetningunni verður þess oft valdandi, að hin raunverulegu úrlausnarefni svífa annaðhvort í óljósum hillingum (fortones ) eða gufa algerlega upp (ganske forsvinder). Hann nefnir til ýmsa kafla, þar sem greinargerðin sé mjög óljós og svífi í lausu lofti (meget uklart og svævende). „Óskýrleikinn stafar oft af því, að höfundur virðist engan veginn hafa gert sér ljósa grein fyrir muninum á „liberölum“ og „orthodoxum“ skilningi á þeim vandamálum, sem hann fæst við“, segir hann, og komi þetta í ljós aftur og aftur. Þá segir hann, að dómar höfundar séu oft þokukenndir. Skortur hans á glöggsæi valdi því, að þar er fjöldi af endurtekningum, segir hann. Og hann segir ennfremur, að „stundum virðist manni eins og hann sé alltaf í sama farinu“. Og allt þetta rökstyður hann með dæmum. Að því er tekur til trúarlærdómasögunnar, eru þessir prófessorar báðir á sama máli, að þekking Sigurðar Einarssonar sé takmörkuð, nema hvað Mosbech rökstyður sinn dóm með dæmum. En hinn bætir því við, að þar sem þessi kafli hafi þannig orðið allmjög útundan, þá hefði átt að mega gera sér vonir um það, að kaflarnir, er vörðuðu nýjatestamentið og eru 2 fyrstu höfuðkaflarnir, og talsverður hluti af 3. kaflanum, hefðu borið vitni um grundvallaða þekkingu á meðferð vandamála á sviði nýjatestamentisins, sem höfundur fæst við, en því fer mjög fjarri að mínum dómi, segir hann. Aftur á móti segir Mosbech, að sr. Björn Magnússon hafi til hlítar leyst verkefnið, og rökstyður það með rækilegri greinargerð, hve ritgerð hans beri af um víðtæka þekkingu og skilning. Dómar beggja þessara erlendu prófessora hafa nú verið raktir um þann keppandann, sem embættið hlaut. Báða þessa dóma geta menn innan skamms lesið á prenti og sjálfir borið saman. Ég geri ráð fyrir, að menn telji það réttari mælikvarða á dómana, að fylgja Nygren að því leyti sem hans sérfræðigrein kemur til. Að telja það líka réttan dóm, þar sem báðir eru sammála, þó að það sé utan sérgreinar hvors um sig. En að hlíta beri dómi Mosbechs um þau efni, sem heyra undir sérgrein hans, en það eru meginþættir ritgerðarinnar, tveir fyrstu höfuðkaflarnir og mikill hluti hins þriðja. Menn tóku eftir því. að úrlausnarefnin koma ekki nema að litlu leyti inn á sérfræðigrein Nygrens. En meginmál verkefnisins er aftur á sérfræðisviði Mosbeehs. Menn tóku eftir því, að Nygren kemur hvergi inn á fræðiatriði úr sérgrein sinni. Það skiptir aftur í tvö horn, hve Mosbech rökstyður með fjölda dæma dóm sinn um öll þau atriði, sem taka inn á sérfræðisvið hans, en það er meginmál ritgerðarinnar, enda grundvallarfræðigreinin um verkefnið. En svo virðist sem hinn harði dómur Nygrens um sr. Björn Magnússon stafi nokkuð af því, að það kemur þá í ljós, að sem sérfræðidómur er álitsgerð Nygrens ekki nokkur skapaður hlutur; því að hann forðast það eins og heitan eldinn að setja sérfræði sína í veð fyrir dóminum. Hann skrifar dóminn eins og blaðagrein eða innlegg í málflutningi, svo að áberandi er. Og á hverju byggir hann svo dóminn?

Nygren hyggir dóm sinn um hæfni Sig. Einarssonar á því, að ritgerðin sýni, að hann sé gáfaður. Nefnir hann sem sönnun þess einkum inngangsorð ritgerðarinnar. Sem vott um vísindahæfileika nefnir hann siðari fyrirlesturinn, þar sem vér, sem á hlýddum, heyrðum, að hann talaði í 2/3 tímans um allt annað efni en það, sem um var spurt, og Nygren játar sjálfur, að hann beri engin kennsl á.

Síðastur manna skal ég frýja Sig. Einarssyni vits. En óneitanlega er þetta síðasta dálítið einkennileg sönnun hjá prófessornum, a. m. k. í augum þeirra manna hérlendra, sem telja sig vita, hvernig sá kafli er til kominn. Annars undrast ég, úr því að hér er allt lagt upp úr gáfnaprófinu, að hæstv. ráðh. skyldi ekki senda ritgerðirnar vestur í einhvern amerískan barnaskóla, því að þar kváðu a. m. k. fara fram eins nákvæmar gáfnamælingar og þetta dæmi ber vott um hjá prófessornum. Og minna má á, að ekki mundi Brandi biskupi Sæmundssyni hafa þótt það eitt nóg til þess að hann vildi taka Hvamms-Sturlu frænda sinn til kennimannsskapar í kirkju sinni eða prestaskóla, þó að hann fengi fullgildan gáfnavitnisburðinn á Lögbergi, er Brandur mælti til hans: „Engi maður frýr þér vits.“

Ég hefi þá sýnt fram á, að jafnvel út frá sjónarmiði hæstv. ráðh., sem byggir alla vörn sína á því, að taka beri einkadóm eins fræðimanns fram yfir opinberlegan og löglegan dóm 5 fræðimanna dómnefndar, fari þetta einasta og aleinasta hálmstrá ráðh. að verða nokkuð veikt fyrir hann að hanga á.

Þar til kemur svo það, sem 1. flm. frv. rökstuddi svo rækilega við 1. umr., að ef ráðh. ætlaði sér að fara eftir fræðimannadómi í þessari veitingu, þá gat hann ekki farið eftir neinum öðrum dómi en þeim löglega setta fræðimannadómi dómnefndarinnar. Nei, ráðh. er ekki lengur stætt á þessari Nygrens-nöf. Það er ekki til nokkurs skapaðs hlutar fyrir hann að bera þennan Nygrens-dóm fyrir sig. Hann bindur ekki skýlu fyrir augu nokkurs sjáandi manns með honum. Það er því bezt fyrir hann að hætta við allar blekkingar í þessu máli og játa þann sannleika hreinskilnislega, að hann hafi ekki veitt dósentsembættið eftir neinu öðru en pólitík. Á því eina einasta sviði gæti hæstv. ráðh. reynt að verja sig, með því að segja eins og er, að það sé sín ófrávíkjanlega stefna að koma alstaðar að sínum pólitísku flokksbræðrum. Og við hana haldi hann sér, hvað sem tautar. En þó að hann hefði viljað binda sig eingöngu við það að koma virkum flokksbróður sínum í embættið, þá gat hann farið þess á leit við betri menn úr guðfræðingahópi að sækja og keppa um embættið en Sigurð Einarsson. Mætti þar til nefna menn, sem að allra dómi standa þessum nýja dósent framar, bæði að gáfum, þekkingu og manngildi, og það eru a. m. k. meiri líkur til þess, að þeir hefðu reynzt hæfari við samkeppnisprófið en Sigurður Einarsson. En hæstv. ráðh. nægir það ekki að geta komið einhverjum slíkum flokksbróður sínum að guðfræðikennslunni. Hann þröngvar þar inn manni, sem jafnvel blað annars stjfl. kemst ekki hjá að segja um, að óhug hafi slegið á landsfólkið, er slíkt spurðist. Og hann gerir þetta án þess að hafa þar við ráð vitrustu manna flokks sins, heldur lætur, að því að talið er, fámenna flokksklíku fleka sig til þess. Þannig eru öll vígi ónýt fyrir ráðh. Honum væri þá sæmst að viðurkenna yfirsjón sína og segja eins og maðurinn, sem réðst á Jónas Hallgrímsson: Hafi ég aldrei gert það. Ég var flekaður til þess.