20.12.1937
Neðri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (2256)

137. mál, Háskóli Íslands

*Frsm. (Pálmi Hannesson):

Ég hlýt að þakka hv. ræðum. fyrir það, hvernig þeir hafa með þögninni samþ. þær till., sem voru bornar fram í frumræðunni í þessu máli, þær till., sem Framsfl. hefir gert að sínum till. Ég gat þess þá, að óánægja væri út af veitingu dósentsembættisins og taldi til þess 5 ástæður, og skal ég stuttlega víkja að þeim aftur. Það er í fyrsta lagi andúð á séra Sigurði Einarssyni, þá samúð með séra Birni Magnússyni, aðferð hæstv. ráðh. um veitinguna, sjálfsforræði háskólans og loks löngun hv. andstæðinga til að hagnast á málinu pólitíkt.

Á þetta fimmstrengjaða hljóðfæri hafa ræðumenn leikið síðan. Fyrstur varð til hv. þm. V.Sk. Ég átti von á, að hann mundi spila hér kirkjuaríu, en hann kaus að leika stríðsmarsch. Hann har hér fram órökstuddar getsakir, ekki til Framsfl., heldur til hæstv. kennslumrh. og hinna erlendu fræðimanna, prófessoranna Mosbechs og Nygrens. Ég fyrir mitt leyti leyfi mér ekki að draga það í efa, að þeir séu báðir fullfærir fræðimenn á þessu sviði. Það er yfirleitt svo, að þeir menn sem takast í hendur kennslu í erlendum háskólum, eru svo vel að sér, að ekki tjáir fyrir okkur hér að efast um hæfni þeirra, Það þýðir ekki að reyna að vinna þetta mál með því að vega að þessum erlendu fræðimönnum. Hv. þm. byrjaði á því að spila á einn streng, hann spilaði á Sigurð Einarsson. Í því sambandi kom hv. þm. fram með það, sem ég vil kalla dylgjur um trúarskoðanir Sigurðar Einarssonar. Ég skal ekkert segja um trú Sigurðar Einarssonar, ég veit lítið um hans trú, en efast um, að hv. þm. V.-Sk. viti þar betur en ég. Þó að hann hafi fyrir nokkrum árum skrifað grein, sem ekki verði kirkjuleg talin, er það enginn dómur á hæfileika hans til þess embættis, sem hér er um að ræða. Ég veit t. d., að hv. þm. V.-Sk. hefir áður haft afstöðu til trúmála, sem hann mundi ekki vilja láta telja sína trú núna. Ég verð að benda á það, eins og hæstv. ráðh. raunar gerði, að ef samkeppnisritgerð Sigurðar Einarssonar gat talizt óhæfileg vegna þeirra trúarskoðana, sem í henni fælust, bar að vísa henni frá þegar og láta hana ekki koma til greina við prófið.

Ég vil líka minna á það, að þegar Sigurður Einarsson gerði dómnefndinni tilboð sitt um þriðja dóminn, sem dæma skyldi úrslitadóm í málinn, var því tilboði ekki sinnt. Með því móti hefði þó fengizt faglegur úrskurður, einskonar yfirmat yfirmatsins.

Þá vék hv. þm. að Framsfl. og að hann hefði óttazt um samvinnuslit við Alþfl. út af þessu máli. Það er rétt, að Framsfl. áleit ekki forsvaranlegt að slíta samvinnu um þau vandamál, sem bíða úrlausnar, aðeins út af veitingu dósentsembættisins. Til þess var það mál ekki nógu mikilvægt. Framsfl. kaus að reyna að leysa málið með friði og spekt. Það virtist koma dálítið fram í stríðslagi hv. þm. V.-Sk., að hann langaði til að komast í þá samvinnu við Framsfl., sem hann getur ekki unnað Alþfl. En það er ekki til umr. nú.

Hv. þm. talaði um nýliða í Framsfl., sem væri rauðskjóttur. Ég veit, að því skeyti var stefnt til mín. en tek mér það ekki nærri.

Þá kom hæstv. kennslumrh. næst að hljóðfærinu. Hann átti vitanlega hendur sínar að verja. En ekki gat hann hrakið ásakanir mínar um, að honum hefði borið að taka meira tillit til skoðana manna í landinu í trúmálum. Hitt verð ég að segja hæstv. ráðh. til hróss, að hann er fúsari til samkomulags um bráðabirgðalausn á þessu máli en aðrir.

Næstur talaði hv. þm. Dal. og talaði langt mál. Það má segja, að hann hafi leikið kirkjuaríuna. Mikið af ræðu hans var guðfræðilegs efnis, en um lað er ég ekki bær að dæma. Hann minntist á, hvernig hæstv. ráðh. hefði farið að, ef Sigurður Einarsson hefði verið sviptur setningu í embættið, en Birni Magnúsyni þrengt inn. Mig langar til þess að minna hv. þm. á afstöðu hans sjálfs. Mundi hann þá hafa verið andstæðingur hæstv. ráðh. í málinu“.

Loks kom fram hv. 5. þm. Reykv. og lék á rússneska balalaika. Það er nýstárlegt að heyra hér slíkt undirspil, ekki sízt, þegar um trúmál er að ræða.

Ég vil víkja að því aftur, að það, sem Framsfl. hefir haldið fram í þessu máli, stendur óhaggað. Afstaða okkar er að gera það bezta, sem unnt er, til þess að bjarga málinu. Það er kannske hægt að segja, að það sé of seint að byrgja brunninn, þegar barnið sé dottið ofan i. En það er ekki of seint, því að fleiri börn geta dottið í brunninn. (GSv: Á barnið, sem er dottið ofan í, að vera í brunninum?). Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. hafi ástæðu til að draga þá ályktun af orðum mínum. Ég sagði, að Framsfl. vildi leiðrétta það, sem þegar væri farið aflaga. Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum deilumálum er Framsfl. milliflokkur. Hann vill miðla málum. Hann hefir ekkert hér að vinna persónulega eða flokkslega fyrir sig, en hann finnur til ábyrgðarinnar gagnvart þjóðinni. Hann finnur til ábyrgðar á velfarnaði þeirra stofnana, sem undir ríkið heyra. Framsfl. hefir sýnt þetta í verkinu. Hann hefir stutt háskólann til að bæta húsakynni sín og ætlar sér ekki einasta að byggja hann upp hið ytra, heldur og hið innra. Hann vill berjast fyrir nýju skipulagi, nýju formi, nýju viðhorfi, nýjum stefnum. Framsfl. getur sagt svipað um kirkjuna. Hann viðurkennir trúfrelsi í landinu og telur trúmálin svo viðkvæm, að varast beri að brjóta í bág við skoðanir manna á því sviði. Hann vill styðja að því, að innan kirkjunnar megi eflast víðsýni, svo að þar verði hátt til lofts og vitt til veggja. Að því vill hann starfa.

Ég mun nú ekki taka oftar til máls í kvöld. Vil ég óska hv. hlustendum gleðilegra jóla og biðja þeim árs og friðar.