20.12.1937
Neðri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (2257)

137. mál, Háskóli Íslands

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég skal ekki verða margorður, enda er tíminn stuttur. Hv. síðasti ræðumaður tvísté mjög í þessu máli. Hann minntist á hljóðfæri, sem honum var kært að leika á áður, rússneska balalaika. Hv. þm. fór alveg í kringum kjarna málsins. Hann var að hrósa Sigurði Einarssyni fyrir, að hann hefði boðið fram kosti þess að ganga undir nýtt próf. En hæstv. forsrh. neitaði að taka slíkt húmbúg til greina. Yfirleitt talaði hv. þm. meira í anda sósíalista og kommúnista í þessu máli en í anda síns eigin flokks. En það er vonandi, að hann geri sér það ljóst framvegis, að hann er ekki í rauðu flokkunum, heldur í Framsfl., sem brosir til hægri.

Hv. 5. þm. Reykv. fagnaði því eðlilega, ef kirkjan yrði að láta í minni pokann. Það er kunnugt, að í hans andlega föðurlandi, Rússlandi, er kirkjan útræk, svo að mig undrar það ekki, að hv. þm. vill hafa Sigurð Einarsson til að kenna prestum landsins, sem ekki eiga að vera neinir prestar, að hans dómi. Auk þess er hann logandi hræddur um, að hin göfuga stjórnarsamvinna bíði skipbrot og kommúnistar komist ekki á jötuna. Þá er ekki verið að tala til þeirra fátæku, þegar kommúnistar vilja sitja við þann eldinn, sem bezt brennur. Hv. þm. hefir sýnt það, að hann sækist eftir háum launum og dýrum lifnaði. Svangur maður hlýtur að hugsa til matar.

Ég hefði þurft lengri tíma til að tala við hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. gleymir því. að áður hefir verið stofnað til samkeppnisprófs í háskólanum, í lagadeildinni, en þá neitaði hæstv. ráðh. að láta það fara fram vegna manns, sem vildi ekki taka þátt í því. Það eru litil rök hjá hæstv. ráðh. að bera fram slík aukaatriði, að hann hafi verið með ýmsu háskólanum til góðs. Það var honum sem ráðh. skylt að gera. Hæstv. ráðh. talaði ósæmilega um háskólann, rétt eins og hann væri einhver glæframannastofnun. ríkisstj. hefir þó sannarlega komið sínum mönnum þar að, og mætti fyrr vera, ef háskólinn þyrfti að vera skipaður eingöngu mönnum hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðh. ætti að vita það að próf Árna Pálssonar var með fullum rétti tekið gilt, þó að Árni hefði ekki að fullu lokið sinni ritgerð. Ritgerð hins keppandans var svo gölluð, að það vó á móti. Hefði ritgerð Árna verið gefin út, hefði hann sjálfsagt líka getað hlotið doktorsnafnbót.

Ég ætla, að hæstv. ráðh. viti það, að þessir menn, sem komið hafa að háskólanum, eru vinsælir og dáðir af öllum nemendum sínum. Það, sem varð þess valdandi, að Bjarni varð hlutskarpari í keppninni um prófessorsembættið, var það, að hann hafði lagt fyrir sig þá sérgrein, sem Þórður hafði ekki gert, en það var stjórnlagafræðin. Báðir þessir menn, Þórður Eyjólfsson og Bjarni Benediktsson, eru hinir mætustu menn og báðir færir í sinn fagi.

Hæstv. ráðh. hefir ekki tekizt það, og ég geri ekki ráð fyrir, að hann sé þess megnugur, að geta talið mönnum trú um, að Nygren hafi verið sá óhlutdrægi. Það mun nú sannast í þessu, að ef gruna má einn, þá má eins gruna annan. En ég verð að segja það, að það er miklu meiri ástæða til að vantreysta þessum eina manni heldur en dómnefndinni. Þetta var út úr vandræðum gert hjá hæstv. ráðh. En þegar hæstv. ráðh. er að tala um, að níðzt hafi verið á Sigurði Einarssyni, þá ætti hann að vara sig á því að níðast ekki sjálfur á öðrum mönnum.

Hv. 5. þm. Reykv. má ekki heyra, að hér sé minnzt á Sigurð Einarsson. Hér er talað um alla menn, sem koma við þetta mál. Hvers vegna er þessi hv. þm. að tala um aðra menn, sem hér eru inni? Tími minn er nú á þrotum og ég mun ekki geta tekið aftur til máls. En ég vil að síðustu segja það, að hæstv. kennslumálaráðh. hefir ekki tekizt að verja þetta mál, hvorki í umr. né annarsstaðar, svo að hann geti nokkurntíma borið sitt bar eftir það. Honum hefir tekizt að vinna í þessu falli ógæfuverk, ekki aðeins að dómi þeirra, sem næst standa í þessu máli, heldur að dómi alþjóðar. Ég býð svo hlustendum gleðileg jól og farsælt nýtt ár. Góðar nætur.