20.12.1937
Neðri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (2259)

137. mál, Háskóli Íslands

*Stefán Stefánsson:

Herra forseti! Ég hefi aðeins örfáar mínútur til umráða, og get ég því litið sagt af því, sem ég vildi annars sagt hafa. Frá því að hæstv. atvmrh. skipaði Sigurð Einarsson dósent hefir vart um annað meir verið rætt hér í höfuðstaðnum en þetta mál, og úti um byggðir landsins hefir það vakið mikla athygli. Jafnframt skipun Sigurðar Einarssonar í embættið gaf ráðh. út mikla bók, sem átti að vera einskonar varnarskjal, en var þó fyrst og fremst árásarrit á dómnefndina. Ég vil taka það fram, að samkv. reglugerð háskólans hefir ráðh. veitingarvaldið, en ég verð að telja, að hæstv. ráðh. hefði verið skylt, ef hann vildi sjá sóma sínum borgið, að fara eftir till. dómnefndarinnar um skipun í embættið. Dómnefndin var skipuð 5 mönnum, og gaf hún út samhljóða dóm. Ef þessi háttur yrði upp tekinn í framtíðinni, að virða álit dómnefndar að vettugi, þá mundu samkeppnisprófin að sjálfsögðu leggjast niður. Það mundi enginn vilja leggja mikið starf í slíkt og eiga svo e. t. v. vist, að ekkert tillit yrði tekið til þess. En það verður að sjálfsögðu að ganga svo í framtíðinni, að dómur nefndarinnar verði úrskurður í þessum málum. Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um það, að prófessor Mosbech hefði ekki látið þýða nema hluta af fyrirlestri Sigurðar Einarssonar, þá er það að segja, að þegar prófessorinn hafði heyrt hluta af fyrirlestrinum, var honum það ljóst, að Sigurður ræddi allt annað í honum en honum hafði verið falið, og taldi hann því óþarft að fara frekar út í að þýða hann.

Ég mun svo ekki ræða þetta meira frá sjónarmiði háskólans, en taka til athugunar viðhorf þjóðarinnar í heild til þessa máls. Fólk á fullkominn rétt á því, að ekki sé veitt dósentsembætti í guðfræði þeim manni, sem hefir unnið gegn kirkju og trú. Sigurður Einarsson hefir m. a. skrifað rit, sem heitir Fornar dyggðir. Hver, sem les þetta rit, hlýtur að sjá, að það er fullkomin dirfska af slíkum manni að láta sér detta í hug að sækja um að verða kennari í guðfræði við háskólann. En það er þó ennþá meiri dirfska af hæstv. ráðh. að veita honum þetta embætti. Ég vil svo að endingu lofa mönnum að heyra álit sr. Benjamíns Kristjánssonar, sem var einn af umsækjendunum um dósentembættið, á þessum manni. Mér hefir í dag borizt rit, sem hann hefir skrifað um þetta mál, en í því segir hann m. a. „Hún (þ. e. kirkjan) ber fullt traust til þess manns, sem settur var samkvæmt úrskurði dómnefndar til að gegna þessu embætti. Hann er kunnur að því að vera vandaður maður og hafa einlægan áhuga fyrir framgangi kristinna hugsjóna með þjóðinni. En til S. E. Her hún ekkert traust, af því að hann hefir í fyrsta lagi, eftir stutta viðdvöl, gengið úr þjónustu kirkjunnar til annara starfa, er hann fékk betur borguð. Í öðru lagi hefir hann síðan gert sér far um að hæða og ófrægja kristindóminn og í hvívetna reynzt draga taum þeirra, sem ástundað hafa að svívirða hann“. Þessi ummæli eru ummæli alþjóðar. Og þjóðin á fullkominn rétt á að líta þannig á þetta eftir skrifum Sigurðar Einarssonar.