14.12.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2279)

138. mál, jarðhitarannsókn

*Jörundur Brynjólfsson:

Það er máske virðingarvert af þessum tveim hv. þm. í landbn. Nd., að þeir hafa þó sýnt máli því, er vísað var til n. á öndverðu þingi, þá rækt að beina því á þennan veg. Virðast hv. þm. hafa komið auga á þýðingu málsins, og fyrir það er ég þeim þakklátur, og með nokkrum endurbótum á þáltill. tel ég, að gera megi gott úr henni. Hinsvegar vil ég eindregið taka undir ummæli hv. 2. þm. Árn. um, að æskilegra hefði verið að gera eindregnari gangskör að afgreiðslu málsins á þessu þingi, þar eð ég sé, að hv. flm. þáltill. hafa komið auga á þýðingu þess, og aðrir hv. þm., sem hér hafa talað, virðast vera sömu skoðunar. En því þýðingarmeira sem málið er og því mikilsverðari sem þessar orkulindir eru fyrir landið, því meiri nauðsyn er á að gera ráðstafanir, er tryggi, að þær geti komið að notum. Enn eru engin ákvæði til í löggjöfinni, sem tryggi meðferð jarðhitans og það, að honum verði ekki spillt, ákvæði, er tryggi þeim mönnum yfirráð jarðhitans, sem hafa hans mesta þörf.

Þessi þáltill. gerir aðeins ráð fyrir rannsókn á þessum orkulindum, en lætur liggja milli hluta, hvernig fari um eignarráð yfir þessum svæðum. En það varðar þó ekki litlu, hvern rétt ríkisvaldið hefir til að nota þær í þágu almennings. Ég hefði því vænzt þess, að þetta mál skyldi undirbúið fyrir næsta Alþingi af hæstv. stj. Því fer fjarri, að ég telji frv. okkar þingmanna Árn. ógallað, eða að þar gæti ekki sumt betur farið. En það stefnir áreiðanlega í rétta átt, og það hefir inni að halda veigamestu ákvæðin um þessi efni, sem vantar í okkar löggjöf. Það er vitanlegt, að heitum jarðsvæðum hefir oft verið spillt, og margar af orkulindunum eru komnar í brask. Nú þegar eru einstakir menn farnir að seilast eftir þessum orkusvæðum, ekki til þess að þjóna almenningi, heldur til þess að hafa upp úr þeim peninga. Er ekki séð fyrir endann á því, hvern ófarnað það mun af sér leiða, ef ekkert er gert til að tryggja notkun þessara verðmæta.

Hv. þm. Mýr. lét þess getið, að þeim, sem um frv. fjölluðu, hafi ekki líkað formið, og hefi ég ekkert út á það að setja. En þó að hann sæi agnúa á því, hefði ég talið, að hann myndi ekki gera sig ánægðan með að hafast ekkert að. Og ég hefði vænzt þess, að hv. þm. væri ekki frekar ánægður með formið á þessari þáltill. Annars er við samningu frv. stuðzt við álít sérfræðinga og frv., sem hér hefir legið fyrir áður. þó að stefna frv. okkar sé raunar nokkuð önnur en var í upphafi, þegar málið var fyrst flutt hér á Alþingi. Ég vona þó, að það sé ekki það formsatriði, sem hv. þm. Mýr. finnst áfátt, að ekki standa jafnopnar dyr og áður þeim mönnum, sem hafa nóg fjármagn, til að fara með þessar orkulindir þjóðarinnar eftir geðþótta sínum. Í hinu fyrra frv. var ekkert, sem komið gat í veg fyrir slíkt.

Hv. 1. flm. þáltill. tók aftur till. sína um að vísa málinu til fjvn., en ég leyfi mér að taka upp till. hans, í trausti þess, að n. sinni málinu. Vil ég jafnframt beina þeirri áskorun til hv. samþingismanns míns. formanns n., að hann endurbæti þáltill. og bæti þar við áskorun til ríkisstj. um, að hún undirbúi málið fyrir næsta þing.

Þarf ég svo ekki að fara um þetta fleiri orðum, en vildi aðeins undirstrika þýðingu málsins og þess, að jarðhitasvæðum á landinu sé ekki spillt. Vildi ég láta gera þáltill. þessa betur úr garði, og eins tel ég brýna nauðsyn á rækilegum undirbúningi málsins undir næsta þing. Rannsókn sú, sem farið er fram á í þáltill., hefir mikið að segja, en er ekki nægileg. Þá finnst mér líka mega bæta inn í till., þó að það hafi minna að segja, heimild handa ríkisvaldinu til að aðstoða menn, sem vilja láta rannsaka jarðhita í landareign sinni.

Vona ég svo, að þáltill. þessi taki þeim endurbótum, sem henni eru nauðsynlegar, og getur hún þá haft sitt mikla gildi.