14.12.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (2280)

138. mál, jarðhitarannsókn

*Magnús Jónsson:

Það er enginn vafi á því, að mál það, sem þáltill. þessi fjallar um, er mjög mikilsvert. Það, að hagnýta jarðhitann til að hita upp híbýli manna á landinu, er geysiþýðingarmikið mál. Þess vegna tel ég hættulegt að káfa í það á þann hátt, sem gert er með þessari þáltill. Ég get að því leyti tekið undir sérstaklega niðurlagið á ræðu hv. 2. þm. Árn. Þegar nota á jarðhita, þá eru það auðvitað kaupstaðir og kauptún, sem fyrst koma til greina, sakir þess hve margir búa þar saman í hverfum, og það hefir m. a. komið mjög skýrt í ljós við þær rannsóknir, sem hafa farið fram á þessu máli hér í Reykjavík, hvað það er feikilega mikið fjárhagsatriði að geta notað jarðhitann til þess að hlýja híbýli manna. Nú vill svo einkennilega til, að þrátt fyrir allan þann mikla jarðhita, sem finnst víðsvegar um landið, mun ekki vera til, að því er mér hefir talizt til, jarðhiti í nánd við neinn kaupstað eða kauptún á landinu; með þeirri undantekningu, að Reykjavík hefir Laugarnar hér í nánd við bæinn, held ég, að það sé afarlitið um, að heitar uppsprettur séu í nánd við bæi. Þetta er óheppilegt. Það er því augljóst, að ef jarðhitinn á að koma að gagni á þessum stöðum, þar sem langmestar líkur eru til, að hann hafi stórkostlega fjárhagslega þýðingu, þá verður að kosta mjög miklu til við veitingu á hitanum með borunum, og fyrst og fremst verður að fara að ráðast í að leita að jarðhitanum. Öðruvísi get ég ekki skilið þáltill. Ég býst við, að hv. flm. hafi gert ráð fyrir því, að hér væri ekki um neitt smávægilegt kostnaðaratriði að ræða. Hér er um geysilega stóra og dýra framkvæmd að ræða, því að ef veita á jarðhitanum á staði, sem hann er ekki sérstaklega nálægt, þá má búast við, að jafnvel þótt notuð væri öll reynsla af jarðsprungum og öðru slíku, þá verði oft og einatt að leita töluvert lengi áður en hitt er á þann rétta stað, og hvað þetta kostar, má sjá á borunum þeim, sem framkvæmdar hafa verið hér í nánd við Reykjavík, sem munu nú hafa kostað nokkuð hátt á annað hundrað þúsund kr., og var þar þó aðeins aukið það vatn, sem fyrir var. Ég býst við, að viða annarsstaðar yrði að fara þannig að, þar sem laugar og heitar uppsprettur sýna jarðsprungur, að það yrði að geta sér til um framhald þeirra og bora niður í sprungurnar og reyna þannig að finna heitt vatn. Mér dettur í hug, að á þeim stað, þar sem ég er uppalinn, í Skagafirði, mætti hugsa sér sprungu, sem veitir heitum laugum nálægt Skíðastöðum og Reykhólum, og sú sprunga gæti haldið áfram lengra norður eftir firðinum og ef til vili er, eins og ég hefi heyrt, eitthvað af volgrum talsvert norðar, þá mætti fylgja þeim og ná heitu vatni fyrir Sauðárkrók. Menn verða að gera sér ljóst, að hér er um að ræða mikinn kostnað, en það er ekki horfandi í hann út af fyrir sig, því að heita vatnið sýnir sig að vera svo geysilega mikils virði, ef það á annað borð fyrirfinnst, þar sem þéttbýli er nálægt og mikil hitaþörf. En það, sem gerði það að verkum, að ég stóð upp, voru þau ummæli hv. 1. þm. Árn., að þessi þáltill. væri þó alltaf bót. Ég held, að hún geti verið til stórrar bölvunar. Hann lýsti því sjálfur í ræðu sinni, að nú þegar væri hafið kapphlaup milli manna um að ná hitasvæðunum á sitt vald, og þetta er skiljanlegt, þegar það er athugað, hvert fjárhagsatriði er í sambandi við þessar heitu uppsprettur. En hvaða vit er í því að byrja á því að leita uppi slíkar heitar uppsprettur og láta þær koma upp úr jörðinni rétt þar sem verkast vill og þar sem engin trygging er fyrir því, að þær hafi ekki verið lengi á valdi slíkra manna. Áður en farið er að leita að slíkum verðmætum, þarf einmitt að tryggja það með löggjöf, að það vatn, sem þannig er leitað að með ærnum kostnaði, verði þeim að gagni, sem í kostnaðinn leggja. Það getur verið ágreiningur um, hvernig eigi að búa um þessa löggjöf, en hitt er fásinna, að ætla sér að leita að slíkum verðmætum á löndum hinna og þessara manna áður en löggjöf er komin um þetta atriði. Ég vil meira að segja halda því fram, að það þurfi að setja löggjöf, sem tryggir það, að hægt sé að byrja á slíkum borunum, því að þegar menn yrðu varir við, að þeir sérfræðingar, sem hér er um að ræða, væru farnir að setja upp sín verkfæri og hefðu augastað á stöðum, sem líklegir væru til þess að hafa slík verðmæti, þá mætti búast við, að þetta verk fengist ekki framkvæmt með aðgengilegum kjörum, nema því aðeins, að tryggt væri með löggjöf, að rannsókn gæti farið fram án nokkurra ókjara. Ég er sammála hv. 1. þm. Árn. um, að þessi till. kemur ekki rétt fram sem svar við því frv., sem lá fyrir um þetta efni, án þess að ég ætli að segja nokkuð um það frv. út af fyrir sig, heldur er það fyrst og fremst löggjöf um þetta atriði, sem þarf að koma til. Till., eins og hún er, er allt of kákkennd um jafnmikilvægt mál. Eg vil segja, að sú reynsla sé mjög mikils virði, sem fengizt hefir við boranirnar hér í nánd við Reykjavík, bæði að því er snertir verkfæri og vinnuaðferðir, og þess vegna er fenginn miklu meiri grundvöllur undir þessa rannsókn núna heldur en var áður en þessar boranir hófust.