14.12.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2281)

138. mál, jarðhitarannsókn

*Jörundur Brynjólfsson:

Það eru örfá orð. Ég finn, að óskir okkar hv. 1. þm. Reykv. falla hér saman viðvíkjandi þessu máli, eftir því sem hann hefir nú talað. Ég þarf ekki að fjölyrða mikið um ræðu hans, en eitt vil ég þó segja, og ég hygg, að það hafi skotizt framhjá honum, en það lagði ég mjög ríka áherzlu á í minni fyrri ræðu, en það var það, að undirbúningnum undir lagasetninguna yrði að vera lokið fyrir næsta þing. Mér er það fullljóst, að rannsókn ein út af fyrir sig, sem leiða kynni í ljós mikil verðmæti, sem menn hafa ekki komið auga á áður, gæti vissulega leitt til þess, að þau hækkuðu mikið í verði og yrðu einmitt fyrir þessar aðgerðir miklu dýrari fyrir þá, sem seinna vilja nota þau. En ég ætla, að svo skjótlega verði ekki hafizt handa í þessu efni, að fyrir næsta þing hafi rannsókn farið fram í þessum efnum, og þess vegna saki ekki, þó að þetta ákvæði standi í till., svo framarlega sem málið er að öðru leyti undirbúið og löggjöf verður sett á næsta þingi, sem tryggir meðferð og eignaryfirráð þessara orkulinda. Ég get skotið því hér inn í, af því að mér láðist að geta um það áðan í sambandi við það, sem ég var að tala um, að menn kaupi jarðir með jarðhita, selji þær svo aftur, en halda hitalindunum og nokkru landi í kring eftir, og auk þess eru menn farnir að seilast eftir stærri orkulindum og nokkru landi í kring, til þess að ná eignarhaldi á þessum hlunnindum. Svo að málið er vissulega aðkallandi, en af aðferðinni einni, efni þáltill., ef farið er eftir henni, leiðir lítið gagn. En þessari aðferð getur fylgt sá ókostur fyrir þá, sem nota þessi verðmæti mest, að þeim verði þetta óbærilega dýrt, og það alveg að óþörfu, og þetta á að fyrirbyggja. Ég vil vona, að af þessari þál. hljóti, eins og ég sagði áðan, einmitt að leiða það gott, að málið verði rækilega undirbúið undir næsta þing, og þá verði sett heildarlöggjöf um þetta efni. En það skal ég taka undir með hv. l. þm. Reykv., að næsta þingi má ekki slíta svo, að ekki verði sett löggjöf um þetta.