25.11.1937
Efri deild: 35. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

45. mál, afkynjanir, vananir o. fl.

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið frá Nd. og hefir gengið í gegnum þá d. án breytinga. Það er samið af landlækni og fjallar um, eins og fyrirsögnin segir, að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt. Frv. er svipaðs eðlis og annað frv., sem varð að l. fyrir nokkrum árum síðan.

Allshn. Ed. hefir athugað frv. og komizt að þeirri niðurstöðu að leggja með því, að það verði samþ. Þó hefir n. komið með eina lítilfjörlega brtt. við frv., sem er þess efnis að lagfæra orðalag frv. N. hefir borið þessa brtt. undir höfund frv., landlækni, og telur hann, að það skipti ekki máli, þó brtt. verði samþ., en hann hefir hinsvegar ekki lýst því yfir, að hann teldi hana til bóta.

N. þótti fyrirsögn frv. nokkuð löng og ekki sem viðfelldnust, og velti hún fyrir sér breyt. á henni og gerði tilraunir til þess að breyta henni. En niðurstaðan varð þó sú, að n. sá sér það ekki fært til að ná því, sem í frv. felst. N. bar þetta undir höfund frv., og kannaðist hann við, að hann hefði haft töluverðar áhyggjur út af því, að honum hafi ekki þótt fyrirsögnin að öllu leyti gallalaus, en hann hafi ekki fundið betri leið til þess að það kæmi skýrt fram í fyrirsögninni, hvað felst í frv. Hann taldi, að það yrði að leggja áherzlu á, að það orkaði ekki tvímælis, að fyrirsögnin væri í samræmi við frv.

Ég vil að svo mæltu leggja til fyrir hönd n., að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem er á þskj. 170.