21.12.1937
Sameinað þing: 18. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2295)

130. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag á atvinnurekstri

Bergur Jónsson:

Ég sé ekkert á móti því, að skipuð sé ólaunuð n. til þess að athuga þetta mál, ekki sízt ef hún ætlaði að vinna á þeim grundvelli, sem iðjuhöldurinn og auðmaðurinn Ford hefir lagt í Ameríku. En ég vil bara benda á það aftur, að það er einkennilegt, þegar búið er að upplýsa, og því hefir ekki verið mótmælt, að útgerð landsmanna sé sérstaklega illa stödd og ekki sé hægt að reka togaraútgerð nema með 110 þús. kr. tapi á hvern togara, þá er það einkennilegt og það hlýtur að verða einkennilegt í augum sjómanna að vísa þeim á arðskipti og hlutdeild í gróða, þar sem er 110 þús. kr. tap. Hvað fá þessir menn? Hvað fá sjómenn í aðra hönd? Ég efast ekki um, að hv. flm. þessarar till. meina það í fullri alvöru, að það sé rétt að láta menn bera, eins og við framsóknarmenn höldum fram, bæði ábyrgð og hagnað, þannig að þeir tapi, ef um tap er að ræða, en græði, ef um gróða er að ræða. En að byrja á að vísa á þetta skipulag, sem vitanlegt er samkv. skýrslum flokksblaða hv. flm., að útgerðin er rekin með tapi, það er að vísa á tómt tap, m. ö. o. að sjómenn mundu fá minna en ekki neitt. Hlutdeild í tapi er ekki mikils virði. A. m. k. er áreiðanlegt, að hv. þm. Snæf. mun játa það, og það er það, sem þessi till. gengur út á, að sé athugað. Ég er ekkert á móti, að þeir, sem þingið kann að skipa til að athuga þetta án þess að baka ríkissjóði kostnað, þeir geri það. En ég held, að á þessum tíma væri réttara fyrir þá n., sem kann að verða skipuð í þessu skyni, að snúa sér að einhverjum þeim atvinnuvegi, þar sem um arð væri að ræða, en ekki þann atvinnuveg, sem gefur tómt tap, því að þar væri ekki um arðskiptingu að ræða eða hlutdeild í arði uf hálfu þeirra, sem vinna þar.