21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (2318)

134. mál, sjúkrahúsrúm fyrir geðveika menn

*Jónas Jónsson:

Ég vildi taka í sama strenginn og síðasti ræðumaður, að það er ekki auðvelt að vera á móti þessari till. Hitt er annað mál, hvað fljótt gengur að bæta úr því, sem hún stefnir að.

Það er mála sannast, að þegar búið var að byggja Nýja-Klepp eins og hann er, vantaði við hann álmu, sem var gert ráð fyrir frá byrjun, sem er ómissandi fyrir hann handa þeim sjúklingum, sem þar eru. Þessi álma átti að vera fyrir þá órólegu. Á Nýja-Kleppi er ástandið þannig, að menn verða þar að vera undir þeim kringumstæðum, sem ekki er hægt að bjóða öðrum en þeim, sem eru lítið veikir. Ég tek þetta fram til þess að undirstrika, hvaða erfiðleikar hvíla á landinu í þessum efnum, og ég vil bæta því við, að það er nærri því eins hörmulegt með fávitana og geðveika fólkið, að þeir hafa samskonar áhrif á sín heimili.

Mér datt í hug í sambandi við það frv., sem hv. 2. landsk. flytur viðvíkjandi vangæfum börnum, þó að það kæmi að vísu ekki fram neitt álit á því máli, hvorki frá mér eða öðrum samnm. mínum, að það er ein jörð, sem landið þarf að kaupa, þ. e. Ólafsdalur. Ég kasta þessu fram hér, ekki sízt vegna þess, að það var hv. 6. landsk. þm., sem minntist á þetta. Þessi jörð fæst fyrir 20000 kr. Og það má sennilega hafa um 40 fábjána í þeim húsum, sem þar eru fyrir. Það væri því mjög heppilegt, að ríkið keypti þessa jörð eða tæki hana á leigu fyrir fávitahæli. Og ég ætla að segja það, að í raun og veru eru skólahúsin í Ólafsdal engu verri eða ófullkomnari en Gamli-Kleppur. En á Gamla-Kleppi eru nú 70 sjúklingar í húsum, sem ekki eru miðuð við svo marga. Og það er ómögulegt að segja, nema þjóðin neyðist til þess á næstu árum að nota slíkar stórbyggingar og hér um ræðir, sem nú standa auðar, fyrir eitthvað af þessum vesalingum.

Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í að ræða þetta mál. Ég mun greiða atkv. með þessari þáltill., af því að hún er réttmæt og flutt af skilningi. Og ég vil undirstrika þá almennu neyð, sem vofir yfir í þessum efnum, þannig að hv. þdm. hafi í huga, hvað hægt er að gera fyrir þetta mál næstu ár.