21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2321)

134. mál, sjúkrahúsrúm fyrir geðveika menn

Páll Zóphóníasson:

Vegna þess misskilnings, sem orðið hefir út af orðum mínum, verð ég víst að gera nánari grein fyrir þeim.

Eftir þessari till., sem hér liggur fyrir, er skorað á stj. að athuga fyrir næsta þing möguleika til þess að bæta úr hinum tilfinnanlega skorti á sjúkrahúsrúmi fyrir geðveika menn. Nú spyr ég: Hvað er þessi skortur stór? Hvað mikið viðbótarhúsrúm vantar? Ég veit ekki til að það hafi verið athugað. Stj. á að bæta úr húsnæðisskorti, sem enn er óvíst, hvað er mikill. Ég álít því, að það verði heppilegast að vísa þessu máli til stj. og hún geti bezt athugað, hvernig þetta mál verði leyst á hagkvæmastan hátt.