21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (2333)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál, en aðeins að ræða það á þeim grundvelli, sem nú hefir verið að nokkru leyti komið inn á, vegna þeirra ummæla, sem féllu hjá hv. 1. þm. Reykv., sem ég ef til vill hefi gefið að nokkru leyti tilefni til. En ef ætti að svara því öllu, tæki það of langan tíma. En ég hefði haft ánægju af að ræða við hv. þm. Vestm. um þessi mál, þótt þess verði eigi kostur að fara mikið inn á þau nú. Mér finnst hv. þm. satt að segja óþarflega hörundssár fyrir þessi orð, sem féllu hjá mér, og tala fulllengi um það, að ég hefði rætt mikið um spillinguna í kaupstöðum, sem hefði svo sín áhrif á sveitirnar. Ég orðaði það ekki þannig, heldur að þau straumhvörf, sem orðið hefðu í kaupstöðunum vegna stórútgerðar, hefðu haft sín áhrif í sveitunum, sem ekki er heldur hægt að neita. Þau áhrif hafa einmitt orðið á þann veg, að þau hafa gert sveitunum stórkostlega mikið tjón. Um fátækraframfærið og hvað stórútgerðin hefir dregið marga til sín, og getur síðan ekki veitt þeim atvinnu, og hitt, að helzt megi enginn fara í skóla, vegna þess að þá langi hann til að flytja í kaupstaðinn, fer ég náttúrlega ekki að ræða. Við hv. þm. Vestm. getum sjálfsagt ekki orðið sammála um þetta. En það, sem er aðalatriði í þessu máli fyrir mér, er sá hlutur, sem ég býst við, að hv. þm. Vestm. sé ekki mikið inni í, vegna þess að hann er ekki kunnugur í sveitunum, að sínu leyti eins og ég þekki tiltölulega minna til við sjóinn en hann. Hv. þm. álítur m. a., að það sé svo ákaflega mikill fengur fyrir Rangárvallasýslu og aðrar sýslur, sem hafa átt menn í vinnu í Vestmannaeyjum, þaðan hafi þeir farið heim með gott kaup. En ég álít þetta hreinan misskilning, og ég er viss um, að það er hreinn misskilningur. Og ég get fært þær ástæður fram, að reynslan er búin að sýna það, að einmitt í þeim sveitum, sem liggja að kaupst. eða á einhvern hátt sækja vinnu til þeirra, ber búskapurinn sig verst, og mætti t. d. nefna sveitir, þar sem það er mjög áberandi, og eru það sveitirnar, sem liggja næst Siglufirði og Akureyri. En þeim, sem búa að sínu og vinna — ekkert utan heimilis, vegnar æfinlega bezt. Og ég man vel ummæli eins bónda, sem var einn af beztu og ríkustu bændum í Skagafirði. Hann var spurður að, hvernig hann hefði fengið sinn gróða, og sagðist hann aldrei hafa unnið handtak utan heimilis, allt gert viðvíkjandi ræktun og skepnum, sem hægt var að gera, og á því hefði hann grætt allt sitt fé. Það mun mega fara um sveitir landsins og rekja þessa sömu sögu, því að hún er alstaðar til staðar. Búskapurinn er þannig, að jörðin er nízk — það er hún —, en hún gefur hverjum það, sem hann þarf að nota, en ekki nema vel sé um hana hugsað. Það er alltaf á hverjum tíma fyrir bóndann einhver vinna, sem ekki má fara forgörðum fyrir það að leita burt og sækja fjármuni annað. Það er þetta, sem hefir hrakið bændur af réttri leið, og það, sem nýbýlin þurfa að kenna þeim aftur, að búa að sínu, sækja ekki vinnu út fyrir heimilin, nota sem mest það, sem heimilin framleiða, selja minna og kaupa minna. Leggja niður þann ósið, sem komizt hefir á hjá bændastéttinni fyrir áhrif af fjármagni kaupstaðanna, að selja mikið og kaupa mikið. Það er ekki hægt í fáum dráttum að benda á allt hér, en um þetta mætti, et athugað væri, finna mörg talandi dæmi, og við vitum um einstaka sveitir, sem aldrei hafa lagt þennan góða sið niður, og þeim hefir vegnað einna bezt. Svo er bæði um sveitir og einstaklinga. Ég þekki marga bændur, sem aldrei hafa lagt niður þetta búskaparlag. og það sýnir sig, að þeir eru yfirleitt, að öðru jöfnu, beztu bændurnir á hverjum stað. Þetta þarf að komast aftur inn í íslenzkan landbúnað. Veltur mikið á, að landbúnaður okkar komist aftur inn á þessar brautir. Þó að oft sé villandi að byggja á einstökum dæmum, get ég bent á ýmsa bændur í mínu kjördæmi, sem alltaf hafa fylgt þessari reglu. Þeir fóru aldrei til Siglufjarðar, til að sækja þessar háu upphæðir, og þeir standa sig nú líka mun betur en hinir.

Ég talaði aldrei um spillingu í kaupstöðunum, eins og hv. þm. Vestm. sagði. Ég hefi síður en svo talið kaupstaðafólk yfirleitt verra en sveitafólk. En stórútgerðin hefir óneitanlega haft þessi áhrif, sem ég nefndi, og við, sem berjumst fyrir sveitirnar, verðum sérstaklega að gera okkur far um að eyða þeim aftur.