22.12.1937
Efri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (2336)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Jóhann Jósefsson:

Hæstv. forsrh. sagði til andsvara því, sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni, að hann teldi mjög vafasamt, að nærsveitirnar hefðu haft gott af því, að menn þaðan leituðu til sjósóknar og aðdrátta, t. d. til Vestmannaeyja, eins og áratugum saman hefir verið síður í Skaftafellssýslum, Rangárvallasýslu og Árnessýslu. Ég lét svo um mælt, að þeir og þeirra búskapur myndi hafa haft gott af því. Það getur vel verið, að hæstv. forsrh. sé þessarar skoðunar. E n ég er viss um, að margir mætir menn í þeim sýslum hafa oft og tíðum kannazt við það, að þeir hafi sótt mikið bjargræði í þennan kaupstað eða í þessa verstöð. Lengi vel var það siður, að sá vinnukraftur, sem var uppi í sýslunum að karlmönnum til, fékk sitt árskaup goldið með því, að þeir áttu vertíð sína í Vestmannaeyjum og unnu svo að öðru leyti heima hjá bændunum. En hér þýðir ekki að deila um þetta, enda væri það tilgangslaust, því það mun líklega vera svo um okkur báða, hæstv. forsrh. og mig, að við værum hvorugur einir saman færir um að leggja þar neinn fullnaðarúrskurð á. En hitt er annað mál, að hvor fyrir sig getur haft sína skoðun á því máli.

Þá talaði hæstv. forsrh, um það, að hann liti þannig á, að hinn bezti sveitabúskapur væri sá, og þeim farnaðist bezt í sveitinni, sem hugsuðu eingöngu um sinn búskap og hvörfluðu engan veginn frá honum, og að því er mér virtist notuðu sjálfir sínar afurðir sér til lífsviðurværis. Það getur vel verið, að þetta sé rétt á sumum stöðum, og ég skal fúslega játa, að ég ber mikla virðingu fyrir sveitabúskap, þar sem hann er í góðu lagi. Ég játa, að sú rótfesta, sem fylgir því búskaparlagi, sem hæstv. forsrh. benti á sem fyrirmynd í þessum efnum, sú rótfesta við feðrajörðina hefir margt til síns ágætis. Mér virðist samt sem áður, að þó hæstv. forsrh. líti þannig á, þá hafi hann sjálfur með ýmsum opinberum afskiptum sínum kannazt við, að þetta sé ekki alstaðar einhlítt, heldur verði bændum að selja afurðir sínar, sem eru umfram það, sem þeir framleiða til heimilisþarfa. Sjálfur hefir hann átt mikinn þátt í því, t. d. með afurðasölul., að beina búskapnum í öfuga átt við það, sem hann sjálfur hefir lýst yfir, að væri sín skoðun, að væri bezta tilhögunin. (Forsrh.: Það þarf að selja við sæmilegu verði það, sem þeir selja). Já, maður gengur út frá því. Mér virðist, ef við lítum á afurðasölulöggjöfina sem heild, þá sé með henni stefnt að því, að bændur selji allt, sem þeir geta án verið af sinni framleiðslu, við sem beztu verði og á sem hentugustum stöðum, og er ég ekki á neinn hátt að lasta það. En hæstv. ráðh. hlýtur að sjá, að það kemur töluvert í bága við þá kenningu, að hver eigi að búa að sínu að öllu leyti og ekki hafa nein skipti eða mök við nágrennið og ekki heldur fjarlæga staði með sínar afurðir.

Hv. 9. landsk. hefi ég ekki miklu að svara. Ég benti á það, sem við köllum stefnumál okkar. Hann sagði til áréttingar sínum fyrri ummælum, að það hafi ávallt verið sín stefna að styðja einstaklingsframtakið. (JBald: Nei, ég orðaði það ekki þannig). Að styðja bjargráð einstaklinganna, en ég hygg, þótt það sé orðað á þann veg, þá hljóti meiningin að vera sú, að styðja framtak einstaklinganna. Öll viðleitni einstaklinga, hvort sem það eru verkamenn eða bændur, til þess að bjarga sjálfum sér, verður fyrst og fremst að byggjast á þeirra eigin dugnaði eða framtaki. En hitt sagði hv. 9. landsk., að væri jafnframt sín stefna, að allt það, sem stórt væri, og eins og hann orðaði það, að þau fyrirtæki, sem líkleg væru að gefa arð, ætti ríkið að reka. (JBald: Þetta er misskilningur). Ég skrifaði þetta þó upp eftir hv. þm. (JBald: Hv. þm. má skrifa hvað sem hann vill). Hann sagði, að hann vildi, að þeim fyrirtækjum, sem gæfu beztan arð, væri stjórnað og þau væru rekin af ríkinu. Mér þykir leiðinlegt, ef ég hefi misskilið hv. þm., en ég gat ekki betur skilið en hann meinti þetta, enda virðist mér það koma heim við þau afskipti, sem hann og hans flokkur hefir haft af ýmsum stórum atvinnugreinum, að hann vilji, að ríkið reki þær. Um síldarverksmiðjur ríkisins tók hann fram, eins og fleiri munu kannast við, að það hafi a. m. k. framan af verið ofurefli einstökum mönnum að ráðast í þær í jafnstórum stíl og ríkið hefði rekið þær. Ef þetta hefir ekki verið meining hv. 9. landsk., að hann vildi, að ríkið ræki það, sem gefur beztan arð, þá skal ég ekki fara lengra út í það. Ég vil aðeins benda á það, sem ég annars ætlaði að gera, að það er dálítið bogið við þá hugsun, að maður ætli þegnunum í landinu, einstaklingunum, að baslast við það, sem gefur litla von um arð, og það, sem getur aldrei orðið mikill arður af, en vilji hinsvegar, að ríkið taki að sér það, sem nokkurn veginn er víst, að gefi góðan arð. En hv. þm. hefir gefið mér til kynna, að þetta væri ekki sín meining, svo ég skal þess vegna ekki fjölyrða meira um þessa skoðun.

En svo ég víki að till., sem hér liggur fyrir, þá vil ég segja það, að mér virðist, að sú hugsun, sem liggur þar til grundvallar, sé eftir atvikum þörf og rétt, en hitt getur ef til vill verið dálítið vafamál, hvort hana beri að í því formi, að rétt sé á þessu stigi málsins að samþ. hana. Ég mun að sjálfsögðu við atkvgr. sýna það, að hverju ég hallast í þessu efni.

En hvað sem um það er að segja, þá tel ég, að það sé hvarvetna í kaupstöðum mjög æskilegt, að hægt sé að stuðla að því, að sem flestir geti haft dálítið jarðnæði og dálitla ræktun. Ég hefi séð þess beztan vottinn í mínu eigin byggðarlagi, hversu stórfelld bót er að því í öllum búskap manna, að þeir eigi þess kost að hafa dálítil ræktuð lönd til umráða. Ég þekki varla dæmi til annara eins breytinga og orðið hafa í þessu efni í Vestmannaeyjum, síðan ég var að alast upp. Þá mátti heita, að mjólk væri ófáanleg. Þurrabúðarlífið var það eina, sem um var að velja. Af því að ég hefi þetta skýrt fyrir augum, hefi ég mikla samúð með þeirri meginhugsun, sem í till. felst.

Hitt er kannske vorkunnarmál, þó að mér og ýmsum öðrum sé dálítið erfiðara að vita, hvort sú aðferð, sem hér er hugsað að viðhafa, sé sú heppilegasta og réttasta.