22.12.1937
Efri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2339)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Magnús Jónsson:

Í minni fyrri ræðu lýsti ég undrun minni yfir þessari till., þar sem mér virtist fyrirsögnin þýða eitt, till. annað og grg. hið þriðja. Nú hefir þetta mál verið allmikið upplýst af hv. fyrri flm. Tilgangurinn er þá sá, að taka eignarnámi landsvæði, sem eru sérstaklega hentug til afnota fyrir ákveðna kaupstaði og kauptún, til þess að þau geti hagnýtt slík svæði fyrir sína eigin borgara, eftir því sem þörf gerist. Þó að ekkert sé um það sagt, hvernig þessi „deportation“ verði framkvæmd, virðist mér hugmyndin að ýmsu leyti nýtileg. Hættu sé ég ekki í því að samþ. a. m. k. þessa þál. Oft hafa jarðir fyrr verið teknar eignarnámi, og er með slíkar heimildir sem annað, að mestu veldur, hver á heldur. Sjálfsagt er aliur varinn góður, þegar gengið verður frá löggjöf um málið. En þau andmæli, sem ég hefi heyrt, að í till. sé gengið að óþörfu framhjá nýbýlastjórn og gildandi lögum um þessi efni, verða að minn áliti ekki því til fyrirstöðu, að stj. sé falið að athuga málið. Og ég sé ekki, að það sé neitt fáheyrt eða óframkvæmanlegt, að ákveðnir kaupstaðir fái heimild til eignarnáms á ákveðnum landsvæðum.

Hv. þm. Vestm. hefir dregið það fram, hve mikilsverð viðurkenning sé fólgin í þessari till., þar sem hún styður að því að skapa fólki sjálfstæða atvinnumöguleika, í stað þess að krefjast styrkja frá því opinbera. — Ég trúi hv. flm., að það sé ekki í fyrsta sinn, sem hann lætur þessa skoðun í ljós. En það er í fyrsta sinn, að hann leggur áherzlu á hana. Og þess væri óskandi, að sá skilningur á málstað okkar sjálfstæðismanna færi vaxandi hjá honum og flokki hans, en að það yrðu ekki einhverjir í þeim herbúðum, sem héldu áfram „agitation“ með kröfum um meiri og meiri opinbera styrki, af því að þeim finnst það ganga vel í fólkið.

Það er hægt að láta sig dreyma glæsta drauma um það, hve mikið má gera með hinar grösugu og blómlegu sveitir austanfjalls. — Ég vil aðeins minna á eitt þeirra atriða, sem geta brugðið skugga yfir þær vonir: Bara að það fari ekki alveg eins með þennan nýja búskap og þann, sem risið hefir hér við Reykjavík. Fyrst ganga öll ósköp á að koma þessu á fót og fá menn til að leggja eigur sínar í það. Svo koma menn með sín mjólkurlög og fara að leggja þetta og skipuleggja í rúst. Ef sérstaða þessara nýræktarsvæða er einskisvirt, ef landnemarnir verða að keppa með slæmri aðstöðu við þúsundir annara bænda, þá getur farið eins og hér við Reykjavík, að þó að runnið hafi þúsundir og jafnvel milljónir í framkvæmdir, sem næstu kynslóðir áttu að njóta, komi allt fyrir ekki, — hinn blómgandi búskapur landnemanna verði drepinn, skipulagður í rúst. — Það er kannske gaman að hafa í dálkum þingtíðindanna, að það hafi verið varað við þessu í byrjun.