30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (2370)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

*Flm. (Jóhann G. Möller):

Till. sú, sem hér liggur fyrir og ég er flm. að, er ekki sérlega mikil fyrirferðar á pappírnum, en engu siður er það álit mitt, að hún snerti einn þýðingarmikinn þátt í stjórnmálalífi voru, sem veitur á ákaflega miklu um, að réttvíslega sé á haldið.

Ég býst nú við, að þeir séu í raun og veru fáir, hv. þm., sem í alvöru vilja bera á móti því, að einmitt í þessu atriði hefir stjórnarvaldinu á síðustu árum verið mjög illa beitt hér á landi. Einmitt sú misbeiting, sem hefir átt sér stað í þessu efni, er einn sorgarþátturinn í sögu íslenzks stjórnmálalífs síðustu árin, en hún ber allmjög menjar þess, hvernig ríkisvaldið hefir æ meir og meir hneigzt inn á það að virða að vettugi skoðanir og rétt andstæðinga eða minni hlutans í þjóðfélaginn. Það er rétt að drepa á það í sambandi við flutning þessarar till., að hyrningarsteinninn undir því, að lýðræðið geti þróazt og þrifizt í landinu, er fyrst og fremst það, að þegnarnir séu jafnir í réttindum sínum, jafnir fyrir lögunum, eins og svo oft hefir heyrzt hér á Alþingi, að allir eigi að vera. En menn mega ekki í þessu efni festa sig um of við þessi orð, að þegnarnir eigi að vera jafnir fyrir lögunum. því að það veltur ekki minnst á því, einmitt nú á tímum, þegar atvinnuleysi er mikið og margir eru um hverja stöðu, sem losnar, að þegnarnir séu ekki siður jafnir gagnvart hver öðrum í leit sinni að atvinnu, og að ríkisvaldið reyni í þeim etnum að þræða þá leið, sem liggur til mests réttlætis og jafnvægis í þjóðfélaginu. Og það er ekki fjarri að álykta, að einmitt í misbeiting veitingarvaldsins í víðasta skilningi — og á ég þar við veitingu hins opinbera fyrir öllum störfum og vinnu hjá því, — sé að leita einnar ástæðu fyrir einni af sterkustu ásökunum á hendur lýðræðisins. Og ég held einmitt, að í þessari misbeitingu megi leita að ýmsu því, sem getur grafið bókstaflega undan rótum lýðræðisins og heilbrigðri þróun þess. því að þegar þegnarnir eru orðnir sér þess meðvitandi, að þeirra réttur og tillögur er einskis metið í þjóðfélaginu, nema þeir séu í einhverjum pólitískum flokki, sem í það sinnið fer með völd, þá er skammt að biða þeirrar lítilsvirðingar á þjóðskipulaginu, sem hefir leitt erlend ríki á hála stigu einræðis eða beinlínis orðið þeim að fótakefli. Yfirleitt er það svo, að stærstu syndir valdhafanna í „demokratiskum“ ríkjum er það, að virða alls ekki till. andstæðinga sinna, eða yfirleitt að traðka á þeirra rétti í þjóðfélaginu. En það verður ekki um það deilt, að valdhafar þeir, sem hafa farið með völdin í þessu landi undanfarin ár, hafa gert sig stórlega seka í þessum efnum. Og það er minnzt á það hér almennt vegna þess, að það er ekki sizt hættulegt að gera þegnana misréttháa í leit sinni að atvinnu hjá ríkinu.

Það er að sjálfsögðu ekki ástæða fyrir mig í sambandi við flutning þessarar till. að fara neitt verulega út í þá almennu misbeitingu, sem hefir átt sér stað í okkar þjóðfélagi í úthlutun vinnu og starfa hjá því opinbera, sem er orðinn álnarlangur listi á hverjum eldhúsdegi. Og eftir því, sem manni virðist, er harla lítið um mótmæli að ræða. En mér þykir hlýða að minnast á þetta vegna þess, að í sambandi við þessa till. til þál. vildi ég leggja áherzlu á það, að það er hin fyllsta ástæða fyrir þjóðina, að einhverjar reglur séu upp teknar, sem geti fest atvinnuveitingar hjá því opinbera — hvort sem um stærri eða minni störf er að ræða — í einhver ákveðin form, þar sem fulls réttlætis sé gætt. Og ég legg áherzlu á þetta vegna þess, að enda þótt þessi till. gangi í þá átt að reyna að firra þegna þjóðfélagsins bitrasta ranglætinu í þessum efnum, þá er henni hvorki ætlað — né heldur getur hún leitt til þess — að hindra algerlega, að misbeiting eigi sér stað um úthlutun vinnu hjá því opinbera, eftir að framkvæmd hennar væri fullnægt. Það má vitanlega að ekki óverulegu leyti engu síður halda áfram misbeitingu atvinnuúthlutunar. En ég vildi óska, að hún gæti orðið bending og áminning til hv. þingheims um það, að misbeiting atvinnuúthlutunar í landinu hjá hinn opinbera er orðin það stórvægileg, að það er hin fyllsta ástæða að taka þegar í tauma og reyna að festa þessa úthlutun í ákveðnar skorður, þar sem hins fyllsta réttlætis sé gætt. Annars má svo vera, ef lengur er haldið áfram á þessari braut, sem undanfarið hefir verið gengið á, að það fari líkt fyrir okkur og sumum ríkjum Suður-Ameríku, sem þykja nú ekki eins mikil menningarríki eins og við þó erum taldir vera, þar sem um alla starfsmenn er skipt hjá því opinbera við hver stjórnarskipti frá þeim hæstu og allt niður í götusópara. Þegar spillingin í þessu efni er komin svona langt og ríkisvaldið er orðið hreint og beint flokksvald og allir starfsmenn hins opinbera, þá er starfsmannalið ríkísins ekkert annað en pólitísk klíka. Er þá skammt að biða þess, að háskalegir hlutir geti átt sér stað í þjóðlífinu, sem leiði til einræðis eða ýmislegs annars, kannske ennþá verra.

Ég vil taka það fram, að þrátt fyrir þessi orð mín um almenna misbeitingu veltingarvaldsins í úthlutun vinnu hjá því opinbera, þá ber ekki að skoða þessa till. mína flutta í neinu ádeiluskyni á núverandi valdhafa eða annan pólitískan flokk í landinu. Ég skal að vísu játa, að í grg. till. og þessum orðum, sem ég segi, er fólgin nokkur ádeila á hendur núv. stj. og flokkum, sem hana styðja. En ég held, að það, sem ég hefi sagt um þetta atriði, sé svo litið á móts við það, sem mætti í raun og veru segja um þessa hluti, að það verði ekki hægt að skoða þetta sem ádeilu í fyllsta skilningi. Enda er það svo, að þessi till. er fram borin fyrst og fremst vegna þess, að ég tel, eins og margir fleiri, að í misbeiting atvinnuúthlutunar hjá því opinbera sé að finna eina stærstu hættu fyrir heilbrigða þróun lýðræðis í þessu landi; og að það sé þess vegna skylda hvers þess, sem vill frumgang og eðlilega þróun þess skipulags, að reyna að firra þjóð sína þessum hættum. Hitt er náttúrlega allt annað mál, hvort einstakir flokkar finni einhverja ádeilu í flutningi og framkomu þessarar till. Það getur þá ekki stafað af öðru en því, að þar bítur sök sekan, og um það er ekki hægt að fást.

Þessi þáltill. fer fram á það, eins og hv. þm. hafa lesið, annarsvegar að einstakar fjölskyldur fái ekki vinnu hjá ríkinu úr hófi fram, þannig að allir meðlimir fjölskyldunnar, maðurinn, konan og svo og svo mörg börn, fái vinnu hjá ríkinu á sama tíma sem aðrar fjölskyldur hafa þess engan kost að fá vinnu hjá því opinbera. Í annan stað fer þessi till. fram á það, að fyrir það sé girt, að þar, sem náin skyldmenni eru í þjónustu ríkisins, séu þau vinnandi í einni og sömu stofnun. Ég hefi bent á það, að atvinnuúthlutunin hjá því opinbera er komin inn á pólitískar brautir. Og það sjá allir, að þegar svo er, verður það enn tilfinnanlegra, að ofan á það misrétti, sem í slíkri pólitískri úthlutun felst, bætist svo það, að tekið er tillit til sifja manna , og einstakar fjölskyldur látnar sitja gegndarlaust fyrir vinnu, á sama tíma sem aðrar fjölskyldur, sem eiga við miklu þrengri kjör að búa, eru æfinlega útilokaðar frá slíkum störfum. Þess vegna er það, að þessarar reglu, sem farið er fram á að farið verði eftir í þessu efni í þáltill., er hin fyllsta þörf. En ég vil þó taka það fram, að enda þótt um enga misbeitingu væri að ræða í okkar þjóðfélagi í þessu efni, hvorki frá almennu pólitísku sjónarmiði eða frá sifjahliðinni, þá er þessi till. engu að síður réttmæt sem varúðarráðstöfun við því, að slíkt geti átt sér stað. Og ég vil benda á, að erlendar þjóðir hafa einmitt sett svipaðar reglur og hér er farið fram á, til þess að girða fyrir það, að pólitísk spilling nái gegnum atvinnuúthlutunina hjá því opinbera að festa rætur í þjóðfélaginu. Það má náttúrlega færa ýmsar ástæður fram fyrir því, að svo hefir farið. Slíkt er ekkert einsdæmi hér, heldur hefir það skeð víðar í lýðræðisríkjum. Þeir, sem mesta sök eiga í þessum efnum, eru valdhafarnir, annaðhvort með því þeir setji beinlínis það skilyrði, að sá, sem atvinnuna fær, verði að játast undir vissan pólitískan flokk og hans skoðanir, eða þá í öðru lagi, að pólitískir forstjórar telja það sína helgustu skyldu að bægja öllum frá vinnu við sína stofnun, sem ekki séu flokksbundnir samherjar þeirra, sem með ríkísvaldið fara á hverjum tíma, en hinsvegar jafnvel leitast við að skapa atvinnu fyrir sín pólitísku skyldmenni eða valdhafanna. Í þriðja lagi má segja, að það sé kannske mannlegt, að forstjórar einstakra ríkisstofnana hafa tekið sín skyldmenni inn í stofnanirnar og látið þau hafa vinnu þar, úr því engar reglur voru til, sem hindruðu það. Það væri auðvelt að færa hér fram ýmsar fleiri ástæður fyrir því, að svo er komið sem komið er, en þess gerist ekki þörf. Það, sem ég hefi talið, vitnar allt um pólitíska siðspillingu, sem þarf að uppræta. Ef það verður ekki gert, getur ýmislegt fleira farið í þann sama farveg hjá okkur og haft í för með sér voveiflegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið. Till. mín er flutt í þeim tilgangi að firra lýðræðið þessari hættu. Nú kunna einhverjir hv. þdm. að hafa þá skoðun, að aldrei verði að fullu komið í veg fyrir misbeitingu ríkisvaldsins á þessu sviði; slík misbeiting hljóti sí og æ að eiga sér stað. Það er ástæðulaust að deila um slíkt, en það hlýtur að liggja opið fyrir, að það er ekkert annað en ranglæti, að ein fjölskylda hafi atvinnu og laun úr hófi fram, þegar önnur fjölskylda hefir ekki neitt. Þess er því að vænta, þó einhverjir hv. þm. væru þessarar skoðunar, þá sjái þeir þó, að hér er um réttlætiskröfu að ræða fyrir þá, sem hart verða úti í því atvinnuleysi, sem er hér nú á tímum. Ég ætla ekki ótilkvaddur að nefna nöfn sem dæmi, en það er auðvelt að nefna einstakar ríkisstofnanir, þar sem hópur skyldmenna situr við bjarta elda atvinnunnar meðan aðrir hafa ekki neitt. Ég skal tilgreina tvö dæmi án þess að nefna nöfn. Annað er ríkisstofnun, þar sem forstjórinn hefir 9 þús. kr. yfir árið, og kona hans, sem vinnur hjá annari ríkisstofnun, hefir 450–500 kr. á mánuði. Þessi hjón eru bæði barnlaus, svo ekki er ástæða til að láta þau hafa þessa miklu atvinnu ómegðar vegna. Hitt dæmið er um forstjóra einnar þýðingarmikillar ríkisstofnunar. Hann hefir 10 þús. kr. á ári. Þessi maður hefir svo komið konu sinni að starfi við sömu stofnun, þar sem hún vinnur 2–3 klst. á dag fyrir 300 kr. á mánuði eða meira, og auk þessa hefir sami maður enn haft aðstöðu til óátalið að koma þarna að börnum sínum og öðrum nánum skyldmennum, og vinna þau öll fyrir ærnu fé. Og þetta gerist á sama tíma, er aðrar fjölskyldur hafa ekkert til að framfleyta lífinu á. Það þarf ekki að nefna fleiri dæmi til þess að sýna, að hér er verið að fremja argasta ranglæti. Þeir flokkar, sem nú hafa valdaaðstöðu á Alþingi, hafa bent á þá leið til að jafna þetta ranglæti, að ákveða hámarkslaun. Ég ætla ekki að fara út í að ræða það atriði, þó sú till. sé fyllilega athyglisverð á breiðum grundvelli, en sú till. er ekki fjarri þeirri skoðun, sem liggur bak við fyrri lið minnar þáltill., að takmarka laun til einnar fjölskyldu. Þess vegna þykist ég vita, að hv. þdm. fallist á þann lið, og líka á seinni liðinn, um að hafa ekki mörg náin skyldmenni starfandi í sömu ríkisstofnun. Það er ekki annað en öryggisráðstöfun, því það er í mesta máta óviðfelldið, að stórar fjölskyldur starfi í einni og sömu stofnun, og það má finna ýms dæmi í þjóðfélaginu, sem þótt hafa grunsamleg í þessu tilfelli. Ég ætla ekki heldur hér að nefna nöfn, en það er ekki langt síðan eitt hneykslismál var hér á döfinni, sem hv. þdm. munu renna grun í, hvað er, og aldrei var rannsakað, vegna þess, eftir því sem almenningsálitið segir, að sá maður, sem við hneykslið var riðinn, var náskyldur forstöðumanni stofnunarinnar. Ég segi þetta ekki til að ásaka neinn, heldur aðeins til að sýna, að fyllsta ástæða er til að fá það öryggi, sem felst í síðara lið till. minnar. Erlendar þjóðir, þar á meðal Englendingar, sem eru öndvegisþjóð þingræðisins, hafa skilið hættuna, sem er í sambandi við rangláta atvinnuskiptingu hins opinbera, og þær hafa gert varúðarráðstafanir hjá sér. Í Englandi gilda mjög svipuð ákvæði og felast í minni þáltill. En úr því svo er, að Bretar hafi, þörf fyrir slík öryggisákvæði, þá má nærri geta, hvort þörfin er ekki sýnu ríkari hér, þar sem sifjabönd og kunningsskapur hafa svo mikið að segja.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég taka það fram, að þó þetta mál sé hér aðeins miðað við ríkið sjálft og stofnanir þess, þá er það mín skoðun, að þessarar reglu sé kannske ekki siður þörf á öðrum stöðum, bæði í bæjarfélögunum og víðar. Ég álít, að víðar sé pottur brotinn í þessum efnum og mikil þörf fyrir þessa reglu, en hér á ríkið að ganga á undan og gefa fordæmi. Ég ætla, að bæjarfélögin komi á eftir, ef ríkið tekur upp regluna, en ef það vili ekkert gera, sé þess síður að vænta, að bæjarfélögin byrji, en það mun fást samkomulag í bæjarfélögunum, ef ríkið gengur á undan. Því verður náttúrlega ekki neitað, að réttlát atvinnuúthlutun hjá ríkinu muni verða ýmsum til baga, miðað við það, sem er, en á það er að líta, að þetta fólk hefir hingað til setið í skjóli ranglætisins og notið þar sinna fríðinda, og sá bagi, sem því yrði gerður, væri ekkert samanborið víð það réttlæti, sem nást mundi með því að taka upp þá reglu, sem felst í þáltill. minni. Þess vegna nær engri átt að skirrast við framkvæmdum fyrir það, þó reglan komi nokkuð við þetta fólk.

Ég skal svo að síðustu endurtaka það, sem ég sagði í byrjun þessa máls, að ég álít ekki neinn sérstakan flokk eiga alla sök á þessu ranglæti. Þeir munu flestir, kannske allir, meira eða minna sekir, þó væntanlega sé það nokkuð misjafnt í þessu sem öðru. En þar sem hugmynd hefir komið fram frá þeim flokkum, sem nú fara með völd, Framsfl. og Alþfl., sem fer í líka átt, vil ég vænta þessari till. framgangs á Alþingi og að hún verði útfærð í veruleikanum, enda er hér ekki um annað en réttlætiskröfu að ræða, að skipa með meira réttlæti a. m. k. einum þætti atvinnuúthlutunar hins opinbera, sem hingað til hefir verið misbeitt, og bægja á þann hátt alvarlegri hættu frá þingræðinu.