30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (2371)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

*Sveinbjörn Högnason:

Ég bjóst við því, þegar þessi þáltill. kom fram, að ég mundi geta fylgt henni að miklu leyti. Ég tel það mikilsverð, að hægt sé að koma í veg fyrir atvinnukúgun, eins og hv. frsm. talaði að mörgu leyti réttilega um. En við að hlýða á ræðu hv. þm. og lesa grg. till. er mér ljóst, að þetta mál er flutt af manni, sem sér flísina í auga bróður síns, en gætir ekki bjálkans í sínu eigin auga. Hann miðar allt sitt mál við eitt svið þjóðfélagsins og virðist ekki sjá hin önnur svið, þar sem ástandið í þessum efnum er verst og þar sem atvinnukúgunin átti upptök sín hér á landi, og þó er því ekki hægt að neita, að sá veldur miklu, sem upphafinu veldur. Ef litið er til baka, þarf ekki að fara í grafgötur um það, hvaða flokkur mest hefir beitt atvinnukúgun hér á landi og á upptökin að henni. En hver, sem nú vill umbæta þetta, verður fyrst að leita upptakanna; hann verður fyrst að draga út bjálkann, áður en hann reynir að hjálpa til við flísina. Ég veit, að hv. þdm. hafa tekið eftir því, að hv. flm. miðaði allt við hið opinbera. En nú vita allir, að það er stefna þessa hv. þm., að hið opinbera hafi sem minnstan atvinnurekstur, og helzt engan, svo ef honum væri alvara í þessu máli, ætti hann að byrja á þeim sviðum atvinnumálanna, þar sem hann vill, að öll atvinna fari fram. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sá flokkur, sem þessi hv. þm. tilheyrir og er einskonar tökubarn flokksins, sem bjó til stöðu handa hv. þm., að sá flokkur hefir beitt hinni mestu atvinnukúgun, þar sem hann hefir til náð. Það er alkunna, að bæjarstjórnarmeirihluti þessa flokks hefir beitt svo freklegri hlutdrægni við atvinnuúthlutun, að andstæðingar meiri hlutans í bæjarstj. hafa ekki fengið að vita um þær ákvarðanir, er meiri hlutinn hefir gert viðkomandi framkvæmdum, er sköpuðu atvinnu. Blöð andstæðinganna fengu ekki að vita um þessar framkvæmdir fyrr en búið var að ráðstafa atvinnunni. Það er svo langt gengið af þessum flokki í atvinnuúthlutun við sjávarútveginn hér í Reykjavík og sigtað svo nákvæmt. að ekki einn einasti háseti fær pláss á mörgum skipunum nema hann lofi því fyrirfram að styðja þennan flokk, eða að það sé áður víst, að hann geri það. Það má vera, að atvinnuúthlutun hins opinbera sé ekki í bezta lagi, en ef á að fara að setja reglur um úthlutun atvinnu aðeins á einu sviði þjóðfélagsins, en ekki á öðrum, þar sem þörfin er þó mest, gæti slíkt bara orðið til að auka á ranglætið. Ég hygg þess vegna, að meðan þetta mál er ekki flutt af meiri gagnrýni en kemur fram í flutningi þessarar þáltill., þá þurfi ekki að búast við miklum umbótum. Fyrsta skilyrðið fyrir hvern þann, sem gerast vill umbótamaður á þessu sviði, er, að hann sé jafnfús til að viðurkenna ranglætið, hvar sem það á sér stað, og sé jafnfús til að reiða refsivöndinn gegn sínum samherjum eins og andstæðingunum, ef þeir eiga það skilið; annars kemur góður vilji ekki að gagni. Ég er reiðubúinn að taka höndum saman við hvern þann mann, sem í fullri alvöru vill útrýma hlutdrægni kunningsskapar og pólitískra flokka í sambandi við atvinnuúthlutun, et það mál er flutt á breiðum grundvelli og ekki sem bitbein fyrir einstaka stjórnmálaflokka. Þess vegna vil ég nú koma fram með þá till. að afgreiða þessa þáltill. með rökst. dagskrá, sem er víðtækari en till. sjálf og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta.

„Þar sem deildin telur þörf á að koma í veg fyrir hverskonar atvinnukúgun í þjóðfélaginu og misrétti um veitingar embætta og starfa við öll atvinnufyrirtæki, er nauðsyn á nánari rannsókn um þessi efni og yfirgripsmeiri, — og í trausti þess, að ríkisstjórnin láti gera þá athugun hið fyrsta, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“