30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (2373)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Þessi þáltill. er ekki fyrr fram komin en vænta mátti, og má segja, að vægilega sé á stað farið, að flytja málið í þál.-formi, en ekki sem lagafrv. En ég hygg, að það sé þó alveg rétt að fara þessa leið, af því að málið er stórmál, og því sé bæði eðlilegt og heppilegt að fara þessa leið. Þetta mál þarf sem önnur umbótamál að eiga sína þroskasögu.

Það er ekki meira um annað skrafað nú á dögum en lýðræðið. En ég efast stórlega um, að þeir flokkar, sem sífellt reyna að skreyta sig með lýðræðisnafni og deila um það, hver sé mestur lýðræðisflokkur, geri sér ljóst, hvað lýðræði er í raun og veru. Lýðræði er það eitt, að allir menn í þjóðfélaginu njóti sama réttar. En er það svo hér hjá okkur? Ef tveir menn sækja um starf hjá því opinbera, halda menn þá, að starfið verði að sjálfsögðu veitt þeim, sem hæfari er? Ég held, að engum detti í hug, að það verði látið ráða, hvor hæfari er. Ef samflokksmaður er fáanlegur í stöðuna, kemur ekki til mála, að öðrum sé veitt staðan, hversu hæfur sem hann kann að vera. Dæmi um slíkt eru svo mörg og svo ný, að ekki þarf að eyða um þau mörgum orðum. Þegar þetta gildir svo að segja alstaðar, þar sem hið opinbera veitir stöður, að enginn getur búizt við áheyrn, nema hann játi sömu skoðanir á pólitík og stjórnarflokkarnir, þá blandast engum hugur um, að það er tvennskonar réttlæti, sem gildir í þjóðfélaginu.

Í höndum þeirra manna, sem nú fara með völdin í landinu, er Ísland ekki lýðréttarríki. Það er ekki langt síðan það gerðist einkennilegur atburður hér á Alþ. út af jafnrétti manna til þess að njóta atvinnu. Í bæjarstjórn Reykjavíkur hafði komið fram till. frá Alþfl. um að setja á stofn skrifstofu til þess að úthluta vinnu og vera einskonar milliliður og hjálparstöð milli þeirra, sem þurfa að fá vinnukraft, og þeirra, sem leita sér að atvinnu. Tillagan var samþ. og skrifstofa sett á stofn, til þess að hafa þetta starf með höndum. En þá kom í ljós, að stjórnarflokkarnir hér á Alþ. töldu sínum hlut ekki nógu vel borgið, ef þarna starfaði skrifstofa, sem vitað var, að átti að veita mönnum atvinnu eingöngu eftir þörfum þeirra og verðleikum. Það hafa engir heyrt færðar að því neinar líkur, hvað þá heldur sannanir, að út af þeirri reglu hafi verið brugðið hjá ráðningarskrifstofu Rvíkur. En þetta féll ekki stjórnarflokkunum hér á Alþ. í geð. Var því með lögum sett á stofn svokölluð vinnumiðlunarskrifstofa við hliðina á þeirri skrifstofu hér í Rvík, sem bæjarstj. kostar. Skrifstofa þessi eyðir miklu fé, en hún getur ekkert gert, sem hin skrifstofan ekki gæti unnið svo að segja kostnaðarlaust. Vinnumiðlunarskrifstofan var sett á stofn eingöngu til þess að hægt væri að misbeita aðstöðunni, sem ríkið öðlaðist með henni, til þess að veita mönnum atvinnu. Nú var hv. flm. þessarar till. svo hófsamur, að hann sagðist ekki beina þessari till. gegn neinum flokki og faldi, að allir flokkar ættu einhverjar sakir í þessu efni, þó misjafnar væru, og vildi, að á þessa till. væri litið sem almennt umbótamál. Þessi kurteisa framkoma hefir ekki fundið náð fyrir augum hv. 1. þm. Rang. Einhver tegund hans klerklega hugsunarháttar hefir gert uppreisn gegn þessu, og uppreisn sú var með nokkru forsi, svo ég sé ástæðu til að fara um framkomu hans nokkrum orðum. Hann sagði, að flm. sæi flísina í auga bróður síns, en ekki bjálkann í sínu eigin auga. Þetta leyfði hv. þm. sér að segja, eftir að flm. hafði sagt, að hann vildi ekki hafa neina sérstaka fyrir sök, en flytti þetta sem almennt umbótamál.

Það er svo, að menn komast oft út af jafnvægi, þegar við kvikuna er komið, og það var sýnilegt, að svo var um þennan hv. þm., því hann bætti því við, sem er nokkuð fágætt, að gert sé hér að fyrra bragði og algerlega að ástæðulausu, að hann fór að brigzla hv. flm. um það, að hann væri ómagi og tökubarn í stöðu þeirri, sem hann skipar. Ég hefi aldrei heyrt neinn segja, að þessi maður (hv. 4. þm. Reykv.) sé ekki hæfur í starfi sínu og vinni þar ekki fullkomið og gott starf. Mér virðist, að hv. 1. þm. Rang. hefði átt að láta þessi orð ósögð; og það var ekki laust við, að mér virtist honum svelgjast á mjólkinni sinni, þegar hann var að stama út þessum brigzlyrðum. Og mikið má vera, ef hv. þm. ekki svelgist á fleiru, sem hann hefir þegið, þegar hann ber fram slíkar ásakanir að fyrra bragði og alveg tilefnislaust á hendur öðrum.

Þessi sami hv. þm. (1. þm. Rang.) sagði, að Sjálfstfl. hefði beitt hinni herfilegustu atvinnukúgun, og nefndi sem dæmi, að enginn maður fengi atvinnu á togara, sem sjálfstæðismenn réðu yfir, nema bann lofaði því að styðja Sjálfstfl. að málum.

Það er vandalaust fyrir þá menn að tala, sem enga ábyrgð ætla að bera á orðum sínum og ekkert hirða um hvort þeir segja satt eða ósatt. Ég hugsa, að þessum hv. þm. sé lítið kunnugt um það, sem hann er að skrafa um. Hann hefir lítið kynnzt þessu máli, en mér er kunnugt um það, bæði af eigin raun og viðtölum við fjölda af skipstjórum á togurum, að þetta er alveg ósatt, enda ruddalegt og óviðeigandi, hvort sem það er sagt á þessum stað eða annarsstaðar. Skipstjórar hafa sagt mér, að þeir spyrðu aldrei menn að því, hvaða pólitíska skoðun þeir hefðu, þegar þeir leituðu skiprúms, og ég er sannfærður um, að þetta er höfuðreglan h,já skipstjórum. (BJ: Af hverju var hv. þm. að spyrja skipstjórana að þessu?). Af því að þessi ásökun er ekki ný. Það getur vel verið, að þessi hv. þm., sem greip fram í, eigi þátt í því, að þörf er á að spyrjast fyrir um þetta. Í flokksblaði hans og fleiri blöðum hafa verið borin slík brigzl á Sjálfstfl., þó enginn hafi tekið munninn eins fullan og hv. 1. þm. Rang., sem sagði, að enginn maður fengi skiprúm á togara nema hann segði sig í flokk með eigendum togaranna. Það er dálítið einkennilegt, að einmitt stjórnarflokkarnir, en þó einkum Alþfl., hafa haldið því fram, að flestir af skipverjum á togaraflotanum séu flokksmenn sínir. Hvernig er nú unnt að samrýma það tvennt, að flestir skipverjarnir séu andstæðingar útgerðarmanna í pólitík, og hitt, sem hv. 1. þm. Rang. fullyrti, að enginn einasti maður fái skiprúm á togurum, nema hann gerist sjálfstæðismaður? Svona mótsagnir koma frá þeim einum, sem ekki hirða um, hvort þeir seg,ja satt eða ósatt. Ég skal ekkert segja um það, hvort fleiri eða færri af skipverjum á togurunum nú í dag eru sjálfstæðismenn eða stjórnarsinnar. Ég hugsa, að meiri hluti þeirra sé sjálfstæðismenn. En ég fullyrði það, að fari þeim mönnum fjölgandi á togaraflotanum, sem fylgja Sjálfstfl., þá er það vegna þess, að þeir hafa athugað framferði flokkanna hvers um sig og komizt að þeirri niðurstöðu, að pólitík sú, sem núverandi stjórnarflokkar reka, muni ekki vera heppileg fyrir þá menn, sem taka atvinnu sína á sjónum. Að þeir, sem ráða á skipin — en það eru aðallega skipstjórarnir — hlýði mönnum yfir og setji þeim pólitísk skilyrði fyrir skiprúminu, eru tilhæfulaus ósannindi. Það má segja, að þessar ásakanir komi úr hörðustu átt, því það er opinbert, að sá flokkur, sem þessi hv. þm. fylgir. hefir gert það fyrstur allra flokka, og vonandi síðastur allra flokka, að skattleggja þá menn til flokkssjóðs, sem fengið hafa stöður fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þessar sakir, en ráðlegg þessum hv. þm. að lægja seglin, því það gæti vel farið svo, að framferði hans yrði til þess, að flett yrði ofan af ýmsu, sem honum og hans flokki sérstaklega við kemur og ekki beri sem loflegastan vitnisburð um það, hvernig jafnréttisins er gætt í þjóðfélaginu undir stjórn núverandi stjórnarflokka.