30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (2375)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

*Sveinbjörn Högnason:

Hv. 1. varaþm. Reykv. vildi kenna mér, hvert væri hlutverk þingmannsins, og fór um það nokkrum orðum, hvernig þm. ættu að haga sér. Hann hefði átt að kynna sér þetta betur áður en hann kom hingað sem varamaður. Það er misskilningur hjá honum, ef hann heldur, að það sé hlutverk hans sem þingmanns að segja, að allt, sem borið er á hans flokk, sé rætni og illkvittni, en svo megi hann hegða sér eins og honum sýnist í því að fleygja allskonar dylgjum á andstæðingana. Því fyrr sem þessi hv. varaþm. gerir sér það ljóst, því fyrr er von til þess, að hann komist eitthvað á leiðina til skilnings á sínu mikilvæga starfi.

Ég tók það skýrt fram. að ég fyrir mitt leyti hefði haldið, að eitthvað nýtilegt væri í þessari þáltill., og hún myndi n;í til þess, sem bæta þyrfti. En ef eitthvað ranglátt er til í þessum efnum í okkar þjóðfélagi — og ég efast ekki um, að það sé til —, þá fullyrði ég, að ef umbæturnar eiga að ná til lítils hluta af því, sem bæta þarf, þá er það aðeins til að auka á ranglætið, í staðinn fyrir að bæta úr því. Ég fullyrði, að ef 2 þm. eru ekki gerðir jafnréttháir í orðasennu, þá er það til þess að bæta á ranglætið milli þeirra, en ekki að bæta úr því — og við skulum taka t. d. þessa 2 menn, sem fundu sárt til sín í þessum efnum, hv. 6. þm. Reykv., sem fannst sér málið skylt, þegar ég talaði um pólitískan tökudreng. og hv. 1. varaþm. Reykv. — ef öðrum væri ekki leyft að haga sér nema eins og þm. sæmdi í umræðum, en hinum leyft að haga sér eins og dóna. Ég segi, að þetta yrði til þess að auka á ranglætið milli þeirra, en ekki til þess að bæta úr því. Þetta er nákvæmlega það sama eins og ef á t. d. að taka út úr eitthvert sérstakt svið þjóðfélagsins, þar sem allir einstaklingar eiga að vera jafnréttháir, en svo sé stærsta stjórnmálaflokknum heimilað að haga sér ein, og dóna á stærsta atvinnusviðinu. Ég tel að það myndi verða til þess að bæta á ranglætið, en ekki til þess að bæta úr því. Það mun nú nokkuð á reyna, hvað hv. þm. er mikil alvara með sinni till., þegar greidd verða atkv. um rökstuddu dagskrána, því þar hefi ég ekki aðeins tekið upp hans till., heldur tel ég hana ná til allra þegna þjóðfélagsins. Það er prófsteinninn á það, hvort honum er alvara með till., ef hann fylgir rökstuddu dagskránni. Ef hann vill ekki, að till. nái til alls atvinnurekstrar í landinu, en vill takmarka hana við ákveðið svið í þjóðfélaginu, þá sýnir það, að honum er engin alvara með þetta. Ég er sannfærður um, að það er enginn hv. þm., sem telur það nokkra bót á atvinnukúguninni. ef á að bæta úr henni á litlu og takmörkuðu sviði og láta menn þar njóta jafnréttis, en leyfa svo, að hverju einu, sem menn vilja, megi fara fram á öllum öðrum sviðum. Yfirleitt getur aldrei sá maður starfað að umbótum, sem lítur á hag fárra manna, en ekki heildina. Sá sem ekki lítur á hag heildarinnar og vill láta umbæturnar ganga jafnt yfir alla, getur ekki unnið að umbótum, og allt, sem slíkur maður reynir að káka við, verður aðeins til þess að bæla á ranglætið. Það, sem er leiðinlegast við aðgerðir sjálfstæðismanna, er að þeim hættir svo mjög til þess að hugsa um hag fárra manna, en geta aldrei haft yfirlit yfir heildina. Þeir vilja hafa rétt til þess að beita atvinnukúgun á þeim sviðum, sem þeir ráða yfir. en vilja ekki láta hana vera leyfilega öðrum en þeim einum.

Hv. 6. þm. Reykv. var að þemba sig dálítið upp og sagði, að það sæti sízt á okkur framsóknarmönnum að tala um þetta, því við værum eini flokkurinn hér á landi, sem skattlegðum menn til flokkssjóðs. Ég fullyrði, að þetta er ósatt að því er snertir Framsfl. En ég skal skýra frá því, að ég hefi séð útsvarsseðil frá Sjálfstfl. heima hjá skipstjóra, þar sem mönnum er gert að greiða í flokkssjóð frá 60–100 kr. Það er ekki eingöngu, að þessum mönnum sé gert það að skyldu að greiða í flokkssjóð, heldur mörgum fleiri embættismönnum, sem starfa hjá Sjálfstfl. Mig furðar á þeirri ósvífni hv. 6. þm. Reykv., sem stendur fyrir kosningaskrifstofu Sjálfstfl. og auglýsir opinberlega, að hann jafni niður skatti á flokksmenn sína, að hann skuli hefja máls á þessu alriði. Ef nokkur flokkur er sekur um að hafa skattlagt sína flokksmenn, þá sem hann hefir komið í embætti, í flokkssjóð, þá er það Sjálfstfl., enda er það vitað, að hann ræður í kosningum yfir ótakmörkuðu fé.

Hv. þm. segir, að mér sé lítt kunnugt, hversu sé háttað með útgerðina, og að skipstjórar ráði einir menn á togarana. Ég efa, að hv. þm. sé nokkuð kunnugra um þetta en mér. Það er fullljóst, að nú eru ekki nema fáir skipstjórar, sem eru sjálfráðir um að ráða sína menn, eins og þeir gerðu áður. Mér er kunnugt um, að áður en sjálfstæðismenn tóku upp þessa atvinnuskipun, voru það skipstjórarnir, sem réðu menn á skipin til sín, og þeir höfðu við það aðra aðferð en nú tíðkast. Og sagt hefir mér verið, og það af fleiri en einum skipstjóra, sem ég hefi nefnt við að taka drengi, sem langaði til sjós, að þeir yrðu að bera það undir sinn útgerðarmann, og mér hefir virzt, að það þyrfti að rannsaka hans hugarfar áður.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að þetta kæmi ekki vel heim við það, sem jafnaðarmenn segðu, að þeir ættu flesta sjómennina. Þetta má vel vera, og ég er viss um, að margir af þeim, sem Sjálfstfl. reynir að beita kúgun við kosningar, fara ekki eftir því. Sem betur fer eru leynilegar kosningar og menn fá að halda skoðunum sínum við kjörborðið.

Ég skal nefna eitt dæmi um það, hvað sjálfstæðismenn leyfa sér í þessum efnum. Ég þekki hrepp, sem er svo að segja einlitur fyrir Sjálfstfl. Allir í kjörstjórninni eru sjálfstæðismenn. Kjósendur eru 160–170 og af þeim eru 26, sem er hjálpað til að kjósa, þó að það séu menn á bezta aldri. Ég segi fyrir mig, að mér leikur grunur á, að þarna sé beitt kúgun, og ég þekki þess engin dæmi, að þetta hafi verið gert annarsstaðar, þar sem eru einlit kjördæmi.

Nú veit ég, að þessum hv. þm. er kunnugt um, hvaða ákvæði eru til um það, hverjum eigi að hjálpa til að kjósa, og vitanlega dettur honum ekki í hug, að það séu 15–20% af kjósendum þessa hrepps blindir eða handarvana, því það eru ekki aðrir, sem á að hjálpa; a. m. k. væri það mjög alvarlegt heilsuástand. Nei, það er alltaf heldur óþægilegt að kasta grjóti úr glerhúsi. Og sérstaklega finnst mér einkennilegt, að þegar komið er hér með till. um að bæta þessa till., þannig að hún nái til allra þegna þjóðfélagsins, þá skuli tveir menn úr Sjálfstfl. hlaupa upp á nef sér, eins og hér sé um eitthvert ógurlegt ranglæti að ræða. Hver getur ímyndað sér, að hér sé heill hugur og einlæg réttlætistilfinning að baki?

Hv. 1. varaþm. Reykv. sagði, að framsóknarmenn hafi fyrstir orðið til þess að beita kúgun við embættaveitingar hér á landi. Það má vel vera, að sjálfstæðismenn hafi fyrst fundið þetta eftir að framsóknarmenn komust að völdum, því fram til 1927 fengu ekki aðrir embætti en íhaldsmenn. Og þó leitað sé með logandi ljósi, þá er það hreinasta undantekning, ef það finnst annar maður en íhaldsmaður, sem veitt hefir verið embætti fyrir 1927. Er þetta tilviljun ein? Hver lætur sér detta slíkt í hug? Vitandi vits hafa þeir alltaf farið þannig með veitingarvaldið, að þeir tryggðu sér, að það fengju ekki aðrir embætti en þeirra flokksmenn, og þeim ferst því sízt að kvarta, þó einhverjir af andstæðingum þeirra komist í embætti.

Ég held, að það sé ekki þörf á að fara um þetta fleiri orðum. Ég ætla ekki að taka mikið mark á þessum fúkyrðum, sem fuku hjá þessum tveimur þm. Sjálfstfl., þegar þeir eru að æðrast yfir því, að þetta gangi lengra og nái til fleiri en þeir óskuðu að kjósa til þess. En ég vil benda hv. þm. á það, að þeir, sem ekki geta fylgt minni dagskrá, gera sig bera að því að vera hlutdrægir í sínum umbótum.