03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (2380)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

*Sveinbjörn Högnason:

Hv. 6. þm. Reykv. var að tala um þá atvinnukúgun og þá misbeitingu veitingarvaldsins, sem nú ætti sér svo mjög stað, og skildist mér hann þar helzt eiga víð ríkisvaldið. Ég lofaði honum þá, að ég skyldi benda honum á dæmi, sem sýndi, hvað flokksmenn hans eru heilagir, þegar um er að ræða veitingu embætta hjá því opinbera.

Eins og kunnugt er, eru flokksmenn þessa hv. þm. í meiri hl. í bæjarstjórn Reykjavíkur. Í fyrra var sett hér á fót allmikil og stór stofnun, sem eingöngu var sett undir þeirra valdsvið, sem sé sjúkratryggingarnar. Meiri hl. bæjarstj. fékk að ráða allt starfsfólkið, og skipti það tugum manna, en menn, sem eru í stj. samlagsins, hafa ekki viljað gefa mér upp, hversu margir þeir eru. En það hefir verið fullyrt við mig, að enginn nema hreinræktaður sjálfstæðismaður hafi fengið að komast þar að, og auk þess er það á hvers manns vitorði, að ekki hafa eingöngu verið teknir hæfustu sjálfstæðismennirnir, heldur eru þar einnig ýmiskonar hálfgerðir vandræðamenn, og þegar einum af þessum mönnum, sem ekki voru alveg flekklausir, var boðin þarna staða, var hann svo hæverskur að spyrja, hvort ekki væri nóg fyrir af slíkum mönnum. Það var því ekki eingöngu svo, að í þessar stöður væru valdir sjálfstæðismenn, heldur voru valdir þeir menn, sem hvergi gátu annarsstaðar lifað eða komizt af. Þannig gengur það til hjá þessum mönnum, sem halda fram gagnvart öðrum flokkum, að alltaf skuli velja hæfustu mennina. Ég held, að þeir ættu að byrja á að reformera eitthvað hjá sjálfum sér.

Síðan fyrri hl. þessarar umr. fór fram hefir rignt yfir mig dæmum um, hversu geysileg óbilgirni ætti sér stað í bæjarstjórn Reykjavikur um veitingar embætta. Ég hefi minnzt á embætti hv. flm. Mér er sagt úr sömu stofnun, að þar hafi verið einn starfsmaður, sem hafði verið þar lengi og átti því að geta verið þar áfram og flutzt hærra upp, en í staðinn fyrir það var honum bolað í burt og einn valdamaður úr Sjálfstfl. settur þar í staðinn. Það getur verið, að vegna þessa dæmis sé hann að bera fram þessa till. En hann hefði þá átt að koma inn á það í framsöguræðu sinni, því að hann talaði mest í framsöguræðunni um atvinnukúgun. Og þegar hann segir, að till. sin þurfi ekki að fela slíkt í sér. og það sé að fara út fyrir efnið, þegar ég með dagskrártill. vil fyrirbyggja atvinnukúgun í þjóðfélaginu, þá slær hann undan og segir, að till. hans feli það ekki í sér, og framsöguræða hans byggist á því. Þetta sýnir. hversu gersamlega hann er áttavilltur í því, hvað till. feli í sér.

Hv. þm. hefir nú játað, að ef till. verður samþ. og ákvæðum hennar beitt út í það ýtrasta, þá geti hún falið í sér nýtt ranglæti. Þetta er rétt. Hv. þm. ætti því að geta gengið inn á dagskrá mína, sem felur í sér ekki aðeins það, sem hann sagði, að væri höfuðtilgangur sinn með till., heldur kemur einnig í veg fyrir það ranglati, sem hann játar, að geti skapazt af samþykkt till., og ætti engum að vera meira áhugamál en honum að fá þá galla lagaða. Ef hann hinsvegar heldur fast við sína till., en vill, að dagskráin verði felld, sem ég vil ekki trúa fyrr en í lengstu lög eftir yfirlýsingar hans, þá sýnir hann, að hér er ekkert um að ræða nema þessa venjulegu aðferð, sem kemur svo oft fram hjá hans flokksmönnum, bæði hér á þingi og annarsstaðar, að reyna undir einhverju yfirskini að gera sig góðan og vilja taka öðrum fram, en hopa af hólmi, þegar til alvörunnar kemur.

Ég sé á hæstv. forseta, að honum þykir þessi aths. vera orðin nokkuð löng, en ég vil aðeins bæta því við, að til þess að alþjóð fái að vita. hver alvara er á bak við þessa till., hvort hún er sprottin að umbótahug, þá vil ég biðja hæstv. forseta að láta fara fram nafnakall um dagskrártill. mína, til þess að sjá, hverjir það eru, sem í raun og eru vilja gagngerða umbót á þessu sviði, en ekki stinga títuprjónum í einhver einstök atriði, sem gæti, eins og hv. flm. sagði, aukið á ranglætið.