03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2381)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

*Einar Olgeirsson:

Mér virðist, að umr. um þessa till. og einnig grg. að nokkru leyti fara talsvert í aðra átt en till. sjálf. Eftir því, sem mér heyrist, þá er hér mest rætt spursmálið um pólitíska atvinnukúgun, en till. sjálf ræðir eingöngu um atvinnu skyldmenna og venzlamanna við stofnanir ríkisins. Ég ætla ekki að ræða málið frá þessu sjónarmiði, ég mun ekki ræða þá pólitísku atvinnukúgun. sem átt hefir sér stað, hjá Sjálfstfl. ekki síður en öðrum flokkum. Það yrði of langt mál og mundi framlengja þessar umr. meira en svo, að ég vilji ræða það í þessu sambandi. Ég mun því halda mér við till. sjálfa, principið í málinu, aðferðina, sem á að nota til þess að koma þessu í framkvæmd.

Tilgangur till. virðist vera sá, að ráða að einhverju leyti bót á atvinnuleysinu; það virðist vera einhver hungurskömmtun á atvinnunni, það verði að sjá til þess, að ómögulega geti nema einn maður úr hverri fjölskyldu fengið vinnu hjá ríkinu.

Það, sem hér er um að ræða, er því að takmarka rétt manna til atvinnu, og ég skal undir eins lýsa því yfir, að ég er „principielt“ á móti þessari aðferð. Ég álit alls ekki rétt að setja slík fyrirmæli, sem hefðu allt að því lagagildi, því að hér á að taka málið frá vitlausu sjónarmiði. Það, sem við fyrst og fremst eigum að gera, er að auka atvinnuna, en ekki að skammta þá litlu atvinnu, sem fyrir er, þannig, að kannske enginn geti lifað. Hér er um það að ræða að svipta hluta af mönnum rétti til atvinnu, sem þeir eiga að hafa. Á ég þar við kvenfólkið. Það, sem felst í till., er, að konur eigi ekki að fá vinnu hjá ríkinu, ef menn þeirra vinna þar. Hv. flm. sagði áðan, að ef fjölskyldan væri í vinnu hjá ríkinu, þá væri sjálfsagt að láta konuna fara. Á Íslandi á að heita, að sé jafnrétti milli karla og kvenna, þó að það sé ekki svo í rauninni. Við vitum, fyrir hvaða misrétti kvenfólkið verður í þjóðfélaginu. Ég er því á móti hvaða till., sem fer í þá átt að rýra þann rétt, sem konunni er ætlaður í þjóðfélaginu. Það nær engri átt að setja fyrirmæli, sem ættu að hafa svipað gildi og l., sem sama sem bönnuðu giftum konum að hafa atvinnu. Ég veit, að þessi tilhneiging er mjög rík á Íslandi eins og annarsstaðar, tilhneiging í þá átt, að vilja banna giftum konum að vinna neitt utan heimilisins, en vilja láta þær gera sig ánægðar með að vera bundnar við eldhúsið. Ég tel, að skylt sé að berjast á móti svona till. og öllum þeim till., sem ganga í þá átt, að skapa eða auka misrétti milli kynjanna.

Ég er hissa, að þessi hv. þm. skuli gerast flm. að slíkri till., því að mér er kunnugt um, að hann er einn af þeim sjálfstæðismönnum, sem helzt aðhyllast lýðræðið, en eru andstæðingar þess fasisma, sem upp á síðkastið hefir bólað svo mikið á innan þess flokks. Ég býst við, að hann viti, að eins og nú stendur á í þýzkalandi, þá er þetta eitt af þeim „principum“, sem reynt er að framkvæma, að svipta konuna atvinnuréttindum, reka hana af vinnustöðvunum og reyna að fjötra hana við eldhúsið. Og jafnvel þótt finna megi svona dæmi í Englandi, þá er ég hissa, að þessi hv. þm. skuli koma fram með svona till., því að það er svo hér á Íslandi, að fremur þarf að halda því að fólki, hvert gildi mannréttindin hafi, en að koma með fyrirmæli, sem draga úr þeim, því að við Íslendingar höfum fengið mikið af okkar mannréttindum svo fyrirhafnarlítið, að við höfum ekki áttað okkur á, hve dýrmæt þau eru, og þannig býst ég við, að sé með kvenréttindin. Á meðan Íslendingar voru undir kúgunarvaldi annarar þjóðar og stóðu saman um að berjast fyrir sjálfstæði sínu, þá var gripið fegins hendi við öllu, sem að mannréttindum laut, og það fékkst samþ. án mikillar mótstöðu. Þannig var það t. d. með kosningarréttinn, almenna menntun o. fl. En eftir að sjálfstæði Íslands var viðurkennt 1918 hefir það reynzt svo, að þau mannréttindamál, sem þá höfðu ekki náð fram að ganga, hafa átt örðugt uppdráttar, og þannig hefir það einnig verið með kvenréttindin, sem þó eru viðurkennd með l., og þótt það sé ekki tilætlunin hjá hv. flm. að rýra þann rétt, þá miðar till. þó að því, og þess vegna er ég fyrst og fremst á móti henni.

Ég álít, að við verðum að hafa einhverja aðra aðferð til að bæta úr atvinnuleysinu en að innleiða einhverja hungurskömmtun. Ég álít, að það sé allt annað mái, sem nauðsynlegt sé að taka fyrir, ef ætti að setja l. um þetta, en það er spursmálið um pólitíska atvinnukúgun, sem á sér stað hjá einstökum atvinnurekendum. Ég álít út af fyrir sig rétt að átelja ýmislegt, sem fram fer bæði í sambandi við, að einstökum mönnum er neitað um atvinnu, þó að þeir séu hæfir, af pólitískum eða persónulegum ástæðum, og að verkamenn séu í stórum stíl útilokaðir frá vinnu vegna pólitískra afskipta, og eins má átelja það, sem á sér stað hjá þeim stofnunum, sem heyra undir það opinbera, og hjá einstökum mönnum, sem misnota sínar stöður sem forstjórar. Hinu er ég mótfallinn, að samþ.þáltill., sem mundi, ef henni væri beitt í framkvæmdinni, jafngilda því, að samþ. hefðu verið l. um að takmarka þann rétt, sem menn eiga að hafa til atvinnu.

Af þessum ástæðum er ég mótfallinn till., sem hér liggur fyrir.