04.12.1937
Neðri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2389)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

*Einar Olgeirsson:

Ég skal ekki lengja umr. mikið; þær eru orðnar nógu langar nú þegar. En út af aths. hjá hv. 4. þm. Reykv. vildi ég segja þá skoðun mína á efni þessarar till., að hún hlýtur að beinast að því að hefta vinnufrelsi. Giftum konum yrði yfirleitt bægt frá að vinna hjá ríkisstofnunum, en það er leið, sem ég get alls ekki fallizt á, að fara eigi til þess að útrýma atvinnuleysi, að skerða sjálfsögð mannréttindi. Aftur á móti vil ég benda á aðra aðferð til þess, í sambandi við starfsmenn hjá því opinbera — það er launalækkun hátekjumannanna þar. Það mun nema um einni millj. samkv. athugunum launamálanefndar, ef lækkuð væru laun hátekjumanna í þjónustu hins opinbera. væri því nær að leggja fram till. um, að mþn. væri skipuð til að undirbúa og leggja fram frv., sem fæli þá launalækkun í sér, að þeir, sem hafa þetta 27–30 þús. kr. laun, væru lækkaðir niður í 8 þús., og konurnar þeirra fengju heldur að vinna úti heldur en að samþ. þessa till., sem skerðir sjálfsagðan rétt þeirra, sem mun þó alis ekki hafa verið tilgangur hv. flm.

Ég mun bráðlega flytja, hvort sem vinnst tími til þess á þessu þingi eða ekki fyrr en á því næsta, frv. um að lækka laun manna í þjónustu ríkisins eða annara stofnana, sem ríkið hefir yfir að ráða, og finnst mér nær að nota það fé, sem þar kemur, til þess að auka atvinnuna en að fara, eins og yrði afleiðingin af þessari þáltill., að bægja giftum konum frá atvinnu. Við kommúnistar kjósum að fara þá leið að bæta úr atvinnuleysinu með því að auka atvinnuna heldur en að fara að jafna hungrinu niður.