18.10.1937
Neðri deild: 4. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (2414)

12. mál, eftirlit með skipum

*Forseti (JörB):

Ég legg til, að fram fari ein umr. um till., og skoða það samþ., ef enginn mælir því í gegn. Ég vil þó geta þess um þessa till., að þar er gert ráð fyrir, að stj. skipi þessa n., en ekki talað um greiðslu þess kostnaðar, sem af slíkri nefndarskipun þarf að leiða. Ég geri ráð fyrir, að hv. flm. telji, að slíkan kostnað megi skoða sem aðrar launagreiðslur af hálfu stjórnarráðsins fyrir undirbúning mála, og þess vegna ekki ástæða til, að till. sé flutt í Sþ., sem hefði þurft að gera, ef hún fæli í sér óhjákvæmilegan kostnað fram yfir það, sem venjulegt er um undirbúning mála. Af þessari ástæðu sting ég upp á, að um till. verði viðhöfð ein umr.