27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (2422)

40. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég tók svo eftir, að hv. flm. léti þau orð falla, að ég hefði sagt, þegar benzínskatturinn var hækkaður, að olíufélögin gætu ekki lækkað verðið um 4 aura, eða það, sem skattinum nam. Þetta er rangt; ég hefi aldrei viðhaft slík orð. Ég veit ekki betur en að áður en til benzíndeilunnar kom, hafi þeim, sem þess höfðu óskað, staðið til boða að fá innflutningsleyfi fyrir benzíni, enda var leyfið veitt strax og beiðnin kom, bæði til þess að byggja geyma og eins fyrir benzíni. Hitt get ég sagt hér sem mína skoðun, að olíufélögin hefðu ekki gert þá lækkun, sem fram kom, ef ekki hefði bætzt við nýr innflytjandi. En það stafaði ekki af því, hvernig innflutnings- og gjaldeyrisnefnd starfaði, því að hún veitti leyfið, þegar um það var beðið. — Nú er búið að byggja olíugeyma í Vestmannaeyjum, og ég veit ekki betur en að þangað sé nokkurn veginn tryggur innflutningur. Svo að í þessum efnum mundi þál. enga breyt. gera. En það, sem hér er um að ræða, er, hvort olíufélögin — með þeirri aðstöðu, sem þau hafa, — geta haldið verzluninni í sinum höndum, þó að innflutningur sé veittur til annara.