18.11.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (2467)

91. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

*Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Ef spurt væri um það, hvort till. sú, sem hér er um að ræða, hefði rétt á sér eða hvort saknæmt megi telja, að Alþ. samþ. hana, þá finnst mér, áður en því er svarað, verða að leiða athygli hv. þm. að þremur atriðum málsins. Í fyrsta lagi, hvort hin almenna þörf, sem komið hefir fram vegna óþurrkanna á síðasta sumri á því, að menn kaupi fóðurbæti, sé svo mikil, þ. e. a s. tjónið hafi orðið svo mikið af völdum óþurrkanna, að ástæða sé til að leita til Alþ. um hjálp og liðsinni af þeim ástæðum. Í öðru lagi er ómögulegt að ganga framhjá því í þessu sambandi að gera sér grein fyrir, hvort ríkissjóður sé þess umkominn að hlaupa þarna undir bagga. Og í þriðja lagi kemur hér til athugunar, hvort hér sé um réttmæt tilmæli að ræða og hvort till. sé stillt í hóf.

Ég vil nokkuð minnast á þessi atriði, hvert um sig.

Það eru sérstaklega tvennskonar erfiðleikar, sem nú eru aðsteðjandi landbúnaðinum og amað hafa bændum á þessu s. l. sumri, nefnilega mæðiveikin annarsvegar og hinsvegar óþurrkarnir. Það eru óþurrkarnir og afleiðingar þeirra, sem hér er um að ræða; að bæta bændum að nokkru tjón það, sem af þeim hefir hlotizt. Ég játa, að þótt sjálfsagt sé að minnast á þetta tvennt saman, þá er hér þó ólíku saman að jafna, að öðru leyti en því, að hvorttveggja þetta mæðir þunglega á bændum landsins. Mæðiveikin á sér dýpri rætur, og sá vágestur fer eins og huldu höfði þegar hann er á ferðinni, og óséð er, hversu mikinn kostnað hann hefir í för með sér áður en lýkur. En í samanburði víð það eru afleiðingar af völdum tíðarfarsins í sumar í heilum landsfjórðungum ástand, sem að tiltölulega miklu leyti er séð nú á þessari stund. Og vonandi a. m. k. getur það talizt, að slíkir reginóþurrkar verði þó ekki nema á þessu eina sumri um alllangan tíma.

En að því leyti er jafnt á komið um þessa tvennskonar erfiðleika, að afleiðingarnar eru miklar. Enda þótt búið sé að afla nauðsynlegs fóðurbætis á þessu hausti fyrir flest þau heimili. sem óþurrkarnir dundu yfir í sumar, þá er ekki séð, hvernig fóðrun búpeningsins tekst fram úr, þrátt fyrir fóðurbætinn, með því ónýta heyi, sem aflazt hefir á óþurrkasvæðunum í sumar. Því síður er séð, hversu öruggur til framleiðslu sá bústofn verður, sem fóðraður er á þessu lélega fóðri, sem heyin þar eru nú.

Ég staðhæfi, eins og drepið er á í grg. þessarar þáltill., eftir því sem sannfrétt er víða úr óþurrkahéruðunum, að þótt lagt sé í fóðurbætiskaup, og þau mikil, þá mun það margra manna ætlun vera að kaupa ekki meiri fóðurbæti en sem aðeins nægir til þess að bæta heyið sem fóður. Þess vegna kemur til greina fækkun búfjár hjá mörgum bændum á óþurrkasvæðunum. vegna þess að heyin eru einnig lítil, jafnframt því hvað þau eru vond. Sumstaðar þar, sem t. d. hafa vanalega verið sett á um 70 til 80 lömb, verða nú ekki sett á nema örfá, innan við 10. Svipað þessu mun það vera allvíða. Sama er vitanlega að segja um þá bændur, sem búa á miklum heyskaparjörðum á óþurrkasvæðinu og hafa töluvert af ungum kýrstofni, þá munu óþurrkarnir valda því, þrátt fyrir fóðurbætiskaupin, að fækkun kýrstofnsins verður hjá þeim bændum óhjákvæmileg.

Búnaðarfélag Íslands hefir áætlað, að síldarmjölskaup vegna óþurrkanna á óþurrkasvæðunum þyrftu að nema eitthvað meira en 3000 tonnum, eða 3600 tonnum, lauslega áætlað. Þá mun Búnaðarfélag Íslands einnig hafa áætlað, að útlendan fóðurbæti þyrfti að kaupa, sem næmi 2000 tonnum, vegna þess að síldarmjölið er alls ekki fullnægjandi til fóðurbætis fyrir málnytupening, þegar heyfengur mislukkast eins og átt hefir sér stað á óþurrkasvæðunum í sumar s. l. Þegar þetta kemur saman, sér maður, að þarna verður um háar upphæðir að ræða, sem bændur verða að greiða fyrir fóðurbæti vegna óþurrkanna í sumar. Ef t. d. 3600 tonn væru keypt af síldarmjöli til óþurrkasvæðanna, þá þýðir það, með því að áætla 20 kr. verð á hverjum 100 kg., upphæð, sem nemur rúmlega 700000 kr., sem bændur verða að borga í þessu skyni. Að bændur hafi þörf fyrir, að þarna sé hlaupið undir baggann, þarf engra málsskýringa við. Sú þörf liggur opin fyrir. Það væri náttúrlega gleðilegt, ef hægt væri að segja með réttu, að það væru keipar og ýtni af bændum að beiðast hjálpar vegna þessara skakkafalla, af óþurrkunum, vegna þess að mönnum þætti betra að fá nauðsynjar sínar annarsstaðar frá en að vinna fyrir þeim með eigin höndum. En slíkt er ekki tilfellið. Langt frá því. Fénaður er á óþurrkasvæðunum fækkandi vegna tíðarfarsins. Kostnaður við heyskap þar s.l. sumar var engu minni heldur en þó hey hefðu náðst græn í garð, en heyskapurinn með sama kostnaði miklu rýrari að heyfeng, ekki aðeins að gæðum, heldur einnig að magni.

Þegar á þetta er litið og einnig á það, að það er kunnara en frá þurfi að skýra, að fjöldi bænda á þessum svæðum er aðeins nýsloppinn frá þeim erfiðleikum í búskapnum, sem reynt var að ráða bót á með kreppulánasamningunum — og það var eðli þeirra samninga, að það var hyggja manna, að með þeim væri lagt svo mikið á herðar hvers eins, sem náði þeim samningum, sem hann framast hefði burðarmagn til að bera. Þegar á þetta er litið og einnig hitt, að margra manna ætlun er, að afkoma sveitabúskaparins sé ekki betri en það nú, að bóndinn verði að gæta fyllstu hagsýni og megi ekki verða fyrir neinum verulegum skakkaföllum til þess að búreksturinn geti staðizt og bóndinn geti staðið við skuldbindingar sínar við kreppulánasjóð, og það jafnvel þótt litlar skuldir hvíli á honum — en á mörgum bændum hvíla allmiklar skuldir — þegar út frá þessu sjónarmiði er litið á það, að bóndi reynir að halda við bústofni sínum með því að kaupa 15–20 poka af síldarmjöli, sem kostar allt að 100 kr. — því að þó að margir þessara manna geti í bili staðizt við að kaupa síldarmjöl háu verði, vegna þess að þeir reka fleira fé til slátrunar en vanalega nú í haust, þá kemur þó við það til greina fækkun bústofnsins, sem kemur í baksegl siðar með tilliti til annara nauðsynlegra skuldbindinga, sem á fjölda bænda hvíla gagnvart kreppulánasjóði (o. fl. lánardrottnum) —, þegar á allt þetta er litið, gæti ég trúað því, að á næstunni yrði það meira.

Þótt segja megi, að vegna þess, að bændur fargi í haust með meira móti, ætti þeim að veitast léttar að afla sér fóðurbætis, en því er til að svara, að slík útgjöld kæmu þegar í baksegl annara skuldbindinga, bæði við kreppulánasjóð og aðra, jafnvel strax á þessu ári, og þó meira siðar vegna skerðingar á bústofninum. En ég þykist þess fullviss, að hv. þm. hafi yfirleitt þau sjónarmið, þegar hætta vofir yfir, að sjálfsagt sé að byrgja brunninn, áður en barnið dettur í hann. Það verður því þegar að hlaupa undir bagga með bændum, svo að þeir geti framvegis staðið við skuldbindingar sínar, og eins og ástandið er nú, munar bændur um hvern fóðurmjölssekk.

Þá vil ég víkja að þeirri hlið málsins, hvort telja megi, að ríkissjóður sé fær um að bæta öllum þessum byrðum á sig. Ég skal játa það, að ef lítið er á getu ríkissjóðs, eins og hún er nú, þá megi varla teljast, að hann sé þess umkominn að bæta á sig nýjum útgjöldum. En sé farið að líta á fjárlögin, sést það ekki aðeins, að þau eru há. heldur einnig, að þar eru póstar, sem leggja mætti mat á, hvort ættu fyllsta rétt á sér, og hvort einhver eða einhver þeirra mætti ekki þoka fyrir þessu nauðsynjamáli, því að ekki er alveg víst, að þing eða stjórn hafi ávallt borið gæfu til þess að beita fjárveitingarvaldi sínu þar, sem mest á reið. Um þetta skal ég þó ekki dæma. En hitt er óhætt að fullyrða, að ráðstafanir hafa jafnan verið gerðar af löggjafanum til hjálpar, þegar út af hefir brugðið með almenna afkomu. sbr. stofnun bjargráðasjóðs og fleira bændum til hjálpar. Þetta er princip. sem fylgt hefir verið ár frá ári og fram á þennan dag. Og hér er einmitt um það stórmál að ræða, að forða miklum fjölda bænda frá vanda. Samskonar aðgerðir voru gerðar fyrir atbeina Alþingis til að leysa vandamál austfirzkra og norðlenzkra bænda nú fyrir skömmu. Í því máli sýndu allir flokkar á Alþingi góðan skilning, og hins sama má vænta nú, þar sem um svo skylt mál er að ræða.

Sú vara til fóðurbætis. sem hér er um að ræða, er vara, sem framleidd er í landinn sjálfu, og er mikill munur á því, að ríkið styrki menn til kaupa á þeirri vöru eða aðfluttri, enda þótt segja megi, að nóg sé hægt að gera við verðið, er fyrir hana fæst á erlendum markaði. Og þar eð síldarbræðsluverksmiðjurnar hafa verið stofnaðar og keyptar af ríkinu, sýnist ekki nema rétt, að þessar verksmiðjur miðli nokkru af möguleikum sínum til annara stétta, þegar nauðsyn ber til.

Eins og getið er um í grg., er ætlazt til, að verðið verði hér eitthvað svipað stórsöluverði. Ég tei því kröfum þessum svo vel í hóf stillt, að engan veginn sé hægt að kalla þær gífurlegar. Að vísu getur verið álitamál, hve verðið skuli ákveðið hátt til bænda, en þótt sekkurinn væri ákveðinn á 16,50–18 kr., væri það mikil hjálp. En ef aðrir hv. þm. vilja ganga lengra eða koma með betri ráð, er mér það auðvitað fullkomið gleðiefni. En ég fæ ekki séð, að mögulegt sé í þessu tilfelli að flokka menn eftir efnum og ástæðum, enda yrði slíkt ávallt af handahófi. Hagur bænda er líka svo þröngur yfirleitt, að ég tel réttlátast, að allir hafi jafnan aðgang að þessari ríkishjálp, ef úr henni verður. (PZ: Hvert er svæðið?). Hv. 1. þm. N.-M. spyr, hvert svæðið sé. Þetta er fyllilega réttmæt spurning. En í grg. stendur einmitt. að þáltill. eigi að framkvæma í samráði við Búnaðarfélag Íslands og búnaðarsamböndin. Ég skal játa, að það getur verið vafamál, hvort takmarka beri þetta svæði við suðurhluta Múlasýslu að Vatnsskarði. Ég skal engan fullnaðardóm leggja á þetta sjálfur, en ef Búnaðarfél. Íslands er ekki treystandi til slíks, þá er engum treystandi. A. m. k. treysti ég hv. 1. þm. N.-M. fyrir mitt leyti. Búnaðarsamböndin eru ennfremur til þess að kynna sér hag bænda, þvert á sínu héraðssvæði, og ætti þeim því að vera trúandi til þessa.

Ég vil geta þess, að hér hefir komið fram önnur till. um fóðurtryggingarsjóði. Ég met þann skilning á þessum málum, sem þar kemur fram, en því fluttum við þessa till., er nú liggur fyrir, að við töldum hina ófullnægjandi. Samkv. þeirri till. átti að taka þá út úr, er fyrst og fremst þurftu hjálpar við, en okkur er ljóst. að fullkomnu réttlæti verður ekki náð á þann hátt. Ég er ekki heldur viss um, að lögin frá 1936 heimili slíka breytingu með þáltill. Flm. taka það líka fram, að þeir vilji sýna öðrum till., er ganga í svipaða átt, fulla góðvild sína.

Ég get nú lokið máli mínu. Ég óska till. vísað til síðari umr. Um nefnd geri ég enga till., en býst þó við, að fjvn. standi næst.