18.11.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (2468)

91. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þessi till. fer fram á það, að bændur séu styrktir til fóðurbætiskaupa. Mér er ekki kunnugt um, að fordæmi sé fyrir slíku, enda er vandasamt að gera það upp við sig, hvenær það skuli gert eða ekki.

Hv. flm. minntist á það, að hlaupið hefði verið undir bagga með austfirzkum og norðlenzkum bændum í harðindum. Slík aðstoð er þó engan veginn sambærileg við þessa, þar sem hún var veitt til að koma í veg fyrir, að fénaður félli úr harðrétti að vori til, því að mikill munur er á, hvort slík hjálp er veitt að vori til, eftir óvenjuleg harðindi, eða fyrirfram, á haustnóttum. — Og hvað á svo að telja óþurrkasvæði og hvað ekki? Allir vita, að óþurrkar hafa geisað sunnanlands í sumar, en hvar á svo að draga línuna, og hvað segja þeir, sem eru rétt utan við hana? Ég held líka, að ekki sé hægt að selja mönnum sömu vöru með misjöfnu verði á ýmsum stöðum á landinu. Ég held því. að varhugavert sé að veita þessa hjálp, og þá sérstaklega á þennan hátt.

Það hefir verið minnzt á, að einstökum hreppum hafi verið veitt svipuð hjálp. en það hafa því verið þeir hreppar, sem notað hafa alla lánsmöguleika sína í bjargráðasjóði. Hvort svo stendur á hér, skal ég ekki segja um, né heldur hvort eðlilegt er, að bjargráðasjóður veiti slíka hjálp þegar á haustnóttum. Sú upphæð, sem hér er um að ræða, yrði á milli 125 þús. og 175 þús. kr. Mér skilst. að ríkisverksmiðjurnar eigi að greiða halla af sínum vörum, en ríkissjóður hitt. En ég tel alveg óhugsandi, að ríkisverksmiðjurnar geti tekið þennan halla á sig, svo hörð sem samkeppnin er orðin við einkaverksmiðjurnar. Það kæmi því á ríkissjóð að greiða allan hallann, en þess tel ég hann ekki megnugan eins og sakir standa.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn., því að ég sé ekki ástæðu til þess, að menn verði þvingaðir til að greiða atkv. um málið áður en það hefir hlotið athugun í nefnd.