18.11.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (2470)

91. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

*Flm. (Eiríkur Einarsson):

Ég vildi aðeins með fáum orðum leiðrétta þann misskilning. sem kom fram í ræðu hv. þm. Ísaf. Hann gerði sér far um að láta skína mjög á vald sitt, sem hann hefir yfir síldarverksmiðjum ríkisins, og tók sér varnarstöðu fyrir þær. En það er vitanlegt og ætti hver maður að sjá, að við flm. beinum till. okkar að Alþingi og ríkisstj. og ríkissjóði fyrst og fremst. Slíka ívilnun verður að sjálfsögðu að veita af framleiðslu ríkisins, og í þessu tilfelli af þeim arði, sem ríkinu hlotnast af sínum síldarverksmiðjurekstri. Það er því ríkissjóður, sem á hér að hlaupa undir bagga, samkv. málaleitun þessarar till., sem beinir ósk sinni til Alþingis, ríkisstj. og ríkissjóðs fremur en að síldarverksmiðjunum, þó að þær séu vitanlega þar á vegi. því að þær vinna úr síldinni, og það er sérreikningur, sem þar gildir. En til ríkissjóðs er málinn beint. Og mér finnst það í rauninni algerlega óframbærileg neitunarástæða í málefnum bænda, að ekki megi brjóta í bága við sérhagsmuni síldarverksmiðjanna, ef gerlegt þætti að öðru leyti af hálfu ríkisins að framkvæma þetta. En að málinu sé beint aðallega til síldarverksmiðjanna, af því að vara, sem seld er til bænda, er komin frá síldarverksmiðjunum, er fjarstæða. Hitt var ástæða til að taka fram í grg. þrátt fyrir þetta, að hjálp ríkissjóðs skuli jafnt ná til fóðurbætis frá ríkisverksmiðjunum og öðrum verksmiðjum, þ. e. afslátturinn á hver 100 kíló. það er skilgreint, til þess að enginn misskilningur komist að.

Hv. þm. Ísaf. hefir mikið talað um það. að hér ætti að skattleggja verksmiðjurnar til atvinnubóta fyrir bændur. Vitanlega er hver hjálp, sem kemur frá ríkinu, á einn eða annan hátt skattálagning á ríkið, þ. e. gjöld, sem ekki er hægt að eyða til annars. Það segir sig sjálft. Og mér finnst, að hv. 1þm. Ísaf. hefði ekki átt að minnast á þetta atriði, hvort ætti að skattleggja síldarverksmiðjur til hagsmuna fyrir bændur, því að þetta málefni á sér viðtæka forsögu, sem veit að þeirri aðstöðu bænda til síldveiða á þeim tíma, þegar fólksflóttinn var mestur úr sveitunum í þá uppvaxandi kaupstaði, sérstaklega þar sem síldarútvegurinn var í uppgangi. Ég segi þetta ekki af því, að útvegurinn eigi ekki rétt á sér, og að ekki skuli lagt svo mikið í hann sem nú er gert, heldur af því, að útvegurinn hefir orðið blóðtaka fyrir sveitirnar hvað eftir annað og það má þá segja, að ýmsir hafi höggvið í unnars garð.

Hv. þm. Ísaf. hefði ekki þurft að býsnast svo mjög yfir, að ósamræmi væri í því, að ríkissjóður væri þess litt umkominn að efna til nýrra útgjalda, en þó væri farið fram á þennan styrk. Því að ég skilgreindi þetta, að því minna sem er úr að spila, því meiri nauðsyn er að halda vel á því litla, sem til er. Og ef niðurstaðan verður sú, að hjálp til handa þessum fjölda fólks sé þjóðarnauðsyn, þá kemur sú ástæða því fremur í forrými, en annað má frekar víkja í bili. Þetta er það mat, sem kemur alstaðar til greina við allskonar ráðstafanir ríkisvaldsins. Hv. þm. Ísaf. þurfti þess vegna ekki að snúa út úr orðum mínum. Og þó að ég fari ekki út í þá sálma við hv. þm. Ísaf., þá finnst mér hann í þessu atriði höggva nærri sjálfum sér, þegar hann gerist svo umhyggjusamur um að halda sparlega á fé, því að það er nokkuð umdeilt, hversu sparlega hann hefir haldið á ýmsu, sem lýtur að síldarverksmiðjum ríkisins og útgjöldum í því sambandi. Ég hefi nú persónulega ekki næga þekkingu til að rekja þetta, né heldur áreitnisvilja, en ég veit, að þessi hv. þm. á sízt að kasta fyrsta steininum í þessum efnum.

Ummæli hæstv. ráðh. voru yfirleitt hófleg, og ekki þykir nema eðlileg till. af hálfu ráðh., að svo viðtæku máli skuli visað til fjvn. En þar sem hann taldi vandkvæði á að finna takmörkin, hvar óþurrkasvæðið lægi, þá vil ég benda á, að það var fundur haldinn nú í sept. til að ræða um þessi mál, að tilhlutun Búnaðarfélags Íslands. Og fundur þessi leyfir sér að skilgreina takmörk óþurrkasvæðisins. Fundarmenn telja það — með leyfi hæstv. forseta — taka yfir Skaftafellssýslur, vestur og norður um land til Miðfjarðar. Annars legg ég ekki dóm á, hvort þetta er nákvæmlega rétt skilgreint. En út af því, að hæstv. fjmrh. kvað erfitt að finna takmörkin og því varasamt að leggja út á þessa braut, þá er þó megin óþurrkasvæðið ekki vandfundið. Því að svo myrkt var skýið og rakafullt, sem hvíldi yfir höfði hvers einasta búanda á stórum svæðum í næstum liðlangt sumar, en þegar kemur á jaðrana og fer að sjá til lofts, þá geri ég ráð fyrir, að reynslan um heyhirðinguna segi til vegar í meginatriðum, því að það leikur sér enginn að því að vanrækja að þurrka hey sitt og ná því inn. Og Búnaðarfélaginu og samböndunum treysti ég vel til að skilgreina þetta í samráði við ríkisstj., finna þessi takmörk og fara har vel að ráði sinu. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri allt annað að hlaupa undir bagga með útvegun fóðurbætis í harðindum seinni part vetrar eða nú undir veturinn. Að vísu. En það miðar þó hvorttveggja að sama takmarki, að tryggja búpeninginn. Það má kannske segja, að í þessu sé hér um nýjung að ræða; áður var miskunnarlaust skorið af heyjunum. En slíkum nýjungum í atvinnuháttum verðum við að vera viðbúnir og kunna að sveifla venjunum dálítið til, eftir því sem hentar.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að gefnu tilefni frá hæstv. ráðh., að þó að ýmsir bændur virðist geta staðið straum af þessum útgjöldum. þá er ég viss um það, að sú greiðsla er á kostnað annara skuldbindinga þeirra, hvað sem augnablikið kann að segja til um þetta. Ég tel svo ekki nauðsyn að fara lengra út í þetta mál nú, ekki sízt þar sem því mun verða visað til nefndar. En að síðustu vil ég geta þess í sambandi við það, sem sagt var um Austfirði fyrir 1–2 árum, að þar stóð í rauninni líkt á og nú. Þá voru það vetrarharðindi, sem sköpuðu hættu á skepnuhruni og vandræðum. Nú er það vond sumarveðrátta og eyðilegging á heyfeng bænda, sem veldur sama öryggisleysinu og vandræðunum. Afleiðingar sumar- og vetrarharðinda geta orðið hinar sömu fyrir bændastéttina og sett bændur í sömu vandræði, og munu þeir því þiggja liðsinni jafnþakksamlega, hvort sem er heldur sumar eða vetur.

Hv. þm. Ísaf. var víst að spyrja, hvort við bærum þetta fram af hálfu Sjálfstfl. eða upp á eigin spýtur. Ég vil segja bessum hv. þm. það, að ég sé ekki, að þetta komi neitt málinu við. Þeir mega kalla það yfirboð, sem það vilja. En þeir, sem er verið að flytja þetta fyrir og hafa hina ríku þörf fyrir hjálp, þeir munu ekki spyrja, hvort þetta sé flutt af einstökum þingmönnum eða flokki, heldur hvort þetta sé réttmætt mál, sem eigi erindi í þingsal til úrlausnar eða ekki. En það er gamall ósiður í okkar landi að miða allt við flokka, en ekki þjóðarheildina; færi vel á því, að hv. þm. Ísaf. syngi þar einsöng í þessu máli; ég tek ekki undir.