18.11.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (2471)

91. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

Páll Zóphóníasson:

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. fari til fjvn. En áður en það fer þangað vildi ég segja um það nokkur orð. Og fyrst það. að ég hygg, að þetta bréf nái ekki nema að nokkru leyti til þess, sem þarf að takmarka, ef till. þessi verður samþ. Fyrst og fremst gekk þessi óþurrkur í sumar misjafnt yfir það óþurrkasvæði, sem talað er um í bréfinu, sem hv. flm. las og mér er vel kunnugt um. Og það eru héruð utan þess svæðis, sem hafa farið eins illa, ef ekki verr, út úr óþurrkinum heldur en nokkur hluti þessa svæðis, sem í bréfinu getur. Þar má nefna skagann milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, sem liggur bæði í Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu. Líklega hefir hvergi á óþurrkasvæðinu, sem hann talaði um, verið meiri óþurrkur en þar. Svo að vandinn að ákveða svæðið er miklu meiri en hv. fim. virðist ljóst. Þetta vil ég fyrst og fremst benda á, til þess að nefndin hafi það til athugunar.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að þegar átti á sinum tíma að meta, hvað þyrfti af fóðurbæti fram yfir venju. þá var gizkað á kringum 40 þús. sekki af síldarmjöli — þeir sem fóru hæst. Hv. flm. talaði um 20 kr. verð á sekk, sem er of lágt, því að þegar flutningur og mannahald er komið í viðbót, þá er pokinn orðinn á 25 kr.; verður það þá kringum milljón kr., sem fóðurbætirinn kostar. Hv. flm. ætlast til, að ríkissjóður og síldarverksmiðjurnar hlaupi undir bagga sameiginlega. Ef um lágmarksverðið eftir till. er að ræða, nemur ívilnunin 125 þús. kr., en með hámarksverði 175 þús. kr.

En hinsvegar er á það að líta, að þó að þessar tölur séu háar, þá er ástandið ekki verra en það, sem ég skal nú benda á. Á þessu svæði, sem gizkað er á, að mundi þurfa að kaupa 40 þús. sekki af fóðurbæti, er venja að setja á um 76 þús. dilka. Með því verði, sem er á þeim nú, munu þeir leggja sig upp og ofan á þessu svæði kringum 20 kr., og þá er komið meira en fyrir fóðurbætinn. Það eru því ekki öll líflömbin, sem þarf til að borga allan fóðurbætinn. Það er auðséð, að bændur geta ekki yngt upp sinn stofn í ár eins og venjulega. Fyrir fjvn. er því það að rannsaka, hvort ástæða sé fyrir ríkisvaldið að hlaupa undir bagga og hjálpa til þess, að bændur geti ferði. Óþurrkarnir hafa gengið misjafnt yfir þetta svæði, sem hér var nefnt. Við skulum gizka á, að bændur hafi sett á þann fóðurbæti, sem þeir eru búnir að fá — en þeir eru ekki búnir að fá eins mikið og áætlað var —, ef við gizkum á, að þeir hafi sett á hann og heyin, sem þeir hafa, þá sýnir reynslan samt, að þeir eru ekki búnir að drepa nema liðlega helming af líflömbunum, eða 40 þús. Annaðhvort hefir verið áætluð of mikil fóðurbætisþörf á þessu svæði eða bændur setja ógætilegar á í haust en venjulega. Þess vegna, þegar heildin er skoðuð, þá er þörfin ekki eins brýn eins og oft hefir verið látið í veðri vaka. Og ég held, að þessi till. verði að einhverju leyti að skoðast í því ljósi, að hún er flutt af landskjörnum þingmanni af svæðinu, sem gjarnan mun óska að verða kjördæmakosinn.