18.11.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (2473)

91. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

*Flm. (Eiríkur Einarsson):

Hv. síðasti ræðumaður krefst þess, að ég svari því afdráttarlaust, hvort Sjálfstfl. sem heild standi að þessari till. Þó að hann sé nú myndugleikans maður, þá finnst mér nóg að svara honum með því, að atkvgr. muni skera úr, hverjir standa að þessu máli. Það er gamall þjóðlegur íslenzkur siður. að þeir, sem standa hátt í embættum, standi hátt í rembingnum líka, og svo er um þennan hv. þm. Þetta álít ég nóg svar handa honum, því að ég tel, að það felist í till., eins og hún liggur fyrir, svar við því, sem hann virðist leggja höfuðáherzluna á, sem sé, að verið sé að skattleggja fátæka sjómenn á kostnað bænda.

Ég hefi sagt það áður, að svo langt sem mitt umboð nær til þess að flytja till., þá er það gert vegna brýnnar þarfar landbúnaðarins, sem ég tel, að bæta verði úr með sjávarafurðum, sem aflað er við strendur landsins og unnar eru í síldarverksmiðjunum. Vitanlega eru það sjómenn, sem afla þessara afurða, en þeir eru fæddir og uppaldir á landinu og stunda atvinnu á sjónum, svo að þetta þjónast og helgast hvort af öðru.