18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (2478)

91. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

Eiríkur Einarsson:

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á till. til þál., sem borin var fram af mér og hv. þm. V.- Sk. snemma á þessu þingi og síðan vísað til fjvn. Var hún um styrk til bænda á óþurrkasvæðinu síðastl. sumar. Er alllangt síðan umr. um málið hófust og till. var vísað til fjvn., en hv. n. hefir enn ekkert látið til sín heyra og ekki skilað áliti. Þar sem nú er hinsvegar komið mjög nálægt þinglausnum, vil ég beina því til hæstv. forseta, hvort hann sjái sér ekki fært að styðja að því, að hv. fjvn. skili af sér áliti, svo að málið geti fengið þinglega afgreiðslu. Ég uni því illa, að n. skuli ekkert láta til sín heyra, því að málið er mikilsvert og bændur þarfnast mjög þessa styrks af fyrrgreindum ástæðum. Hv. n. hefir skilað áliti um mál, sem sízt eru meira virði en þetta, og er nú kominn tími til að fletta af málinu þeim værðarvoðum, sem það hvílir undir hjá hv. n.