15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (2499)

84. mál, raforka frá Soginu til almenningsþarfa

Fyrirspyrjandi (Eiríkur Einarsson):

Ég kann hæstv. ráðh. þakkir fyrir hans ýtarlegu svör. Ég legg áherzlu á og vænti, að svo megi verða eins og hæstv. ráðh. drap á í ræðu sinni, að till. í þessu máli liggi nú bráðlega fyrir, svo að menn viti, hvers þeir eiga að vænta í þessu máli.

Ég hjó sérstaklega eftir því í ræðu hæstv. ráðh., hvaða kostnað mundi leiða af þessari rafveitu, og svo hver sparnaðurinn yrði á hinn bóginn. Þetta er mikilvægt atriði, en eftir því, sem hann upplýsti, þá verður jafnvægi komið þar á eftir 5 ár. Fyrstu árin verða útgjöldin auðvitað mest, meðan verið er að koma þessari nýbreytni á, og mun erlendi gjaldeyririnn þar verða æðibásfrekur, en sú er bótin, að það jafnast, þegar frá liður og menn geta farið að njóta þessara þæginda, þannig að það á að vera búið að jafna sig eftir á ár. Þetta er svo stórt atriði, að í krafti þess út af fyrir sig verður þetta meira en athugavert mál. Og ef Alþingi heldur áfram að starfa réttsælis og láta þau málefni verða rúmfrekust, sem mestu máli skipta, þá verður framkvæmd þessara málefna umsvifamikil á Alþingi. Það sést bezt, þegar tekið er til samanburðar t. d. hverahitamálefni Reykjavíkur samhliða rafvirkjuninni sjálfri, hvað það eru stór mál fyrir höfuðstaðinn, og ég fullyrði, að allir, sem vonazt geta eftir að njóta þar góðs af, hafa mikinn áhuga á þeim málum. En þó að mál séu góð, þá er hægt að draga fólk svo lengi, stundum af nauðsyn, stundum að nauðsynjalausu, á framkvæmdinni, að það sofni vegna hins langa biðtíma. Og þá er það hinna, forgöngumannanna sjálfra, að vekja fólkið af þeim dvala, sýna því fram á, hver er höfuðnauðsyn í hvívetna. Og eins og ég er sannfærður um, að margir eru vakandi í þessum málum, svo sem raun ber vitni, þá er þó ekki hins að dyljast, að þar eru einnig syfjaðir menn og jafnvel sofandi menn, sem ekki er svo auðvelt að vekja og láta þá vita, hvað sól er komin hátt á loft.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. var að tala um, að í ráði væri að koma upp sérstakri rafstöð á Selfossi, skal ég geta þess, að ég veit ekkert sérstaklega um þetta, en allur er varinn góður, og ef þetta er rétt, þyrfti að athuga það mál. því að það er hart, ef mistök ættu sér nú stað í þessum rafmagnsmálum, sem nú eru komin þetta langt á veg.