27.11.1937
Efri deild: 37. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (2507)

74. mál, mæðiveiki

*Fyrirspyrjandi (Brynjólfur Bjarnason):

Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefir gefið. Það hefir komið fram í fyrsta lagi, að mögulegt er að veita styrk úr bjargráðasjóði, en að hyggilegra er og meira í samræmi við l., að styrkurinn sé veittur til að koma upp varanlegum atvinnuvegum í viðkomandi héruðum. Spurningin er sú, hvort heimili bænda geti virkilega bjargazt á meðan verið er að framkvæma þessar ráðstafanir, að endurnýja bústofninn og koma upp nýjum atvinnugreinum. hvort þau geti bjargazt, eins og ástandið er framundan, næstu ár. Og þar af leiðandi vil ég taka fram, að það var ekki meining mín að gera fyrirspurn um, hvort slíkur styrkur gæti komið í staðinn fyrir aðrar ráðstafanir, og heldur ekki, hvort slíkur styrkur gæti orðið almennur og skipzt milli bænda yfirleitt, heldur hvort ekki væri nauðsynlegt, til þess að bjarga vissum heimilum, sem verst eru stæð, yfir örðugasta hjallann, að veita þeim slíkan styrk, og það var þetta, sem ég óskaði að fá upplýst, og að þessu leyti get ég ekki fyllilega gert mig ánægðan með svarið.