04.11.1937
Neðri deild: 19. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

55. mál, möskvar fisknetja og lágmarkslengd á fiski

Pétur Ottesen:

Ég var ekki við, þegar þetta mál var til 2. umr., og veit ekki, hvort hæstv. atvmrh., sem þetta mál heyrir undir, hefir látið fylgja því frekari grg. viðvíkjandi því atriði, að Alþingi freistaði þess, að fá Faxaflóa friðaðan. Mér virðist, að ákvæði þessa frv. hafi, hvað þessa möskvastærð snertir, enga þýðingu fyrir okkur Íslendinga, því ég ætla, að í því efni sé gengið nokkuð lengra hjá okkur um möskvastærð botnvörpu og dragnóta heldur en gert er í þessu frv. Þess vegna hefir það ekki þýðingu fyrir okkur, hvað það snertir. Hinsvegar virðist mér, að í þessu frv. felist fullkomin viðurkenning á því, sem við höfum haldið fram, að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til að auka friðun á þeim fiskimiðum, þar sem eins mikil ánauð er og við strendur Íslands.

Ef hæstv. atvmrh. hefði verið viðstaddur, hefði ég viljað beina máli mínu til hans um það, að stj. á hverjum tíma geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að halda vakandi og ýta undir þá rannsókn, sem gert er ráð fyrir, að fari fram í sambandi við fyrirhugaða friðun Faxaflóa, og að ekkert það verði gert hér innanlands, sem komi í bága við þá hugsjón, sem vakir fyrir um þá auknu friðun Faxaflóa, frekar en orðið er.