12.11.1937
Efri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

68. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Magnús Jónsson:

Ég hefi skrifað undir þetta nál., þar sem mælt er með, að þetta frv. verði samþ., vegna þess, að ég þykist vita, að að svo komna máli sé ekki um annað að ræða en að ná í fast lán til þess að greiða upp eða grynna á þeim lausaskuldum, sem safnazt hafa síðasta ár. Af því að meiri hluti þessara skulda er lán í Landsbankanum, er komið langt upp fyrir þá upphæð, sem lög Landsbankans heimila, að ríkissjóði sé lánað. Má segja, að það sé of lausu taumhaldi á bankanum um að kenna, að hann hefir lánað fram yfir það, sem lög heimila, að hann láni ríkinu. Ég geri ráð fyrir, að ekki sé annað ráð en að afla fastra lána til þess að komast úr þessu ófremdarástandi, en ég skrifaði undir með fyrirvara af því, að ég vildi láta það komast að hér, að ég tel það mjög illa farið, að svo er langt komið. Það er ekki langt síðan lán var tekið til þess að losna við lausaskuldir, sem þá höfðu safnast, og mun þá hafa komið í ljós eindreginn ásetningur um að láta ekki lausaskuldir safnast aftur. En ríkisbúskapurinn hefir gengið svo, að þetta hefir safnazt aftar á tiltölulega stuttum tíma, og mun því ekki full trú á því hjá öllum, að nú sé staðar numið á þessari braut, þó reynt sé til þess á ný með annari lántöku.

Önnur aths., sem ég vildi hreyfa, er það, hvort þetta lán, ef frv. verður samþ., er nægilegt til að hreinsa upp þær lausaskuldir, sem nú hafa safnazt fyrir. Eftir því sem ég veit bezt, munu þessar skuldir vera um 3 millj. og 3 hundruð þús. kr. Þar af munu 600 þús. vera skuld við Búnaðarbankann, sem Landsbankinn hefir að vísu endurkeypt víxil fyrir, svo er skuld við landhelgissjóð, um 200 þús., og fleiri skuldir, sem ég veit ekki, hvað eru háar, en varla eru undir 3 millj., svo að allt í allt munu lausaskuldir ekki vera fjarri 4 millj. kr. Það má sjá af þessu, að lausaskuldir hjá Landsbankanum þurfa að fara lækkandi síðustu mánuði ársins um eina millj. Tel ég rétt að heyra skýrslu hæstv. fjmrh. um það, hvort hann telur, að með þessari lántöku verði hægt að losa ríkissjóð við lausaskuldir sínar. Ég held að öllum sé ljóst, að þótt þetta lán verði tekið hér innanlands, þá er það neyðarúrræði, því þegar grípa þarf til svo stórrar lántöku, verður aldrei komizt hjá því, að mikill hluti hennar komi niður á því lánsfé, sem ná er í bönkunum, sem þó er takmarkað, og ekki er ósennilegt, ef einstakir menn kaupa nokkuð verulegt af þessum bréfum, þá gangi það út yfir sparifjárinnstæður, sem eru bezta starfsfé bankanna. Sama er að segja, ef bankarnir sjálfir kaupa eitthvað töluvert af bréfunum; það heftir líka starfsfé þeirra, þótt það sé e. t. v. ekki svo slæm ráðstöfun á fénu í sjálfu sér, ef bréfin bera sæmilega vexti, en þetta er mikil upphæð, sem þarna er bundin frá öðrum starfssviðum bankans, og það er að vissu leyti mjög óheppilegt.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál að svo komnu. Ég sé mér ekki fært að standa á móti þessari ráðstöfun, en ég geri ráð fyrir, að við fáum að heyra það stjórnarandstæðingar eftir á, er skuldir aukast, að við höfum verið því samþykkir, að ríkissjóður stofnaði til lausaskulda, með því að taka þátt í að samþ. hér á Alþ. slík frv. sem þetta, þótt við gerum það af því, að heppilegra er að koma þessum skuldum fyrir í föstum lánum. En ég vil mótmæla því, að við fylgjum frv. vegna þess, að við séum samþykkir þeirri skuldaaukningu, sem þar kemur fram.