12.11.1937
Efri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

68. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla að segja örfá orð út af málefninu sjálfu og ræðu hv. 1. þm. Reykv. Ég álít, að þótt grg. sé ekki löng, þá geri hún sæmilega grein fyrir ástæðunni fyrir frv., sem sé þeirri, að enda þótt undanfarið hafi verið fyrirhugað, að tekjur ríkissjóðs af tollum og sköttum skyldu nægja fyrir útgjöldum og afborgunum, þá hefir ekki orðið svo, og afleiðingin því orðið sú, að um leið og afborganir hafa lækkað, hafa lausu skuldirnar hækkað. Ég er alveg samþ. því hjá hv. 1. þm. Reykv., að það er miður, að svo er komið, og það væri mjög æskilegt að halda þeirri stefnu, sem menn ætluðu sér, að láta föstu lánin lækka án þess að lausaskuldir söfnuðust. Ástæðan fyrir því, að það hefir ekki tekizt, er tvennskonar. Önnur er sú, að tekjur ríkissjóðs reyndust lægri en menn gerðu sér vonir um, einkum á árinu 1936, og hin er sú, að útgjöld hafa fallið á ríkissjóð, sem enginn gat séð fyrir, og eru það aðallega á þessu ári útgjöld vegna fjárpestarinnar. Ég var að athuga hversu mikið hefir verið greitt vegna hennar á þessu ári, og mun láta nærri, að það séu 660 þús. kr. Þar af hafa fengizt 100 þús. ár bjargráðasjóði, og mikið er ógreitt enn vegna hennar. Það er óhugsandi, að hægt sé að gera ráðstafanir fyrirfram gegn slíkum skuldum, sem enginn getur séð fyrir. Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í tilefnið til frv.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að lausaskuld við Landsbankann er komin upp fyrir það, sem lög heimila að lána ríkissjóði. En það er hægt að leggja tvennskonar skilning í það ákvæði laganna; að þótt seðlabankanum sé ekki heimilt að lána nema ákveðinn hluta af stofnfé sínu, þá má álíta, að sparisjóðsdeildinni sé heimilt að hlaupa undir bagga með ríkissjóði, enda væri fjarstæða, að úr þeim sameiginlegu sjóðum landsmanna, sem í Landsbankanum eru, væri takmarkað með lögum, hvað mætti lána ríkissjóði, sem á Landsbankann. Lít ég svo á, að þetta ákvæði eigi aðeins við seðlabankann. Að vita Landsbankann fyrir að hafa ekki lokað reikningi ríkissjóðs eða neitað honum um þetta lán, held ég, að ekki sé hægt að gera með rökum, þar sem ríkissjóður er bezti viðskiptavinur bankans, og hann fær hvern eyri af sínum skuldum við hann greiddan. Ríkissjóður hefir þá möguleika til að fá fé upp í skuldir sínar við bankann, sem enginn annar hefir, sem sé möguleikann til að leggja skatta og tolla á landsmenn. Ég vil í þessu sambandi minna á, að ef ætti að taka upp þá aðferð gagnvart ríkissjóði að stöðva lán til hans, þá eru aðrar stofnanir, sem hafa viðskipti við bankann, sem frekar er ástæða til að beita þeim við, enda lagði hv. þm. ekki neina áherzlu á þetta atriði, þótt hann dræpi á það. Ég ætla ekki heldur að .fara lengra út í það, enda geri ég ekki ráð fyrir, að menn fari að vita Landsbankann fyrir þetta.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði um upphæð lausaskuldanna. Ég gaf upp á fundi í hv. fjhn. Ed., að þær væru rúml. 4 millj. kr., en ég get ekki sagt upp á hár, hvað þær verða um áramót, en mér þætti ekki ólíklegt, að þær lækkuðu um eina millj. til áramóta. Mér þykir rétt að taka það fram, að þótt á næsta ári tækist að fá þetta innanlandslán, sem ég dreg í efa, að takist á einu ári, þá yrði ríkissjóður samt sem áður að hafa yfirdráttarviðskipti við Landsbankann. Mun láta nærri, ef ríkissjóður greiðir upp skuld sína um áramót, sem ég geri ekki ráð fyrir, að verði, muni hann samt þurfa að fá um 2 millj. kr. lán hjá bankanum hluta af árinu. Þetta stafar af því, að útgjöld ríkissjóðs eru hlutfallslega meiri fyrri hluta ársins, en tekjurnar mestar seinni hluta þess , svo jafnvel þótt ríkissjóður sé rekinn greiðsluhallalaus, verður hann að geta fengið nokkuð há yfirdráttarlán á árinu, sem miðist við greiðslu um áramót. Lausaskuldir þessa árs eru til komnar af því, að gert var ráð fyrir, að tekjur síðari hluta ársins nægðu til allra greiðslna, en svo reyndist ekki, þar sem skellir eins og sá, er orðið hefir af borgfirzku veikinni, eru ófyrirsjáanlegir.

Hv. 1. þm. Reykv. kvaðst álíta það mikið neyðarúrræði að taka þetta lán innanlands. Ég ber ekki á móti því, að æskilegra væri að þurfa ekki að taka það. En ef vel gengur að fá lánið og lánsmarkaðurinn í landinu leyfir, að seld séu ríkisskuldabréf, þá sé ég ekkert óheilbrigt við það, þótt ríkissjóði takist ekki að lækka skuldir sínar en taki lán með sölu ríkisskuldabréfa.

Þótt tekjur ríkissjóðs nægðu til að lækka skuldir hans um ½ millj. árlega, tel ég alveg eins æskilegt, að því fé væri varið til að standa á móti halla þeim, sem slæmt árferði hefir í för með sér öðru hverju. Reynslan er sú, að þegar versnar í ári, tekst Alþ. ekki að breyta fjárlögunum svo fljótt til samræmis við yfirstandandi tímabil, að enginn halli verði á þeim.

Það er auðvitað, að það fé, sem tekið yrði í þetta lán, skapast ekki á ný, þótt ríkisskuldabréfin yrðu boðin út, en eitthvað af því mundi koma í umferð annarsstaðar, ef það gengi ekki allt til innkaupa. En ég hefi gert mér vonir um, að hægt yrði að selja nokkuð af þessum bréfum til vátryggingarstofnana, sem lána mikið fé árlega. Um möguleika til að selja bréfin get ég ekki sagt sem stendur, en ég vil láta það koma fram, að þegar síðast var tekið innanlandslán, sem var 3 millj., var samið um það við bankana, Landsbankann og Íslandsbanka, að þeir tækju að sér að sjá um sölu bréfa fyrir 1½ millj. hvor, og keyptu sjálfir það, sem þeir gætu ekki selt. Mun um 1 millj. af því hafa selzt, en bankarnir keypt 2 millj. sjálfir, en sumt seldist síðar. Enn hefir enginn samningur verið gerður við bankana um þessa lánveitingu, en ég geri ráð fyrir, að sem nánust samvinna verði við þá um sölu bréfanna, og ég geri sem sagt ráð fyrir, að vátryggingarfélögin og fleiri kaupi eitthvað. Ég hefi ekkert sérstakt annað að taka fram í sambandi við málið sjálft.

Hv. 1. þm. Reykv. virtist óttast, að þeir sjálfstæðismenn fengju að heyra það eftir á, að þeir væru með því að auka skuldir ríkissjóðs, ef þeir greiddu atkv. með þessu frv. Ég skal fullvissa hann um, að ég mundi aldrei minnast á, hverjir hefðu greitt atkv. með þessari lántöku eða öðrum líkum, en ég skal geta þess, að þetta lán er tekið til að greiða með útgjöld, sem e. t. v. ekki allir hv. þm. hafa verið meðmæltir, en sumum yfirgnæfandi meiri hl., og nokkrum hluta þeirra hafa allir þm. verið meðmæltir, eins og t. d. útgjöldin vegna mæðiveikinnar, sem eru allmikil, þótt ekki sé nema litill hluti þeirra greiddur enn.