15.10.1937
Sameinað þing: 3. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

1. mál, fjárlög 1938

Magnús Jónsson:

Fjárlagafrv. það, sem nú hefir verið lagt fyrir Alþingi, er, eins og vænta mátti, nálega óbreytt frá því frv., sem lagt var fyrir þingið í vetur.

En þó er það ekki alveg eins, og það er vert að taka eftir því, þótt lítið sé, að munurinn liggur í nokkurri hækkun, svo að enn hefir hæstv. fjmrh. tekizt að leggja fyrir þetta hv. Alþingi hæsta fjárlagafrv., sem fram hefir komið á Íslandi. Gjöld á rekstrarreikningi eru kr. 15338940 á móti kr. 15090557 í vetur, eða kr. 248383 hærri en þá. Þetta er að vísu ekki mjög mikið, en það sýnir gróandann, sem er í eyðslunni, að þessa fáu mánuði, sem frumvarpið hefir legið í vermireit stjórnarinnar, hefir það þó skotið þessum frjóanga, upp á nærri því hálft 3. hundrað þúsund krónur. — Hefði það einhverntíma þótt skildingur, og þetta hefir skeð án þess svo að segja nokkur hafi hreyft við því. Áætlaður rekstrarafgangur hefir lækkað úr 750483 kr., í 487100 kr., eða um 263383 kr. — Á sjóðsyfirliti hefir jafnaðarupphæðin einnig færzt upp, úr 16715,6 þús. í 16988,9 þús. eða h. u. b. 273 þús. Og í stað þess að í vetur var gert ráð fyrir, að ríkið vantaði 437,7 þús. krónur til þess að geta innt af hendi allar greiðslur, sem falla eiga til á árinu 1938, þá er nú gert ráð fyrir, að á vanti 726 þús. kr., þegar taldar eru með umsamdar afborganir lána, en þær verður að inna af hendi engu síður en annað. Og nú hefir ráðh. upplýst, að fallið hafi niður ein upphæð, svo að það, sem á vantar, sé raunverulega um 900000 kr.

Allt stefnir þetta í sömu áttina eins og verið hefir undanfarandi. Þar er sífelld hækkun, hvort sem litið er á jöfnuð rekstrarreiknings eða sjóðsyfirlits. Frá 1932 hefir þessi hækkun á rekstrarreikningi komizt úr 10494,5 þús. upp í 15826 þús. í þessu frv., eða liðlega 50% hækkun á 7 árum. En á sjóðsyfirliti nemur þessi hækkun vitanlega talsvert meiru, því að ein aðalhækkunin er á afborgunum skulda. Þar er hækkunin úr 10992,4 þús. í 16988,9 þús. — Í tíð núverandi stjórnar er þessi hækkun jöfn og viss frá ári til árs. Núv. hæstv. fjmrh. hefir alltaf, á hverju fjárlagaþingi, orðið að bera fram hæsta fjárlagafrv., sem sézt hefir á Alþingi. Hann bar því við, þegar hann bar fram sitt fyrsta fjárlagafrv., að hækkunin stafaði af því, að nú væri allt rétt áætlað. En þessi afsökun getur ekki gilt um hækkanir frá ári til árs. — Þar verður að horfast í augu við þann beiska sannleika, að fjármálunum er þannig stjórnað, að sífelld hækkun hefir verið, er og verður með hverju nýju frumvarpi, hækkun langt umfram eðlilega hækkun vegna mannfjölgunar í landinu. Það leiðir af stjórnarstefnunni.

Ef maður á hinn bóginn vill fá samanburð við fjármálastjórnina meðan aðrir réðu, þá verður að reikna fjárlagafrv. dálítið um. Ef þetta fjárlagafrv. væri sett upp eins og gert var áður, myndi jafnaðarupphæð þess vera um 20,3 millj. króna, á móti fjárlagafrv. fyrir 1925, sem nam 7245,6 þús., og er það ekki nein smáræðis saga um fjármálastjórn landsins, sem þarna hefir gerzt á þessu stutta tímabili.

Ég veit ekki, hvort menn gera sér í raun og veru fullkomlega ljóst, hvað það er, sem hér er að gerast. — Menn tala um síaukna eyðslu, og það með réttu. En það er annað, miklu afleiðingaríkara, sem hér er að ske, og það er þetta, að með hinum síhækkandi fjárlögum er ríkið að draga undir sig meira og meira af starfsfénu í landinu. Það er þjóðnýting sósíalista, sem hér er verið að framkvæma. Einstaklingarnir eru látnir afhenda meira og minna af eignum sínum og aflafé til ríkisráðstöfunar. Fénu er dælt úr rekstri einstaklinganna í rekstur ríkisins. Og menn verða nú að stinga við fæti og athuga, hvorum þeir treysti betur til þess að ráðstafa fé sínu, sér sjálfum eða ríkinu. Báðir geta ekki ráðstafað sama fénu. Verði svona haldið áfram, líður ekki á löngu þar til íhlutun einstaklinganna um fjármál er orðin hverfandi lítil. Þeir verða aðeins vinnudýr, sem smala fénu, en verða svo að afhenda mestan part þess því opinbera til ráðstöfunar. — Það er dálítið neyðarlegt, að það, sem sósíalistum er neitað um þegar þeir koma ógrímuklæddir, því er ausið í þá báðum höndum, þegar þeir birtast í sauðargæru skattalöggjafarinnar.

Ég vil þá næst víkja að hag ríkissjóðs, eins og hann er nú. — Öll undanfarin ár hafa sýnt afgang á rekstrarreikningi fjárlagafrumvarpanna, og ætti það að boða síaukna auðsæld.

En er þá hagurinn raunverulega góður? Ekki verður það sagt um sjálfan ríkissjóðinn, ríkiskassann. Hann á nú ekkert handbært fé, nema það sem hann fær lánað jafnóðum. Ríkisféhirðir tekur það fé, sem greiða þarf, út úr reikningsláni í Landsbankanum, og er nú sú skuld, að ég bezt veit, nokkuð hátt á 4. milljón króna. En auk þess skuldar svo ríkissjóður Landsbankanum víxla o. fl., sem nemur ekki fjarri milljón króna. Það mun vera þetta, sem formaður bankaráðs Landsbankans átti við, þegar hann sagði í blaðagrein í sumar, að ríkissjóður hnígaði upp lausaskuldum. Og hve heilbrigt þetta er, má sjá af því, að í Landsbankalögunum er seðlabankanum bannað að lána ríkissjóði annað en skyndilán, lengst til 3 mánaða og aldrei meira en 1/4 af stofnfé bankans, enda skal jafnan greiða slík lán upp við áramót. En nú er bein yfirdráttarskuld ríkissjóðs um það bil jöfn og allt stofnféð, og hefir staðið meira en 3 mánuði og verður víst tæplega greidd upp fyrir áramót. Sennilegra að hún haggist ekkert.

Það getur verið, og er vonandi, að þessi tími sé eitthvað óheppilegur, tekjur ekki komnar inn og annað slíkt. En þess ber þá líka að minnast, að mjög stórar greiðslur af erlendum lánum eiga að fara fram síðari mánuði ársins, svo sem af dönskum lánum o. fl. Auk þess er nýfarin fram greiðsla vegna enska lánsins frá 1930, sem mun hafa tæmt alla tekjumöguleika í bráð, svo að það verður víst því miður ekki um að ræða á þessu ári annað en að halda áfram að lifa á lánsfé og bónbjörgum.

Ég vil svo víkja að hag þjóðarinnar, eins og hann kemur fram í greiðslujöfnuðinum út á við. Og ég geri það sérstaklega vegna þess, að hæstv. fjmrh. lagði. á þetta atriði megináherzluna í fjárlagaræðu sinni á þinginu í vetur. Hann sagði þá, að hann hefði í fjárlagaræðu 1934 sett þetta mál, greiðslujöfnuðinn við útlönd, sem stefnumark sitt. Og nú taldi hann þessu marki náð með afkomu ársins 1936. Hann segir í niðurlagi ræðunnar: Allt hefir verið látið víkja fyrir þeirri nauðsyn að ná greiðslujöfnuði við útlönd, og það með þeim árangri, að þrátt fyrir lokun Spánarmarkaðsins hefir greiðslujöfnuður náðst !

Þegar ráðherrann sagði þetta, hillti undir kosningar framundan, og þetta var nú helzti fjármálasigurinn, sem hann gat komið með.

En hvað var nú til í þessu? Ég hefi svo oft lýst því áður í ræðu og riti, og ég skal ekki endurtaka það hér. En meðal annars var þessari útkomu náð með því að sleppa alveg úr reikningnum því, að vörubirgðir í landinu höfðu minnkað um margar milljónir, og auk þess var það á allra vitorði, að innflutningur til landsins hafði beinlínis verið hindraður til bráðabirgða til þess að láta útkomuna um nýárið skarta sem fegurst í sigurmerki fjármálaráðherrans. — Þessi sannleikur, sem borið var á móti þá í svip, kom mjög áþreifanlega í ljós í innflutningi næsta, þ. e. yfirstandandi árs. Þetta sést í síðustu innflutningsskýrslu, sem nær til sept. loka þ. á. Þar er innflutningurinn orðinn 40180220 kr. móti 31033180 á sama tíma í fyrra, eða yfir 9 millj. og 100 þús. kr. hærri. Í stað þess að á þeim tíma í fyrra nam útflutningurinn nærri 2 millj. og 200 þús. kr. meira en innflutningur, er þessi jöfnuður nú óhagstæður um 200 þús. krónur. Útkoman er því h. u. b. 3½ millj. lakari nú en þá, þrátt fyrir hin geysilega hörðu tök innflutningsnefndar, sem ráðh. sagði, að alltaf væri verið að herða á. Enda er nú orðin svo áberandi vöruþurrð, að það er jafnvel sagt, að nú sé farið að verða lítið úrvalið af þeim vörum, sem stjórnin hefir annars séð bezt yfir, en það er vín og tóbak. Fiskbirgðir hafa og enn minnkað síðan í fyrra.

Hinn falski greiðslujöfnuður hæstv. fjmrh. hefir því kannske gert sitt gagn fyrir Framsfl. í kosningunum — en hann hefir því miður lítið gagnað þjóðinni sjálfri, frekar en annað, sem ekki er sannleikanum samkvæmt. Þetta ár hlýtur að koma út með greiðsluhalla.

Hagur bankanna út á við er líka skýrt dæmi um þetta sama. Þrátt fyrir mikinn og verðmætan útflutning síldarafurða er greiðsluhagur bankanna nú afarerfiður. Skuldir þeirra eru hærri en á sama tíma í fyrra, og er lánsþol þeirra spennt upp að hámarki. Þetta finna þeir vel, sem yfirfærslur þurfa að fá. Það hefir víst sjaldan verið erfiðara en nú. Nýútkomin reglugerð um það, að mönnum sé bannað að hafa íslenzka seðla með sér úr landi, nema mjög takmarkað, virðist og benda á, að aukin brögð séu að því, að menn grípi til þess örþrifaráðs, að fara með íslenzka seðla úr landi og selja þá þar fyrir hvað sem fyrir þá fæst.

Þetta er nú það Paradísarástand, sem hæstv. fjmrh. þóttist vera búinn að skapa, þegar hann stóð hér á þessum stað í vetur og tilkynnti þjóðinni fyrir kosningarnar, að greiðslujöfnuði væri náð!

Þá kem ég að skattaboðskap hæstv. fjármálaráðherra.

Þegar hinum stórkostlegu nýju sköttum var bætt á þjóðina 1934 og 1935, var látið í veðri vaka, að lengra yrði ekki farið á þeirri braut. Enda mun og flestum hafa fundizt, að nú væri svo komið, að landamærunum væri náð. Lengra væri ekki hægt að komast. Tekju- og eignarskatturinn varð svo hár, að þegar aukaútsvar bættist við, gat það komið fyrir, að fyrirtæki yrðu að borga meira en allan ábata sinn í þessi tvenn gjöld. Gamansamur náungi þóttist hafa reiknað út, að ef Íslendingur, sem hefði 7000 króna tekjur, fengi Nobelsverðlaunin, sem munu vera um 275000 kr., þá yrði hann að borga af þeim í tekjuskatt og aukaútsvar 1300 kr. meira en öll verðlaunin! Tollar voru gífurlega hækkaðir og ný gjöld upp tekin.

Að vísu hefir því jafnan verið haldið fram af hæstv. fjmrh. og blöðum hans, að tollar og skattar hafi þrátt fyrir þetta ekki hækkað, þ. e. að svo eymdarlegur sé hagurinn orðinn, að allar þessar hækkanir verði að engu. En þetta hefir nú verið kveðið niður, og það af hinum opinberu verzlunarskýrslum hagstofunnar, þar sem birt er skrá um hæð tollanna miðað við innflutninginn.

Ef reiknað er í 5 ára tímabilum, frá 1920 (ársbyrjun 1921), verða tölurnar þessar, er sýna, hve mörgum af hundraði tollarnir nema af verðmæti innflutningsins:

1921–1925 7.2 %

1926–1930 10.1 %

1931–1935 13.7 %

Síðasta tímabilið, sem felur í sér það, sem til er af stjórnartímabili núverandi stjórnar, eru því tollarnir orðnir nærri helmingi hærri, miðaðir við verðmagn innflutningsins, en þeir eru tímabilið 10 árum fyrr.

En sé þetta reiknað eftir árum frá 1929, verða tölurnar þessar:

1929 10.0%

1930 10.8%

1931 13.3 %

Hér er því jöfn hækkun. Svo koma millibilsárin:

1932 12.4%

1933 13.4%

Hér lækka þeir fyrst, en ná svo liðlega því sama hlutfalli og 1931. Hlutfallið stendur sem sé h. u. b. í stað þessi ár.

Svo kemur útkoma núverandi stjórnar. Ef reiknað er aftur frá 1933:

1933 13.4%

1934 13.7%

1935 15.5%

Hér fer núverandi stjórn að ná sér á strik. Því miður ná ekki verzlunarskýrslur lengra. En séu teknar bráðabirgðatölur um innflutninginn 1936, og til samræmis bráðabirgðatölur um tolltekjurnar fyrir 1936 úr fjármálaræðu Eysteins Jónssonar, sem ættu að vera sambærilegar, verður hlutfallið það ár:

1936 16.75%

Hér er því í tíð núv. stjórnar sönnuð hækkun úr 13.7 í 16.75.

Eftir þetta bjuggust menn við friði. Ef jafna þurfti halla á búskapnum, lá ekki annað fyrir en að draga úr gjöldunum. — Þetta var gert með samstarfi í fjárveitinganefnd milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í nefndinni. Þá tókst nefndinni, án þess að koma nokkursstaðar tilfinnanlega við, að lækka gjöldin um h. u. b. 1 millj. kr.

En þá skeði það, sem er svo ákaflega nöpur lýsing á ástandinu: Framsóknarmenn láta neyða sig til svo gífurlegra nýrra útgjalda, að ekki aðeins fyllti upp í þetta milljón króna skarð, sem höggið hafði verið, heldur nam annari milljón í viðbót! Og þetta var svo reynt að bæta upp með gamla laginu, að herða enn á skattaklafanum.

En sem sagt, eftir það þóttust menn vissir um, að lengra yrði ekki gengið. Og jafnvel fjmrh. mun þá hafa verið þeirrar skoðunar, að lengra mætti ekki ganga.

Ýmsum mun því hafa brugðið nokkuð í brún, þegar flokksþing Framsfl. í febrúar síðastl. steinþagði um þetta mál. Þar mátti ekki með einu orði mótmæla nýrri hækkun skatta. Og svo á miðju sumri birtist hér í dagblaði þessa flokks grein eftir einn af forstjórum S. Í. S., þar sem talið er nauðsynlegt að leggja á stórkostlega nýja skatta. En það er alkunnugt, að málefnum ýmsum virðist ekki síður stjórnað þaðan en frá þeim stað, þar sem stjórnarskrá landsins gerir ráð fyrir að völdin séu.

Og nú kemur þetta á daginn. Ráðherrann boðar nýja skatta. Enn á að vega í hinn sama knérunn. Það verður að vísu ekki sagt um það með vissu, hve miklu skattabyrði þjóðarinnar nemur nú samanborið við heildartekjur hennar. En sé miðað við tekjuhlið fjárlaganna og bætt við hana gjöldum til bæjar- og sveitasjóða, sem sennilega mun mega telja eitthvað á í milljón, þá er líklega ekki fjarri því, að það opinbera taki þriðja hvern pening, sem þjóðin aflar.

Hvernig er nú þjóðin viðbúin nýjum sköttum upp á milljónir?

Þeir svara fyrir sig bændurnir, þar sem fjárpestin hefir geisað og murkað niður bústofninn — og reyndar hinir líka, sem sjá hilla undir þennan voðagest. Þeir svara fyrir sig á Suðurlandi og Vesturlandi og parti af Norðurlandi, sem fá þessa kreppuhjálp rétta að sér ofan á tíðarfarið í sumar.

Þeir svara fyrir sig útgerðarmennirnir, sem eiga nú að kaupa allt miklu hærra verði, olíur, veiðarfæri, salt, kol og hvað sem er, en hafa ekki von á öðru á móti en sífellt þrengri markaði og lækkuðu fiskverði. Og ofan á það verzlunaránauð, sem varnar að selja þá einu vöru, sem nú virðist útgengileg.

Þeir svara fyrir sig mennirnir, sem lifa á kaupgreiðslum og sjá vaxandi dýrtíð á öllum sviðum naga utan úr hverri krónu, sem þeir fá handa milli.

Það er alveg áreiðanlegt, að aldrei hafa nýir skattar verið boðaðir með gífurlegri órétti en nú. Að lokum verð ég svo að minnast ofurlítið á pólitíska ástandið í landinu. Ekki af því, að ég ætli mér að gera þetta að pólitískri ræðu, enda er nú ræðutíma mínum langt komið, heldur af því, að pólitíska ástandið og horfurnar eru mjög mikilsvarðandi þáttur í fjármálum framtíðarinnar.

Ég sýndi fram á það í upphafi ræðu minnar, að hin sífellda hækkun fjárlaganna og þar með hækkun skattanna stafaði af fjármálastefnu, sem alltaf hlyti að hafa þetta í för með sér. Haldi henni áfram, þá er ekki neinum áfanga náð með þessu fjárlagafrumvarpi og þessari skattahækkun. Það heldur áfram, alveg óstöðvandi, af því að takmarkið er fullkominn dauði einstaklingsrekstrar í atvinnulífinu. Hækkun fjárlaga og skatta er leið til þjóðnýtingar og því ekkert annað en rökrétt stefna sósíalista hér sem annarsstaðar

Þetta er þjóðin farin að sjá, og hún vill ekki þetta. Ef kosningarnar síðustu sýndu nokkuð, þá sýndu þær vilja þjóðarinnar í þessu efni. Hún kaus þá, sem hún treysti til að vera á móti þjóðnýtingu. Hún kaus Sjálfstæðisfl., þó að kosningafyrirkomulagið yrði þess valdandi, að hann fékk ekki þingmannatölu sem svaraði fylgi hans. Og hún jók fylgi Framsfl., af því að hún trúði því, sem forsætisráðherra þess flokks lýsti yfir um þetta efni. .

Hinir tveir stjórnarflokkar skildu að skiptum á síðasta þingi, út af þjóðnýtingunni. Forsrh. sagði við það tækifæri m. a., eftir að hann hefir nefnt þjóðnýtingarkröfu Alþfl.: „Tel ég, að Alþfl. hafi gengið út af þeim samstarfsgrundvelli, sem gilt hefir milli Framsfl. og Alþfl.“. Og síðan segir hann: „En það má vera Alþfl. ljóst, samkv. margyfirlýstri stefnu Framsfl. og samkv. hinni glögglega mörkuðu afstöðu á síðasta flokksþingi framsóknarmanna, að Framsfl. gengur ekki inn á framkvæmd þeirra mála, sem eingöngu heyra til sérstefnu Alþfl. — þjóðnýtingarstefnuna“. Og enn bætir hann við: „Og þegar Alþfl. ber slík sérstefnumál sín fram hér á Alþingi og krefst þess, að þau verði samþ., þá hlýtur hann að gera sér ljóst fyrirfram, að það leiðir til samvinnuslita við Framsfl.“. — Ræðu sína endaði hæstv. forsrh. svo með upphrópun til flokksmanna sinna um allt land, að vera viðbúnir kosningum. Þetta: Hinn fullkomni skilnaður við sósíalistana út af þjóðnýtingarkröfunni var kosningamál Framsóknar.

Hæstv. atvmrh. tók svo af skarið af sinni hálfu um þetta, m a. með þessum ályktunarorðum: „Af þeim ástæðum, sem ég nú hefi greint, verð ég fyrir hönd Alþfl. að tilkynna hæstv. forsrh., að Alþfl. getur ekki haldið áfram samstarfi á Alþingi við Framsfl. né samvinnu við hann um stjórn landsins, að óbreyttri þessari afstöðu Framsfl.“

Nú er það alþjóð kunnugt, að flokkarnir héldu samt áfram „samvinnu um stjórn landsins“, sem hæstv. atvmrh. svo kallaði. Og nú er það einnig orðið alþjóð kunnugt, að samstarfið hefir komið fram í því litla, sem gerzt hefir á Alþingi. Formaður Alþfl. hefir eins og áður verið kosinn í mestu virðingarstöðu Alþingis af framsóknarmönnum og ráðherrarnir sitja hlið við hlið í stólum sínum.

Hvað hefir hér gerzt bak við tjöldin, og hvað er að gerast?

Hnefahögg forsætisráðherra í borðið frammi fyrir þjóðinni í þinglokin síðast sópaði fylgi að Framsfl. Var þá samtímis hin hönd hans að strjúka vanga sósíalistanna í laumi? Þetta mun bráðlega koma í ljós.

En sé það svo, að Framsfl., sem er kosinn upp á samvinnuslit hans við sósíalista, ætli sér að gera að nýju bandalag við þá — þá verður það skýlaus krafa, að hann gangi til kosninga upp á þá stefnu. Þjóðin, sem lét í ljós velþóknun sína á samvinnuslitunum, á að fá að segja skoðun sína á hinni nýju samvinnu við þennan sama flokk.

Hér er m. a. fjármálaheilbrigðin í veði. Fjárhag landsins verður aldrei stjórnað, meðan hin grímuklædda þjóðnýtingarstefna er við völd. Það þýðir lítið að mótmæla þjóðnýtingu á flokksþingum, ef sama stefnan er látin sigla þöndum seglum grímuklædd.

Síðustu kosningar sýndu það alveg skýlaust, að mjög mikill meiri hluti þjóðarinnar er andvígur þjóðnýtingu, andvígur því, að atvinnuvegir landsmanna séu mergsognir til þess að ríkið veiti því fé í þá hluti,sem að vísu eru góðir, en þó gagnslausir, nema blómlegt atvinnulif beri þá uppi.

Þessum skýlausa þjóðarvilja verður hið nýkosna Alþingi að svara.