12.11.1937
Efri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

68. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki blanda mér mikið inn í þessar umr. Aðeins minnast nokkurra atriða, sem ég tel vanta frekari upplýsingar um. Ég sakna þess t. d., að ekki skuli hafa komið fram upplýsingar um það, til hve langs tíma lán þetta á að vera, og ég hefi ekki fundið neitt í nál. eða heyrt í umr. um það, hve vextirnir eigi að vera háir. Þá stendur og hvergi neitt um það, hvort gefa eigi út skuldabréf fyrir láninu, en það kom aftur fram í ræðu hæstv. fjmrh., að það sé tilætlunin, og að bréfin eigi að vera til sölu innanlands, en aftur á móti stendur hvergi neitt um það, hvort bjóða eigi bréfin út fyrir „pari“ eða með afföllum. Um þessi atriði vildi ég gjarnan fá upplýst hjá hæstv. ráðh., því að ég skil ekki, að honum finnist undarlegt, þó að við, sem eigum að samþ. þessa lántöku, viljum fá þetta og annað eins upplýst, og það því fremur þegar strax á að fara að vinna að útboði lánsins eftir næsta nýár.

Þá hjó ég eftir því, að það væri á þessu stigi málsins nokkuð á annan veg með þetta fyrirhugaða lán en ríkislánið 1920, hvað undirtektirnar snerti. Nú væri ekkert tryggt með það, hvernig þær væru: En ég hygg, að flestir séu á einu máli um það, að daufar undirtektir með kaup á bréfunum geti haft miður góð áhrif á lánstraust ríkissjóðsins út á við. Annars hygg ég líka, að það muni vera háttur flestra fjmrh., sem bjóða út ríkislán, að vera búnir að tryggja það fyrirfram, að útboð lánsins verði engin fýluför.

Hvað snertir þessa lántöku og lántökur ríkisins yfirleitt, þá lít ég svo á, að það sé réttara að taka frekar innlend lán en útlend, því að hin erlendu láu geta orðið hættuleg, a. m. k. þegar þau verða að eyðslueyri. Það er því, þó ekki sé nema af þessum ástæðum, ekki einskisvert, að sparifé safnist innanlands.

Mér skilst, að allir séu á einu máli um það, að leitt sé, að til þessarar lántöku skuli þurfa að koma. Það hefði því verið ólíkt skemmtilegra, ef. fjárlög síðari ára hefðu verið þannig úr garði gerð, að tekjur og raunveruleg útgjöld hefðu staðizt á. Ég vil því nota tækifærið og beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort hann vilji stuðla að því á þessu þingi, að fjárl. fyrir næsta ár verði afgr. þannig frá þinginu, að nægilegur afgangur verði á rekstrarreikningi til þess að standast allar greiðslur ríkissjóðs vegna afborgana og vaxta af skuldum. Annars er það óneitanlega dálítil kaldhæðni örlaganna, að nú skuli svo komið, að fjáraukalögin fyrir 1935 skuli vera hærri en fjáraukalögin fyrir 1920–21, sem kölluð hafa verið af hæstv. ráðh. og flokksbræðrum hans „fjáraukalögin miklu“. Til þess að ná því takmarki, að tekjur og gjöld fjárl. standist á, er að sjálfsögðu bezta ráðið að áætla tekjurnar varlega, samhliða alhliða sparnaði á útgjöldum ríkissjóðsins.