12.11.1937
Efri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

68. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. 9. landsk. spurði um ýms atriði viðvíkjandi þessari fyrirhuguðu lántöku. Hvort lánið væri hugsað til langs tíma, hverjir vextirnir myndu verða og ennfremur, hvort tryggt væri, að bréfin gengju út. Þessu er því til að svara, að ég hefi ekki ákveðið neitt um þetta. Lánstímann hefi ég aðeins hugsað mér 20 ár, eins og innlenda lánsins frá 1920. Um vextina get ég ekkert sagt að svo komnu, því að það getur verið töluvert vafamál, hverjir þeir ættu að vera. Hvað þetta atriði snertir, þá mun ég að sjálfsögðu ráðfæra mig við bankana um það, og einnig við fjhn. Alþingis, ef Alþingi skyldi eiga setu þegar endanlega verður frá þessu gengið. Sama er að segja um það, hvort bréfin verða boðin út með afföllum. Annars er það ekki venja að setja í slík lög sem þessi ákvæði um vexti og lánstíma.

Hitt tel ég aftur sjálfsagt, að tryggja nokkra sölu á bréfunum áður en þau verða boðin út, og það af þeirri ástæðu, sem hv. 9. landsk. kom inn á. Annars hefir það líka vakað fyrir mér að skipta útboði þessa láns niður á tvö ár, því að hér verður að fara að með fullkominni gætni.

Þá spurði hv. 9. landsk., hvort ég vildi vinna að því að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög fyrir 1938. Þessari fyrirspurn er ekki mikill vandi fyrir mig að svara, þar sem ég tók það skýrt fram, þegar ég lagði fjárl. fyrir þingið, að að því yrði að vinna, að fjárlögin yrðu greiðsluhallalaus, en slíkt næst að sjálfsögðu ekki, nema með því móti, að töluverður tekjuafgangur verði áætlaður til þess að mæta óvissum útgjöldum.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ekki mætti kenna mæðiveikinni um allt. Ráðstafanirnar hennar vegna ættu ekki alla sök á umframeyðslunni. Þetta má vel vera rétt, en annars var það svo, að umframgreiðslurnar 1936 hafa orðið minni en nokkurt annað ár s. l. 10 ár.

Þá sagði þessi hv. þm., að það væri aldrei hlægilegt að breyta á móti lögum, og sneri þar út úr því, sem ég sagði. Orð þau, sem ég lét falla og gáfu hv. þm. tilefni til þessara hugleiðinga, voru á þá leið, að það væri hlægilegt, ef Landsbankinn neitaði ríkissjóði um lán á sama tíma og hann lánaði öðrum stofnunum stórfé, eins og t. d. Reykjavíkurbæ. Ég lít svo á, að ákvæðin um lán til ríkissjóðs í Landsbankanum séu of einstrengingsleg, og þarf ekki langt að seilast eftir rökum fyrir því, því að þessi l. hafa í raun og veru verið sama sem brotin á undanförnum árum, þegar Búnaðarbankinn hefir verið að kaupa víxla af ríkissjóði og Landsbankinn síðan verið látinn kaupa þá af honum. Á þessu er enginn eðlismunur, þó að þetta form sé haft, til þess að ekki sé um beint lögbrot að ræða. En nauðsyn hefir verið á að framkvæma þetta svo, og allir hafa verið sammála um að framkvæma það á þennan hátt, eins og kom fram hjá hv. l. þm. Reykv., sem á sæti í bankaráði Landsbankans. En ég er í miklum vafa um, að löggjafinn hafi ætlazt til, að ekki mætti lána úr Landsbankanum meira en þann ákveðna hluta af stofnfénu, og ég hefi mikla tilhneigingu til að álíta, að miðað hafi verið við seðlabankann, sem á að vera sérskilinn, en um það er ástæðulaust að ræða fram og aftur í sambandi við þetta mál. Það hafa komið fram greinilegar ástæður fyrir því, að ekki sé hægt að komast hjá að lána þessi lán, og það er hliðstætt því, sem gert hefir verið til úrlausnar á vandræðum annara fyrirtækja.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði sagt, að ekkert væri við það að athuga, þó að árlega væru tekin lán, ef markaðurinn þyldi það. Ég sagði, að ekkert væri við það að athuga, ef lánsmarkaðurinn þyldi það, að tekinn væri árlega með innlendu ríkisláni nokkur hluti af þeim föstu afborgunum, sem ríkissjóður ætti að inna af hendi, og ég álít, að ekkert sé voðalegt við það, þó að það sé gert. En það hefir ekki verið gert, og verður varla gert, vegna þess hvað lánsmarkaðirnir hafa verið ákaflega þröngir. Annarsstaðar í öðrum löndum er það ekki neitt slæm fjármálastjórn, þó að þurfi að bjóða út lán til þess að greiða afborganir af ríkisskuldum. Fyrir nokkrum dögum las ég umsögn um fjármálastjórnina í Danmörku í dönsku blaði, sem skrifar mikið um fjármál, og þar var það tekið til dæmis um, hvað fjármálastjórnin væri heilbrigð, að á ákveðnu tímabili hefðu ríkissjóðsskuldirnar staðið í stað, og það hefði verið gert þannig, að boðið hefði verið út mörgum lánum á tímabilinu til þess að borga ríkisskuldirnar, sem hefðu hlaðizt upp, sem svaraði til afhorgana af föstu lánunum. Ég segi ekki, að þetta sé fært hjá okkur, því að ég álít, að við eigum nú að keppa að því að afgr. greiðsluhallalaus fjárl., því að ég álít, að tímarnir séu þannig nú, að við getum ekki búizt við þeim betri næst. Og ef við getum ekki gert þetta nú, þá verður það verra, þegar versnar í ári og verðlag fer lækkandi. Þess vegna álít ég, að þótt það geti út af fyrir sig talizt sæmileg afkoma, að skuldir ríkissjóðs standi í stað og það þyki víða góð útkoma, þá verðum við að keppa að því að afgr. fjárl. fyrir árið 1938 án greiðsluhalla.

Hv. l. þm. Reykv. sagði, að ekki mætti gleyma, að ríkisskuldirnar hvíldu á þeim verðmætum, sem ríkissjóður ætti, og þess vegna væri afkoman versnandi, ef skuldirnar stæðu í stað, vegna þess að eignirnar gengju úr sér. Þetta er að sumu leyti rétt. Eignir ríkisins standa að baki skuldunum, en þjóðin er þar líka á bak við með sínum greiðslumöguleikum. Þess vegna má ekki eingöngu miða við eignirnar, heldur líka möguleika þjóðarinnar til þess að standa undir skuldabyrðinni. Og þar sem þjóðarauðurinn fer vaxandi, en það hefir hann gert m. a. vegna þess, að svo mikið hefir verið sett upp af allsk. nýjum framleiðslutækjum, þá get ég ekki séð, að það sýni versnandi útkomu, þó að skuldir ríkissjóðs standi í stað. Það er öllum vitanlegt, að eignir ríkisins aukast ár frá ári, því að á hverjum fjárl. er alltaf veitt talsvert mikið fé til ýmissar nývirkjunar, sem eykur verðmæti eigna ríkissjóðs. Aðalatr. er þetta, að þjóðin stækkar og þjóðarauðurinn hefir haldið áfram að vaxa, þó að erfitt hafi verið. Þetta er rétt til að svara því dæmi, sem hv. þm. tók, þar sem fasteign stæði á bak við skuld, að þar væri ekki nóg, að skuldin stæði í stað, því að fasteignin gengi úr sér, og því versnaði út¬koman. Og ég tel mig nú hafa sýnt fram á, að hér er ekki sama máli að gegna, því að það er í raun og veru þjóðin og hennar geta, sem stendur á bak við skuldabyrðarnar.

Ég vil þó um leið taka fram, að menn mega ekki taka þessi orð mín sem röksemd fyrir því, að afgr. megi fjárl. með greiðsluhalla. Til þess liggja tvær ástæður. Annarsvegar sú, að við verð¬um að nota alla möguleika til að fá lán innanlands til að létta á lausaskuldum, og svo er líka það, að nú verður að teljast sæmilegt árferði, fyrir utan sérástæður í sambandi við saltfiskssöluna, svo að við getum ekki búizt við því betra á næstu árum, og þess vegna verðum við nú að keppa að því, að afgr. verði greiðsluhallalaus fjárlög, því að annars verður það allt of erfitt, þegar verðlag fer lækkandi og verðmæti útflutnings minnkar.