12.11.1937
Efri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

68. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það eru aðeins örörfá orð. Hv. 9. landsk. hlýtur að hafa misskilið oft og tíðum það, sem ég hefi sagt um greiðsluhalla, ef hann heldur, að ósamkomulag hafi verið um, hvað væru greiðsluhallalaus fjárlög. Ég veit ekki hvað ég hefi oft útskýrt þetta, og það getur hvert barn skilið, að greiðsluhallalaus fjárlög eru það, þegar rekstrarafgangur er svo mikill á rekstrarreikningi, að hann nægir til að greiða afborganir fastra lána og þær nýju framkvæmdir, sem ríkissjóður ætlar að ráðast í, en eru ekki taldar til fastra útgjalda. Þetta eru greiðsluhallalaus fjárlög, og hafa alltaf verið kölluð svo.

hv. 9. landsk. hafi viljað fá fastar afborganir teknar upp sem rekstrarútgjöld, kemur þessu máli ekki við, og skiptir engu máli um það, hvort menn vilja greiðsluhallalaus fjárlög eða ekki, því að ef þær eru taldar með á rekstrarreikningi, þá er rekstrarafgangurinn þeim mun minni, og þá einnig þeim mun minni rekstrarafgangur, sem þarf að færast yfir á sjóðreikning, en það er ekki rétt reikningsfærsla, og það gerir enginn að færa afborganir af lánum sínum með rekstrarútgjöldum.

Viðvíkjandi því, sem hann sagði síðast, að Danir gerðu þetta, þá hefir það verið svo fram á síðustu tvö ár, að þeir hafa ekki gert það, því að það form, sem hér er haft, er alveg tekið eftir formi Dana. Mér er kunnugt um það, því að ég hafði það með höndum að samræma reikningana að þessu leyti við það, sem gerðist þar.

Ég sagði áðan, að ég hefði séð það tekið til marks um, hve heilbrigð væri fjármálastjórnin hjá Dönum, að á ákveðnu tímabili hefði skuldir þar ekki hækkað. Ég sá þetta í viðlesnu dönsku fjármálablaði, en ég man ekki, hvaða ár það voru, sem voru þar tekin til samanburðar. En menn mega ekki láta það villa sig, þegar sagt er frá, hvað mikill tekjuafgangur hafi verið t. d. á ríkisreikningum Dana eða á fjárlögum Dana, og ég hygg, að sama máli gegni með Noreg og Svíþjóð, því að þegar talað er um, hvað mikill tekjuafgangur hafi verið, þá er það ekki að frádregnum föstum afborgunum lána, heldur er lánareikningurinn út af fyrir sig hjá þessum þjóðum.