12.11.1937
Efri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

68. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. 1. þm. Reykv. heldur fast við, að maður, sem borgar ekki af skuldinni af húsi sínu, hann hljóti að tapa. (MJ: Á því). Það er ekki heldur rétt, að það þurfi að vera. Í fyrsta lagi gefur það enga hugmynd um, hvernig maðurinn kemst af, því að hann getur lagt fé sitt í aðra eign, og svo er ekki heldur víst, að hann tapi, þó að hann greiði ekki niður veðskuldina, því að hann getur grætt meira á því að láta hana standa, en leggja fé sitt í annað, svo að dæmið er ónýtt. Ef maður ber þetta saman við ríkisskuldirnar, þá er þetta hliðstætt, því að þótt þær standi í stað, þá þarf það ekki að bera vott um, að ríkið tapi, í fyrsta lagi vegna þess, að það gæti verið, að ríkið yki eignir sínar að sama skapi, og því síður að skuldirnar væru meiri baggi á þjóðinni í heild sinni, því að ef hún eykur eignir sínar, þá er það minni baggi en áður. Annars er þýðingarlaust að deila um þetta, en mér þótti rétt að leiðrétta þetta hjá hv. þm.

Það er alveg rétt, að engin skýrsla er komin fram um allar eignir þjóðarinnar. En ef maður athugar síðustu 3 ár, sem hafa verið afarerfið ár, athugar utanríkisviðskiptin, sem oft gefa góða hugmynd um þetta, skiptir í tvennt þeim vörum, sem fluttar eru til landsins — tökum annarsvegar þær, sem notaðar eru til atvinnurekstrar, og hinsvegar þær, sem notaðar eru til allrar mögulegrar nýsköpunar í atvinnulífinu, þá leynir sér ekki, að það skiptir mörgum milljónum, tugum milljóna, sem flutzt hefir inn til nýsköpunar í atvinnulífinu, ekki sizt síðustu 2–3 ár, og það er eðlilegt, þar sem á þessum árum hefir verið byggður upp með verulegum kostnaði atvinnuvegur, sem að vísu var rekinn áður, en þó í tiltölulega smáum stíl á móti því sem nú er, sem sé síldariðnaðurinn og fleiri iðngreinar, sem hafa risið upp. Ég er því sannfærður um, að þótt nú sé erfitt gjaldeyrisástand, mjög erfitt, þá hafi í sjálfu sér eignir þjóðarinnar vaxið á þessum sama tíma. Og þessi gjaldeyrisvandræði, sem við eigum við að búa, stafa af tvennu, annarsvegar af því, að útflutningur á saltfiski hefir hrapað niður, og hinsvegar af því, að á sama tíma höfum við orðið að byggja upp nýjar atvinnugreinir í staðinn fyrir saltfisksútgerðina.