20.11.1937
Neðri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

68. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Ólafur Thors:

Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, eins og getið hefir verið um. Ástæðan til þess er sú, að við sjálfstæðismenn höfum verið því andvígir, að ríkissjóður sé að bæta við sig nýjum og nýjum lánum. Að ég samt sem áður hefi gengið inn á að samþ. þetta frv., stafar af því, að við viðurkennum, að eins og komið er með þetta, þá getum við ekki bent á aðra leið heldur en lántöku, sem við viljum fremur að farin sé. Ríkissjóður hefir nú á seinustu árum hvað eftir annað stofnað til allstórra skulda, upp á síðkastið hjá Landsbankanum. Og það hefir komið fram undir umr. um þetta mál, að þessar lántökur eru í ósamræmi við gildandi ákvæði laga um lánveitingar af hálfu Landsbankans. Það getur ekki gengið til lengdar, að bein fyrirmæli 1. séu brotin. Ég ætla ekki að fara út í að ræða það nú, hvort nauðsyn hafi borið til, að fjáreyðsla ríkisins var svo mikil, að til þessara lána þurfti að stofna. Til þess munu gefast tækifæri síðar, enda hefir oft áður verið minnzt á það. En það þýðir ekki að loka augunum fyrir því, að l. samkv. er ekki heimilt, að þær standi áfram hjá Landsbankanum í því formi, sem þær nú eru. Fyrir okkur liggur annaðhvort að benda á aðrar leiðir til að afla fjár til að borga þessar skuldir eða skera niður útgjöld ríkisins sem þessu nemur. Nú getum við, eins og ég tók fram, ekki bent á aðrar færari leiðir, og við sjáum okkur ekki fært að mæla með því að lækka útgjöldin. Þessvegna tökum við þessa afstöðu til málsins, þó að við séum hinsvegar mótfallnir því, að búið sé þannig fyrir ríkissjóðinn. Þetta er sá fyrirvari, sem ég vildi gera.